13. ágúst 2020

Uppbygging miðbæjarkjarna í Úlfarsárdal með vistvænar lausnir að leiðarljósi

Í Úlfarsárdal, nýjasta hverfi Reykjavíkur er mikil uppbygging í gangi.

Á meðal nýbygginga í hverfinu er Dalskóli, sem er 6.000 m2 samþættur leik- og grunnskóli ásamt frístundaheimili. Framkvæmdum við Dalskóla er ekki lokið en til viðbótar mun þar rísa menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús, alls um 17.000 m2. Gerðar eru miklar kröfur til frágangs og umhverfis vegna nálægðar við Úlfarsá og er allur byggingarklasinn hannaður með BREEAM vottun að leiðarljósi.

VSÓ Ráðgjöf sá um hönnun raf- og lagnakerfa ásamt burðarvirkja og jarðtækni í öllum áföngum byggingarklasans.  

Við uppbyggingu skólans voru nýttar ýmsar tækninýjungar, en þar á meðal var framkvæmd loftþéttleikaprófun. Byggingarreglugerð og BREEAM gera ráð fyrir að slík prófun sé framkvæmd til þess að tryggja nægjanlegan loftþéttleika, en BREEAM gerir meiri kröfur en Byggingarreglugerð. Loftþéttleikaprófunin var framkvæmd af VSÓ Ráðgjöf  í samstarfi við Ísloft og gekk framkvæmdin að óskum en gaman er að segja frá því að skólinn stóðst tilskyldar kröfur og fær skólinn því að launum umhverfisvottunarstig BREEAM vistvottunarkerfisins.

Mannvirki eru sjaldan alveg loftþétt en of mikill loftleki veldur orkutapi og hefur þar af leiðandi aukinn rekstrarkostnað mannvirkis í för með sér. Loftlekar í byggingarhjúp mannvirkis skerða hæfileika hita- og loftræstikerfa til að stýra inniaðstæðum og leiða af sér óhagkvæma orkunotkun mannvirkis, loftlekar geta einnig haft í för með sér óæskilegt rakastreymi sem getur orsakað rakaskemmdir og myglu.

Prófunin var framkvæmd með blásurum sem mynda undirþrýsting í mannvirkinu, vegna undirþrýstings sogast kalt útiloft í gegnum loftlekaleiðir á byggingarhjúpnum en staðsetning leka er síðan fundin með innfrarauðri hitamyndavél, á mynd hér að neðan má sjá lofþéttleikaprófun er framkvæmd

 

 

Útskýring á því hvernig lofþéttleika prófun virkar

 

Ef niðurstöður eru ófullnægjandi, þ.a. mannvirki stenst ekki loftþéttleikakröfu þarf verktaki að bregðast við athugasemdum og loftþéttleika prófun endurtekin að loknum úrbótum.

Vakin er sértök athygli á því að verkkaupi hyggst fá alþjóðlega umhverfisvottun samkvæmt BREEAM á nýbygginguna en slíkt vottunarferli tekur til allrar framkvæmdarinnar, þ.m.t. umhverfis- og öryggisstjórnunar allra verktaka á framkvæmdartíma. Í þessu felst að aðalverktaki skuldbindur sig og undirverktaka til þess að vinna skv. verklagi sem er jafngott eða betra en best þekkist.

VSÓ mun halda áfram að byggja á reynslu sinni í loftþéttleikaprófunum og þakkar Ísloft kærlega fyrir gott samstarf.