22. nóvember 2017

Mikil uppbygging í Gufunesi á næstu árum

Þann 22. maí 1954 hóf Áburðarverksmiðja ríkisins rekstur sinn í Gufunesi, en verksmiðjan var lögð niður í kjölfar sprengingar í ammóníakshluta hennar 1. október 2001. Reykjavíkurborg kaupir síðar fasteignir og land verksmiðjunnar og hefur Íslenska gámafélagið leigt svæðið undir starfssemi sína undanfarin ár. Þá rekur Sorpa jafnframt móttöku og flokkunarstöð sína á svæðinu.

Á næstu árum og áratugum er áformað er að umbylta svæðinu, þar sem byggt verður á vinningstillögu rammaskipulags hollenskra ráðgjafa. Gert er ráð fyrir íbúðarsvæði, kvikmyndaþorpi og fjölbreyttum þekkingariðnaði. Uppbyggingin verður áfangaskipt og hafin er vinna við deiliskipulag nyrsta hluta svæðisins. Reykjavík Studio´s, KUKL og fleiri fyrirtæki tengd kvikmyndaiðnaði hafa þegar hafið innreið sína á svæðið í núverandi byggingar gömlu áburðarverksmiðjunnar.

Í verkefninu felast fjölmargar áskoranir varðandi uppbyggingu gatna, veitna og annarra innviða. VSÓ Ráðgjöf mun annast verkefnisstjórn og umsjón með þeim þáttum fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Kynningaspjald verðlaunatillögu Jvantspijker + Felixx