verkefnastjórn
Frá áætlun til afhendingar
Tryggja þarf í hverju verkefni að þau séu vel undirbúin, faglega framkvæmd og leyst af hendi í samræmi við gæðakröfur, tímaáætlun og kostnaðarmarkmið. Með traustri verkefnastjórn má draga úr áhættu, auka gæði og hámarka hagkvæmni í framkvæmdum.
VSÓ Ráðgjöf býður upp á heildstæða þjónustu við verkefnastjórnun sem nær yfir öll stig framkvæmda – allt frá fyrstu áætlanagerð til verkloka. Við leggjum áherslu á skýra verkferla, nákvæma skjölun og gagnsæ samskipti á öllum stigum verkefnis. Starfsfólk okkar býr yfir víðtækri reynslu af fjölbreyttum byggingarverkefnum og sameinar þekkingu á tæknilegri hönnun, verklegum framkvæmdum, umhverfisþáttum og stjórnun. Með öflugu utanumhaldi og lausnamiðaðri nálgun tryggjum við að verkefni fari vel af stað og ljúki með tilætluðum árangri á tilsettum tíma.
Áætlanagerð
Vönduð áætlanagerð er ein af grunnstoðum árangursríkra verkefna. Hún tryggir að framkvæmdir fari af stað með raunhæfar forsendur að leiðarljósi, að kostnaður og tími séu metin með skýrri aðferðafræði og að hægt sé að fylgja eftir markmiðum, stýra frávikum og forgangsraða aðgerðum þegar á reynir.
Hjá VSÓ Ráðgjöf starfa reyndir sérfræðingar við gerð áætlana á öllum stigum framkvæmda, allt frá frumstigi þeirra til endanlegrar útfærslu. Þar á meðal má nefna verkefnisáætlanir, byggingaráætlanir, framkvæmdaáætlanir, kostnaðaráætlanir, tímaáætlanir, arðsemismat og áhættumat. Áætlanir eru unnar í samráði við verkkaupa, hönnuði og aðra hagsmunaaðila og byggja bæði á reynslu og staðlaðri aðferðafræði.
Byggingarstjórn
Byggingarstjóri ber m.a. ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir og kröfur verkkaupa. Hann hefur umsjón með verkinu, rekstri vinnustaðarins, samræmingu á vinnu verktaka og sér til þess að aflað sé nauðsynlegra leyfa. Góð byggingarstjórn bætir flæði upplýsinga, dregur úr villum og tryggir að brugðist sé skjótt við frávikum.
VSÓ hefur innan sinna raða starfsfólk með mikla reynslu af byggingarstjórn sem tryggir að öll stig verksins – frá grunni til lokaúttektar – séu unnin af fagmennsku og samkvæmt samþykktum gögnum. Við vinnum í nánu samstarfi við verkkaupa, hönnuði, verktaka og eftirlitsaðila – og leggjum áherslu á traust og vönduð vinnubrögð í hverju skrefi.
Endurnotkunaráætlanir
Þegar endurbætur á byggingum eða niðurrif standa fyrir dyrum er endurnotkunaráætlun lykilverkfæri til að draga úr úrgangi og hámarka nýtingu efna. Til að tryggja að efni og búnaður fari ekki til förgunar að óþörfu er kortlagt vandlega hvað getur fengið framhaldslíf – hvort sem það er á sama stað, í öðrum verkefnum eða sem hráefni í nýjar lausnir.
VSÓ framkvæmir úttektir á ástandi byggingarefna og gerir endurnotkunaráætlun sem innifelur magntöku á helstu byggingarefnum og byggingarhlutum, flokkun og greiningu á leiðum til endurnotkunar og endurvinnslu. Einnig eru gerðar umhverfisúttektir til að skima fyrir spilliefnum og tryggja örugga meðhöndlun hættulegra efna.
Framkvæmdaeftirlit
Skilvirkt framkvæmdaeftirlit tryggir að framkvæmdir fari fram samkvæmt samþykktri hönnun, gæðakröfum og lagalegum skilyrðum. Störf framkvæmdaeftirlits fela m.a. í sér daglega vöktun á framvindu og vinnubrögðum, skráningu og skýrslugerð, yfirferð efnisnotkunar og framkvæmdaaðferða, tryggingu á öryggi í vinnuumhverfinu, sem og samráð við verktaka, hönnuði og verkkaupa. Einnig tryggjum við að framkvæmd sé í samræmi við útboðs- og hönnunargögn, lög og reglugerðir.
Með traustri nærveru á vettvangi, yfirsýn yfir verkferla og skýr samskipti við alla hlutaðeigandi aðila tryggjum við að framkvæmdin uppfylli þau gæði og það öryggi sem krafist er – og verkkaupi fái það sem samið var um.
