2. september 2015

Undirritun samnings um hönnun meðferðarkjarna Landspítala

Samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna Landspítala var undirritaður miðvikudaginn 2. september að viðstöddu fjölmenni. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skrifaði undir af hálfu ríkisins en Grímur M. Jónasson af hálfu Corpus3, hönnunarhóps sem VSÓ Ráðgjöf myndaði ásamt þremur öðrum fyrirtækjum – Basalt arkitektum, Hornsteinum arkitektum og Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar.

Corpus3 átti lægsta tilboðið í fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans sem hýsa mun alla bráðastarfsemi nýs Landspítala við Hringbraut: Bráðamóttöku og slysadeild, skurðstofur, gjörgæsludeild, myndgreiningu og bráðalegudeildir.

Meðferðarkjarninn verður ein fjögurra bygginga Landspítala sem gert er ráð fyrir að rísi við Hringbraut og jafnframt sú stærsta, um 58.500 fermetrar. Hún verður á sex hæðum ofan götu og fimm hæðum neðan götu, auk kjallara, og tengist eldri byggingum á spítalalóðinni.

Heilbrigðisráðherra sagði í ávarpi sínu að hönnun meðferðarkjarnans tæki hálft annað til tvö ár og síðan kæmi að framkvæmdum við bygginguna, sem kosta myndi „nokkra tugi milljarða króna“.

Ráðherra upplýsti jafnframt að fyrr í dag hefði fengist heimild til að auglýsa strax eftir tilboðum í fyrsta framkvæmdaþátt við nýtt sjúkrahótel á Landspítalalóðinni. „Þar með förum við yfir þröskuld pappírsvinnu í þessu stóra verkefni og göngum til framkvæmda, sem er gríðarlega mikilvægur áfangi.“

Fjöldi gesta var viðstaddur afhöfnina í anddyri K-byggingar Landspítala, þar á meðal tveir fyrrum heilbrigðisráðherrar og dyggir stuðningsmenn nýs Landspítala við Hringbraut, Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttir. Hátíðarstemning var, enda má líta svo á að samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans og auglýsing um tilboð í framkvæmdir við sjúkrahótel jafngildi staðfestingu þess í reynd að nýr Landspítali rísi við Hringbraut.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, vottuðu undirritun hönnunarsamningsins. Páll vitnaði í ávarpi sínu í ummæli ónefnds starfsmanns spítalans til fjögurra áratuga. Sá sagði að áfanginn í dag væri líkast til stærsta stund sín á sjúkrahúsferlinum. Það segir sína sögu.