Stefnur VSÓ Ráðgjafar

Sjálfbærnistefna

Sjálfbærnistefna

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, og þrjár meginstoðir hennar, umhverfi, samfélag og efnahagur, er höfð að leiðarljósi í starfsemi og þjónustu VSÓ. Við stuðlum að vitundarvakningu um sjálfbærni og stöðugum umbótum. Við vinnum að því að innleiða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í starfsemina með áherslu á valin Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eru 3 Heilsa og vellíðan, 5 Jafnrétti kynjanna, 8 Góð atvinna og hagvöxtur, 11 Sjálfbærar borgir og samfélög, 12 Ábyrg neysla og framleiðsla og 13 Aðgerðir í loftslagsmálum. Með þessu leggjum við okkar af mörkum svo að Heimsmarkmiðunum verði náð fyrir 2030.

Við setjum okkur mælanleg markmið um árangur og vinnum eftir aðgerðaáætlun til að ná þeim. Alþjóðlega viðurkenndir mælikvarðar eru notaðir til að meta árangur. Við miðlum reglulega upplýsingum um árangur og leggjum áherslu á gagnsæi í allri upplýsingagjöf.

Við höfum komið upp rekstrarkerfi sem uppfyllir kröfur ÍST ISO 9001 um gæðastjórnun, ÍST ISO 14001 um umhverfisstjórnun og ÍST ISO 45001 um öryggis- og heilsustjórnun. Við virðum lög og reglur sem gilda um starfsemina.

Stefnumiðin eru fjögur:

Framsækni í loftslags- og umhverfimálum: Við berum virðingu fyrir náttúrunni, drögum úr neikvæðum umhverfisáhrifum og leggjum áherslu á að draga úr kolefnislosun í starfseminni með vistvænum innkaupum á vörum og þjónustu, ábyrgri auðlindanýtingu og lágmörkun úrgangsmyndunar. Við stuðlum að vistvænum samgöngum starfsfólks og vinnum að kolefnisbindingu með ábyrgum hætti. Við leggjum áherslu á fræðslu og ráðgjöf til viðskiptavina sem stuðlar að góðri umgengni um náttúruna og sjálfbærri framtíð. Við stuðlum að kolefnishlutleysi og höfum hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins að leiðarljósi í okkar verkefnum.

Eftirsóttur og öruggur vinnustaður: Við stöndum vörð um vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks og jafnrétti. Lögð er áhersla á þátttöku starfsfólks í að skapa góða öryggismenningu. Fagþekking og reynsla starfsfólks er lykill að árangri og við styðjum við símenntun og framþróun í starfi. Við leggjum áherslu á góða liðsheild, heilbrigða vinnustaðamenningu og fjölskylduvænan vinnustað.

Hagur viðskiptavina og gæði þjónustu: Við leggjum áherslu á að veita viðskiptavinum faglega og hagkvæma ráðgjöf sem uppfyllir væntingar þeirra um gæði. Við vinnum náið með viðskiptavinum og bjóðum lausnir sem skila raunverulegum árangri, stuðla að framförum og forskoti þegar kemur að sjálfbærni.

Ábyrgir viðskipta- og stjórnarhættir: Við leggjum áherslu á að nýta fjármagn með sem hagkvæmustum hætti og einkennist verklag okkar af góðu viðskiptasiðferði, heilbrigðum viðskiptaháttum og ábyrgð. Við tileinkum okkur góða stjórnarhætti innan fyrirtækisins þar sem alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á því sviði er fylgt. Við styðjum við samfélagsleg málefni, mannréttinda- og góðgerðarmál.

Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir sjálfbærnistefnunni og á innleiðingu hennar í kjarnastarfsemi og daglegan rekstur. Mælikvarðar, markmið og aðgerðaáætlun eru í sífelldri þróun og er stefnan yfirfarin árlega. Starfsmenn fá reglulega fræðslu um áherslur og leiðir til aukinnar sjálfbærni í lífi og starfi og tryggt er að þeir þekki og skilji sjálfbærnistefnuna.

Persónuverndarstefna

Persónuverndarstefna

Almennt

Stefna þessi tekur til persónuupplýsinga hvort sem þeim er safnað og þær varðveittar með rafrænum hætti, á pappír eða með öðrum sambærilegum hætti.  Stefnan tekur til skráningar, vörslu og vinnslu á persónuuplýsingum sem falla undir stefnuna.

 

Ábyrgð

VSÓ Ráðgjöf ehf. ber ábyrgð á skráningu persónuupplýsinga og meðferð þeirra upplýsinga í starfsemi sinni.

 

Söfnun og notkun

VSÓ safnar persónuupplýsingum vegna ráðningarsambands, umsóknarferils, samskipta við viðskiptavini, verktaka og birgja:

Starfsmenn: Nafn, kennitölu, heimilisfang, til að geta uppfyllt skyldur samkvæmt bókhaldslögum, bankaupplýsingar/stéttafélag, lífeyrissjóð, tímaskráningu, frammistöðu, ferilskrár.

Umsækjendur: Nafn, kennitölu, heimilisfang, ferilskrár.

Viðskiptavinir: Nafn fyrirtækis, kennitölu, tegund og dagsetningu viðskipta til að geta uppfyllt skyldur samkvæmt bókhaldslögum, nafn tengiliðs, bankaupplýsingar.

