18. maí 2020

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaganna – Mat á ávinningi

Skýrslan „Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaganna – Mat á ávinningi“  var gefin út á dögunum en um er að ræða afrakstur rannsóknar VSÓ Ráðgjafar sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Undanfarin ár hefur Samgöngustofa hvatt sveitarfélögin til að gera umferðaröryggisáætlanir, þá sérstaklega fjölmennari sveitarfélögin, og árið 2010 voru gefnar út leiðbeiningar um gerð umferðaröryggisáætlana sveitarfélaga til að útbúa ákveðinn ramma um gerð þeirra. Markmiðið með gerð umferðaröryggisáætlana er að auka vitund forráðamanna sveitarfélaga og íbúa um umferðaröryggi sem og að forgangsraða aðgerðum í þágu bætts umferðaröryggis.

Tilgangur þessa verkefnis var að rannsaka hvort umferðaröryggisáætlanir nýtist sveitarfélögum og hvaða áhrif gerð þeirra hefur haft á umferðaröryggið í sveitarfélögunum. Byrjað var á að rýna kerfisbundið í útgefnar umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga á landsvísu, taka saman reynslu sveitarfélaga af gerð þeirra og kanna hvernig eftirfylgnin hefur verið en það var gert með spurningalista og viðtölum. Í síðari hluta verkefnisins var tíðni tilvika skoðuð til að meta árangur umferðaröryggisáætlananna.

Sveitarfélögin voru sammála um að ávinningur hefði hlotist af gerð umferðaröryggisáætlunar og að hún nýttist embættismönnum og sveitarstjórnarmönnum við störf sín. Þó að slysagreining sýni hvergi með skýrum hætti að gerð umferðaröryggisáætlunar hafi haft bein áhrif á fjölda tilvika, er til mikils að vinna sé markvissum aðgerðum beitt. Gleðilegt var að sjá að slysum hefur almennt ekki fjölgað undanfarin ár þrátt fyrir aukna umferð og ekki er útilokað að umferðaröryggisáætlanir eigi þátt í því.

Ályktað er að eftirfarandi þættir séu einna mikilvægastir til að umferðaröryggisáætlanir skili árangri:

  • Skipaður sé verkefnastjóri sem sinnir verkefninu og er ábyrgðarmaður þess.
  • Forgangsröðun aðgerða og kostnaðaráætlun, svo áætlunin nýtist embættis- og sveitarstjórnarmönnum sem best.
  • Samráð sé haft við börn og gönguleiðir grunnskólabarna kannaðar sérstaklega.
  • Samræming fýsískar aðgerða og áróðurs um umferðaröryggi.
  • Að setja gildistíma á áætlunarinnar og endurnýja forgangslista reglulega, því umferðaröryggisáætlanir eiga að vera lifandi skjal.

Skýrsluna í heild má finna hér að neðan:

Umferðaröryggisáætlanir Sveitarfélaganna