16. desember 2016

Stór verkefni í Jessheim, Noregi

Stefnt er að því að ný kirkja verði vígð í bænum Jessheim í Noregi þann 5. mars næst komandi.  Verkefna- og byggingastjórn framkvæmdarinnar er í höndum Runólfs Þórs Ástþórssonar sérfræðings í framkvæmdastjórn hjá VSÓ Ráðgjöf í Noregi. Runólfur og kollegar hans í starfsstöð VSÓ í Jessheim vinna að fleiri stórum verkefnum þar ytra um þessar mundir og má meðal annars nefna tvo fjölbýlishúsakjarna, í kringum 100 íbúðir hvor.

Runólfur hefur búið í Jessheim í rúm þrjú ár ásamt konu sinni og 3 strákum. Hann segir að þeim líki vistin í Noregi vel og þau glími aðeins við eitt lúxusvandamál sem er að strákarnir geta ekki gert upp við sig hvort þeir vilja frekar búa í Noregi eða á Íslandi.

Kennileiti í Jessheim

Kirkjan setur svip á miðbæ Jessheim með 20 metra háum turni og 500 fermetra kirkjuskipi.  Hún mun taka 400 manns í sæti og tengist eldri kirkjubyggingu sem nú hefur að mestu leyti verið fjarlægð. Runólfur Þór segir að VSÓ hafi komið að þessu verkefni um mitt ár 2015 en þá var verið að semja við verktaka um fyrsta hluta byggingarinnar sem fól í sér stækkun á skrifstofu kirkjunnar og að reisa aðstöðu til móttöku fyrir útigangsfólk og vímuefnaneytendur.

Síðan var hafist handa við að reisa  sjálft kirkjuskipið og þessa dagana er unnið að frágangi og listskreytingum innanhúss. Kirkjan verður m.a skreytt með 8 metra háum krossi eftir listamennina Eimund Sand og Vebjörn Sand, sem t.d. gerðu stórt listaverk sem prýðir flugvöllinn í Gardemoen.

„Þetta hefur verið mjög áhugavert og skemmtilegt verkefni en þegar við komum að því var ljóst að það var vanfjármagnað og því þurftum við að byrja á að útbúa nýja fjárhagsáætlun sem þurfti að fara aftur í pólitíska umræðu,“ segir Runólfur. Hann segir verkið hafa gengið mjög vel en verktakinn á að afhenda bygginguna 1. febrúar. Nú er unnið að lokafrágangi utanhúss og byrjað á fínni innivinnu auk þess sem smíði á altari, skírnarfonti og orgeli er hafin.  Hann segir að lögð sé áhersla á að kirkjan verði fjölnota hús sem geti nýst fyrir fleira en kirkjulegar samkomur s.s. tónleika o.fl. Því hafi verið lögð mikil vinna í góða hljóðvist og auk þess verður góður búnaður til að stýra lýsingu og hljóði í húsinu.

Krefjandi aðstæður

Fjölbýlishúsaverkefnin sem VSÓ Ráðgjöf kemur að í Jessheim eru annars vegar Jessheim Hageby, sem er klasi 98 leiguíbúða, og hins vegar Jessheim Easy Living, sem eru 116 íbúðir.  Samanlagt flatarmál þessara tveggja byggingaklasa er um 12 þúsund fermetrar með bílakjöllurum. Runólfur stýrir hönnun Hageby íbúðanna en í Easy Living íbúðunum sér VSÓ um burðarþols- og jarðtæknihönnun ásamt landslagshönnun.

Byrjað var að grafa fyrir Hageby húsunum um miðjan nóvember og er gert ráð fyrir að þau verði tekin í notkun sumarið 2018.  Fyrsti hluti Easy Living húsanna verður einnig tekin í notkun vorið 2018 og ráðgert að síðustu íbúðirnar þar verði afhentar ári síðar. Runólfur segir byggingaraðstæður í Jessheim oft krefjandi því jarðvegurinn sé víða blautur leir og djúpt niður á fast. Í Easy Living verkefninu eru þannig 17 til 30 metrar á fast og því eru flestar byggingar byggðar á staurum.

 

Auk Runólfs eru tveir aðrir fastir starfsmenn hjá VSÓ í Jessheim en þaðan er aðeins 10 mínútna akstur út á Gardemoen flugvöll. „Þetta er mjög þægileg staðsetning sem var valin með það í huga að stutt væri fyrir okkur að skjótast heim og fyrir starfsmenn VSÓ heima á Íslandi að koma hingað ef verkefnin kalla á slíkt,“ segir Runólfur Þór Ástþórsson.