Endurnotkunaráætlanir

Það er mikill ávinningur fyrir eigendur fasteigna að kortleggja fasteignir sínar, einkum ef til stendur að breyta þeim eða taka niður. Tilgangur þess að gera endurnotkunaráætlun er að hámarka virði eigna og stuðla að sjálfbærni með því að nýta betur eða selja byggingarefni og byggingarhluta.

VSÓ Ráðgjöf gerir úttektir á eignum til að áætla magn og ástand byggingarefna. Metnir eru möguleikar á uppgerð húsa, endurnotkun húsnæðis auk þess sem reynt er að hámarka endurheimt byggingarefna frá niðurrifi til síðari notkunar. Ef ekki er hægt að endurnota byggingarefni er reynt að endurvinna þau. Þá er kolefnisspor bygginga metið í slíkri úttekt. Framkvæmd úttektar er m.a. forkrafa til að fá stig í BREEAM (Waste 01).

Með því að endurnota byggingarefni er verið að:

  • Lágmarka hráefnaöflun og úrgangsmyndun í byggingariðnaði og styðja við innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
  • Lágmarka kolefnislosun sem verður vegna nýbygginga.
  • Viðhalda virði byggingarefna.

Endurnotkunaráætlanir eru unnar í samræmi við byggingarreglugerð gr. 15.2.2. Þær innihalda magntöku á helstu byggingarefnum og byggingarhlutum, flokkun og greiningu á leiðum og farvegi til að endurnota byggingarefni og endurvinna það sem ekki er hægt að endurnota.

Umhverfisúttekt fyrir niðurrif felst í að skima fyrir sjáanlegum spilliefnum til að tryggja rétta meðhöndlun hættulegra efna við förgun og til að öryggi sé viðhaft við niðurrif. Hægt er að sérsníða endurnotkunaráætlun að kröfum í BREEAM vistvottunarkerfinu í tengslum við úttekt fyrir niðurrif (e. pre-demolition audit). Greiningin er unnin út frá þekkingu á notkun byggingarefna á þeim tíma sem byggingin var reist og einnig með sýnatökum af völdum efnum og efnagreiningum. Unnin er skýrsla þar sem tilgreint er hvort hættuleg efni eru í byggingunni sem fyrirhugað er að rífa eða endurbæta. Sum efni eru ekki hættuleg þegar þau eru í föstu formi í byggingunni en geta verið hættuleg umhverfinu við förgun eða skapað hættu í vinnuumhverfi við niðurrifið.


Nánari upplýsingar veitir:

Guðný Káradóttir
Teymisstjóri – Græna leiðin
gudny@vso.is
s: 585 9138