Framkvæmdaráðgjöf
Vandaður undirbúningur er lykillinn að því að það verkefni sem ráðast á í skili árangri og uppfylli þarfir verkaupa og notenda, hvort sem um ræðir mannvirkjagerð, þjónustu eða framleiðslu. Framkvæmdaráðgjöf VSÓ spannar ferlið frá því að hugmynd kviknar og þar til verkefnið er farið í hönnunarferli eða þjónusta eða framleiðsla hefst. Þar má m.a. nefna þarfagreiningu og skilgreiningu verkefnis, áætlanagerð, val á lausnum, samskipti við opinber yfirvöld og leyfisveitendur, val á útboðsaðferð, gerð útboðsgagna og umsjón útboða, sem og aðstoð við samningagerð.
Með faglegri framkvæmdaráðgjöf stuðlum við að því að verkefni hefjist með skýrri stefnu og samræmdri sýn og styðjum þannig verkkaupa í að taka upplýstar ákvarðanir og hámarka gæði og virði verkefnisins.
Umhverfisvottun skipulags og bygginga
Kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa fara vaxandi og fleiri sjá tækifæri í að velja vistvænar lausnir. Hægt er að fá umhverfisvottun á nýbyggingar, endurbyggingu, rekstur bygginga og skipulag byggðar.
Á Íslandi eru það einkum vistvottunarkerfin Svanurinn og BREEAM sem stuðst er við í byggingum. Með þessum vottunum er hægt að sýna fram á að kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa séu uppfylltar auk þess sem þær veita áreiðanlegan gæðastimpil.
VSÓ veitir fjölbreytta þjónustu við umhverfisvottun bygginga, t.d. við gerð skilagagna, úttektir, útreikninga og verkumsjón.
Umsjón útboða
VSÓ tekur að sér umsjón útboða, fyrir bæði opinbera aðila og einkaaðila, og veitir ráðgjöf við alla þætti ferilsins m.a. val á útboðsleið, gerð útboðsgagna, umsjón á útboðstíma, mat tilboða, ráðgjöf við störf matsnefnda og aðstoð við samningsgerð í kjölfar niðurstöðu. Jafnframt höfum við yfir að ráða útboðsvef sem uppfyllir kröfur um rafrænt útboð ásamt því að stuðla að auðveldri gagnaumsýslu, rekjanleika samskipta og jafnræði bjóðenda.
Sérfræðingar VSÓ hafa víðtæka reynslu af umsjón fjölbreytilegra útboða – s.s. hönnunarútboða, samkeppnisviðræðna, stórra sem smárra framkvæmdaútboða og útboða á ýmiskonar þjónustu. Sem dæmi um þjónustuútboð má m.a. nefna búnaðarkaup, sorphirðu, gámaflutninga, akstur, ræstingar og útboð á aðstöðu fyrir rekstur ýmissar starfsemi s.s. leikskóla, heilsuræktar o.fl.
Verkefnastjórnun
Verkefnastjórnun felur í sér að leiða skilgreint verkefni að ákveðnu markmiði – frá hugmynd til verkloka. Skilvirk verkefnastjórnun byggir á góðri yfirsýn, tæknilegri þekkingu og færni í að halda utan um flókin ferli og aðkomu ólíkra aðila. Með skýrri stefnumörkun, samhæfingu aðila og vönduðu utanumhaldi má tryggja að verkefni nái markmiðum sínum.
VSÓ tekur að sér verkefnastjórnun verkefna af ýmsum toga og á mismunandi stigum. Í því felst m.a. gerð verk- og tímaáætlana, kostnaðarmat og áhættugreiningar, stuðningur við leyfisveitingar og samninga, eftirfylgni með framvindu, samhæfing hönnunar og framkvæmdar, skjölun og samskipti við alla hagsmunaaðila. Við vinnum í nánu samstarfi við verkkaupa, hönnuði, verktaka og eftirlitsaðila og tryggjum að upplýsingaflæði og ákvarðanataka sé markviss og gagnsæ.
Viðhald og rekstur mannvirkja
Gerð áætlana um viðhald og rekstur eigna er mikilvægur þáttur í því að verðgildi og notagildi þeirra haldist sem lengst. Með kerfisbundinni nálgun má lágmarka rekstraráhættu, lengja líftíma bygginga og innviða, draga úr viðhaldskostnaði og stuðla að auknum lífsgæðum notenda. Einnig er mikilvægt að hugað sé að orkunýtingu, lofgæðum, aðgengismálum, öryggi og heilbrigði.
Sérfræðingar VSÓ meta ástand eigna, segja fyrir um nauðsynlegar aðgerðir, setja þær í forgangsröð og meta kostnað. Við styðjum jafnframt viðskiptavini við að móta viðhaldsstefnu sem byggir á ástandsgreiningu, notkun og væntanlegri þróun mannvirkisins. Með þverfaglegri þekkingu á byggingatækni, ástandsmati, eignastýringu og sjálfbærum lausnum stuðlum við að því að mannvirki haldi gildi sínu.
Tengiliðir
Nánari upplýsingar um Verkefnastjórn veitir:

Kristinn Alexandersson
Sviðsstjóri Verkefnastjórnunar

Ólafur Hermansson
Verkefnastjóri Verkefnastjórnunar