Verktakar og birgjar: Nafn fyrirtækis, kennitölu, tegund og dagsetningu, nafn tengiliðs, bankaupplýsingar.

Vefsíða: VSÓ notar Google Analytics til vefmælinga á vefsíðu sinni. Safnað er upplýsingum um heimsóknir á vefinn s.s. tími, leitarorð og hvaðan heimsóknir koma. Eingöngu er um tölfræðilegar upplýsingar að ræða sem ætlaðar eru til að bæta þjónustu við notendur. Engin persónugreinanleg úrvinnsla á sér stað á þeim upplýsingum sem safnað er.

 

Miðlun

VSÓ selur aldrei persónuupplýsingar.  

Með staðfestu samþykki starfsmanns er VSÓ heimilt að miðla viðeigandi persónuupplýsingum til þriðja aðila (vinnsluaðila) sem er þjónustuveitandi eða verktaki okkar í þeim tilgangi að ljúka við verkefni eða sé okkur það skylt samkvæmt lögum.

Við verkefnaöflun er persónuupplýsingum sem varða hæfni einstaklings miðlað til viðeigandi aðila. 

 

Verndun

VSÓ Ráðgjöf leggur mikla áherslu á að vernda vel allar persónuupplýsingar og hefur því yfir að skipa innra eftirliti með persónuupplýsingum sem á að tryggja að ávallt séu gerðar viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar  öryggisráðstafanir. 

Athygli  er þó vakin á því að þú berð ber ábyrgð á persónuupplýsingum, t.d. nafni, kennitölu og mynd, sem þú kýst að deila eða senda á almennum vettvangi t.d. í gegnum samfskiptamiðla og samfélagssíður VSÓ Ráðgjafar. 

Gagnaflutningur á internetinu er þó aldrei fullkomlega öruggur. Þér er því bent á að láta okkur umsvifalaust vita ef þú telur hættu á að tilteknar upplýsingar sem þú hefur gefið okkur séu í hættu. 

 

Varðveisla

VSÓ reynir eftir fremsta magni að halda þeim persónuupplýsingum sem safnað er nákvæmum og áreiðanlegum og uppfærir þær eftir þörfum.

 

Réttindi þín

Þú átt rétt á og getur alltaf óskað eftir að fá aðgang að þeim upplýsingum sem þú hefur afhent okkur, óskað eftir leiðréttingu, breytingu eða eyðingu gagna eftir því sem við á með því að senda skriflega fyrirspurn á vso@vso.is.

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun VSÓ Ráðgjafar byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og öðrum kröfum er varða meginregluna um að greidd skuli jöfn laun og sömu kjör fyrir jafn verðmæt og sambærilega störf.

Stefna VSÓ Ráðgjafar er að gætt skuli fyllsta jafnréttis óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Fyrirtækið stefnir að fjölgun kvenna í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum.

Tryggja skal að mannauður fyrirtækisins nýtist sem best og kynbundin mismunun eigi sér ekki stað.

Stefnumið:

  • Greiða skal jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
  • Leitast skal við að jafna kynjahlutfall í hinum ýmsu störfum innan fyrirtækisins.
  • Allir starfsmenn fá jafna meðferð fyrirtækisins þ.m.t. við ráðningar og framgang í starfi og unnið skal gegn allri mismunun.
  • Allir starfsmenn skulu eiga jafnan aðgang að starfsmenntun og þjálfun.
  • Gera skal starfsmönnum kleift að samræma atvinnu og fjölskyldulíf.
  • Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni og einelti verða ekki liðin.
  • Setja sér mælanleg markmið, hafa eftirlit með og vinna að stöðugum umbótum í jafnlaunamálum.
Sáttmáli gegn einelti, áreitni og ofbeldi

Sáttmáli gegn einelti, áreitni og ofbeldi (EKKO)

Stefna VSÓ er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni, sem og öðru ofbeldi (hér eftir nefnd EKKO) á vinnustöðum.

Hjá VSÓ Ráðgjöf er lögð áhersla á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli alls starfsfólks. Starfsfólki ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hvert öðru tilhlýðilega virðingu og jákvætt viðmót.

Öll á vinnustaðnum þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja ótilhlýðilega háttsemi og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega. EKKO verður undir engum kringumstæðum umborið á vinnustaðnum, hvorki í samskiptum starfsfólks né samskiptum við einstaklinga sem sækja þjónustu til eða eru í viðskiptum við fyrirtækið. Slíkt er gert með markvissu forvarnarstarfi, skýrum verkferlum og stuðningi. Í EKKO tilvikum skal fylgja skilgreindri viðbragðsáætlun.

Upplifun einstaklingsins skiptir meginmáli þegar rætt er um einelti og aðra ótilhlýðilega hegðun. Sérhver einstaklingur verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé honum misboðið.

Stefna VSÓ Ráðgjafar er að:

  • Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun VSÓ Ráðgjafar gegn EKKO og erum meðvituð um skyldur okkar.
  • Við líðum ekki EKKO, beitum því ekki og vitum að meðvirkni getur skaðað starfsfólk og vinnustað okkar.
  • Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
  • Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
  • Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
  • Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.
  • Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
  • Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.