23. mars 2018

Umferðaröryggisáætlun fyrir Fljótsdalshérað

Fljótsdalshérað hefur gefið út umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2017-2021 sem VSÓ vann fyrir sveitafélagið. Samgöngustofa hefur undanfarin ár hvatt sveitarfélög til að gera áætlanir um umferðaröryggismál með það að markmiði að auka vitund forráðamanna sveitarfélaga og almennings um umferðaröryggismál og hefur, í samstarfi við Vegagerðina og Mannvit, tekið saman leiðbeiningar um gerð umferðaröryggisáætlana sveitarfélaga.  Vinna við umferðaröryggisáætlun Fljótsdalshéraðs tekur mið af þeim leiðbeiningum auk reynslu VSÓ af gerð umferðaröryggisáætlana víðsvegar um landið.

Í umferðaröryggisáætlun Fljóstsdalshéraðs er lagt mat á núverandi stöðu umferðaröryggismála í sveitarfélaginu og lagðar fram tillögur til úrbóta. Verkefni eru mótuð úr þeim tillögum og þeim forgangsraðað. Lögð er áhersla á að rödd allra fái að heyrast og að tekið sé tillit til allra vegfarendahópa.  Alls voru 17 verkefni skilgreind sem forgangsverkefni og spanna þau framkvæmdir á borð við gerð nýrra hringtorga, tilfærslu  og endurbætur gangbrauta, endurbætur á lýsingu, eflingu vistvænna ferðamáta o.fl. Auk verkefna í forgangi voru skilgreind 22 önnur verkefni sem haft gætu jákvæð áhrif á umferðaröryggi en talin voru minna áríðandi.

Umferðaráætlun Fljótsdalshéraðs 2017-2021.