Vistferilsgreiningar – LCA

Vistferilsgreiningar eða „Life-Cycle Assessment“ (LCA) eru framkvæmdar til þess að skoða mögulegar lausnir til að draga úr vistspori vöru. Greiningin felur í sér að skoða umhverfisáhrif yfir vistferil vöru, eða líftíma hennar, oft kallað „frá vöggu til grafar“.  Allt frá öflun og meðhöndlun hráefnis, framleiðslu og flutingum, afnotum, viðhaldi og loks endurvinnslu eða förgun er tekið meið í reikninginn.

Af hverju ætti að framkvæma vistferilsgreiningu?

 • Til að besta efnaval, efnanýtingu o.s.frv. til þess að finna hagkvæmustu og um leið umhverfisvænustu lausnina fyrir hvert verkefni.
 • Það er samfélagslega ábyrgt að lágmarka vistspor vöru.
 • Framkvæmd vistferilsgreininga mannvirkja gefur stig í umhverfisvottunum.
Umhverfisyfirlýsingar

Umhverfisyfirlýsing vöru er skjal sem gefur sannreyndar upplýsingar um umhverfisáhrif vörunnar yfir vistferil eða líftíma hennar. Að baki umhverfisyfirlýsingar liggur vistferilsgreining (e. Life Cycle Assessment, LCA). Umhverfisyfirlýsingar fyrir vörur eru útbúnar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum (ISO 14025/ EN 15804) og taka einnig mið af vöruflokkaleiðbeiningum (e. Product Category Rules, PCR) hjá útgefendum.

Umhverfisyfirlýsing felur ekki endilega í sér að varan sé umhverfisvænni en aðrar vörur, heldur er um að ræða staðlaðar og áreiðanlegar upplýsingar um umhverfiseiginleika vörunnar sem gerir notandanum kleift að gera samanburð milli sambærilegra vara. Allar umhverfisyfirlýsingar fyrir vörur eru viðurkenndar af þriðja aðila og gilda í 5 ár. Umhverfisyfirlýsingar innihalda upplýsingar um framleiðenda, tæknilega lýsingu á eiginleikum og efnislegri samsetningu vörunnar og staðlaðar upplýsingar um umhverfisáhrif og notkun auðlinda. Í mörgum umhverfisyfirlýsingum fyrir vörur eru einnig aðgengilegar upplýsingar um hvernig best er að nota vöruna, viðhalda henni og endurvinna. Af hverju að láta láta útbúa umhverfisyfirlýsingu fyrir vöru?

 • Aukin samkeppnishæfni á erlendri grundu.
 • Það er samfélagslega ábyrgt að upplýsa um umhverfisáhrif vöru.
 • Auðkenna hvar á vistferli er hægt að draga úr umhverfisáhrifum. Notkun á byggingarefnum með umhverfisyfirlýsingu gefur stig í umhverfisvottunum.
 • Umhverfisyfirlýsingar nýtast hönnuðum við að besta efnisval m.t.t. umhverfisáhrifa.
 • Til að gefa upp áreiðanlegar og staðlaðar upplýsingar um umhverfisáhrif vörunnar.
 • Til þess að geta greint hvar í vistferlinum (hráefnaöflun, framleiðslu, flutningum, dreifingu, notkun og förgun) mestu umhverfisáhrifin verða og leita leiða til umbóta ef hægt er.
 • Til að setja sér mælanleg markmið í rekstri út frá þeim upplýsingum sem fram koma í vistferilsgreiningunni.
 • Til að mæta kröfum í vottunarkerfum fyrir byggingar, þar sem gefin eru stig fyrir að velja vörur með umhverfisyfirlýsingar.
 • Til að mæta kröfum í útboðum aðila sem stunda vistvæn innkaup.
 • Til að bæta stöðu sína gagnvart samkeppnisaðilum.