Umhverfisvottun skipulags og bygginga

Kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa fara vaxandi og fleiri sjá tækifæri í að vanda undirbúning og velja vistvænar lausnir þegar kemur byggðu umhverfi, mannvirkjagerð og skipulagi byggðar. Hægt er að fá umhverfisvottun á nýbyggingar, endurbyggingu, á rekstur bygginga eða á skipulag hverfa og borga.

Umhverfisvottunarkerfi, sem einnig eru kölluð vistvottunarkerfi, eru byggð á þremur þáttum sjálfbærni – umhverfi, samfélagi og efnahag –  en til eru nokkur mismunandi vistvottunarkerfi sem byggja á ólíkum áherslum og kröfum. Vottunin staðfestir að verkefni standist kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa.

Ávinningur umhverfisvottana:

 • Minni losun á gróðurhúsalofttegundum.
 • Bætt nýting auðlinda s.s. orku, vatns og annarra.
 • Aukin lífsgæði höfð að leiðarljósi við hönnun, framkvæmdir og rekstur.
 • Lægri rekstrarkostnaður mannvirkja.
 • Heilsusamlegri byggingar, bætt loftgæði o.fl.
 • Meira virði bygginga.
 • Aðdráttarafl fyrir fjárfesta, leigjendur og íbúa.

Á Íslandi eru einkum tvö vistvottunarkerfi sem hafa náð útbreiðslu í byggingum, BREEAM og Svanurinn. Með þessum vottunum er hægt að sýna fram á að kröfur um sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa séu uppfylltar auk þess sem þær veita áreiðanlegan gæðastimpil.

Code for a sustainable built environment

BREEAM vottun er víðtækasta umhverfisvottunarkerfi heims sem staðfestir að byggingar stansdist kröfur um sjálfbærni. Yfir 570 þúsund byggingar hafa hlotið BREEAM vottun og er kerfið notað í a.m.k. 86 löndum.

BREEAM vottun

BREEAM sem stendur fyrir Building Research Establishment Environmental Assessment Method er eitt víðtækasta og þekktasta vistvottunarkerfi fyrir skipulag og byggingar. Það hvetur bæði til sjálfbærrar byggðar, byggingarhönnunar og vistvænnar stjórnunar á verk- og rekstrartíma og skapar þar með verðmætari og áhættuminni eignir. Vottunarkerfið, sem á uppruna í Bretlandi, er alþjóðlegt og notar viðurkenndan kröfuramma við frammistöðumat á hönnun, framkvæmd og rekstrartíma byggingar.

Opinberar stofnanir, einkafyrirtæki, fjármögnunar- og þróunaraðilar nýta sér BREEAM í vaxandi mæli til að votta bæði byggingar og skipulag. BREEAM vottun staðfestir að í viðkomandi verkefni sé leitast við að hlúa að samfélaginu með samfélagslegri ábyrgð, sjálfbærni, kolefnishlutleysi og minnkandi kolefnisspori að leiðarljósi. Vottunin styður jafnframt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

BREEAM vistvottunarkerfið dregur alla hlutaðeigandi aðila í verkefninu að borðinu mun fyrr í ferlinu heldur en oft tíðkast. BREEAM leggur áherslu á að samráð eigi sér stað meðal hönnuða, verkkaupa, notenda og annarra hagsmunaaðila. Fyrir vikið gefst öllum hlutaðeigandi kostur á að hafa áhrif á verkið áður en það er komið svo langt á veg að breytingar verði of kostnaðarsamar eða ómögulegar.

BREEAM vottun á skipulagsáætlunum er sterkt tæki til að meta sjálfbærni skipulagsáætlana eða áætlana fyrir einstök uppbyggingarsvæði.

Tekið er tillit til fjölmargra þátta í vottuninni allt frá innivist til orkunotkunar. Settar eru fram ákveðnar lágmarkskröfur sem ekki má víkja frá en einnig eru metin fjölmörg atriði sem ýta undir sjálfbærni í hönnun og hönnunarferli. BREEAM leggur áherslu á að samráð eigi sér stað meðal hönnuða, verkkaupa, notenda og annarra hagaðila. Allir hlutaðeigandi aðilar í verkefninu koma saman fyrr að borðinu heldur en oft tíðkast. Fyrir vikið gefst öllum hlutaðeigandi kostur á að hafa áhrif á verkið áður en það er komið svo langt á veg að breytingar verði of kostnaðarsamar eða ómögulegar.

Hægt er að votta fjölbreyttar tegundir bygginga:

 • Íbúðir.
 • Skrifstofuhúsnæði.
 • Iðnaðarhúsnæði.
 • Verslanir, sýningarrými og veitingastaði.
 • Menntastofnanir.
 • Dvalarstofnanir.
 • Gististaði.
 • Aðrar byggingar sem oft eru byggðar af opinberum aðilum s.s. íþróttahús, sjúkrahús, fangelsi og söfn.

Viðurkenndir aðilar með tilskilin réttindi í BREEAM vottunarkerfinu annast vottunarferlið og gera viðeigandi úttektir á hönnun og á því hvort uppfylltar séu þær kröfur sem gerðar eru.

VSÓ veitir ráðgjöf varðandi BREEAM vottun og þar starfa viðurkenndir BREEAM matsaðilar fyrir:

 • Skipulagsáætlanir – BREEAM Communities.
 • Nýbyggingar – BREEAM New Construction.
 • Endurbyggingu og endurnýjun húsnæðis – BREEAM Refurbishment and Fit Out.
 • Byggingar í rekstri – BREEAM In-Use.

Sjá einnig nánari upplýsingar um BREEAM í kynningarbæklingi Grænni byggðar og á vef BREEAM – BRE Group

 

Dæmi um BREEAM verkefni sem VSÓ hefur komið að:

 • Dalvegur 30: Höfuðstöðvar Deloitte.
 • Borgartún 8-16: Höfuðstöðvar Reykjavíkurborgar.
 • Borgartún 20: Skrifstofur VSÓ.
 • Njálsgata 89: Miðborgarleikskólinn.
 • Katrínartún 6: Skrifstofubygging.

SVANURINN er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Markmið Svansins með vottun bygginga er að minnka umhverfisáhrif þeirra og lögð er mikil áhersla á heilsusamlegt húsnæði og lágmörkun eiturefni í byggingarefnum.

Svansvottun

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og er Umhverfisstofnun umsjónaraðili þess á Íslandi. Upphaflega var merkið einungis fyrir vörur og þjónustu en hefur þróast og hægt er að nota það til vottunar á byggingum.

Markmið Svansins með vottun bygginga er að minnka umhverfisáhrif þeirra og er lögð mikil áhersla á heilsusamlegt húsnæði og lágmörkun eiturefna í byggingarefnum. Um er að ræða óháða og áreiðanlega vottun þar sem viðmið eru þróuð af sérfræðingum, kröfur eru sértækar og hertar reglulega.

Byggingar eru metnar út frá lífsferli, orkunotkun og umhverfis- og heilsukröfum. Mikil áhersla er á að minnka eiturefni í byggingarefnum sem gerir það að verkum að mörg efni eru bönnuð í Svansvottuðum húsum.

Hægt er að votta nýbyggingar og endurbætur á byggingum. Eftirfarandi tegundir bygginga er hægt að votta skv. Svaninum:

 • Einbýlishús
 • Fjölbýlishús
 • Skólabyggingar
 • Skrifstofubyggingar
 • Hjúkrunarheimili
 • Sumarhús

Sækja þarf um Svansvottun hjá Umhverfisstofnun og skila inn umsóknargögnum. Umhverfisstofnun fer yfir gögnin og kemur með athugasemdir. Í vottunarferlinu mun vera gerð úttekt.

Uppfylla þarf viðmið Svansins til að hljóta vottun sem byggist á skyldukröfum og stigakerfi. Í Svansvottun eru ekki um að ræða mismunandi stig vottunar og því þarf að uppfylla allar skyldukröfur og ná lágmarksfjölda stiga til að öðlast vottun.

Í Svaninum er vottað út frá öllum þremur þáttum sjálfbærni: Umhverfi, efnahag og samfélagi. Mest áhersla lögð á umhverfisþáttinn. Miklar kröfur eru gerðar til efna og hluta, eiturefni eru bönnuð og áhersla á að minnka hráefnanotkun. Í Svansvottuðum byggingum er áhersla lögð á innihald byggingarefna, innivist í byggingum og að draga úr umhverfisáhrifum bygginga.

Ávinningur af Svansvottun bygginga felst í:

 • Heilnæmari og öruggari byggingum.
 • Auknum gæðum bygginga.
 • Eignin er líklegri til að standast kröfur leigutaka/notenda til lengri framtíðar.
 • Dregið er úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
 • Minni rekstrarkostnaði, minna viðhaldi og lægri orku- og hitunarkostnaði.

VSÓ býður ráðgjöf við Svansvottun bygginga og leggur áherslu á orkuútreikninga, dagsbirtuútreikninga og rakaútreikninga.


Nánari upplýsingar veitir:

Guðný Káradóttir
Teymisstjóri – Græna leiðin
gudny@vso.is
s: 585 9139