8. júní 2020

Traðarreitur

Kópavogsbær er í metnaðarfullu uppbyggingastarfi í miðbænum sem fer hönd í hönd við fyrsta áfanga Borgarlínunnar sem mun vera mikil samgöngubót fyrir íbúa Kópavogs, sem og höfuðborgarsvæðisins alls og liggur um Hamraborg. Markmið uppbyggingarinnar er að þétta og stuðla að vistvænni byggð sem leggur áherslu á vistvæna ferðamáta og þjónustu í nærumhverfi. Traðarreitur Eystri er staðsettur við Digranesveg, milli Menntaskólans í Kópavogi og Kópavogsskóla. Á reitnum eru nú átta hús og tólf íbúðir, í deiliskipulagi sem nú er til auglýsingar hjá Kópavogsbæ er gert ráð fyrir allt að 180 íbúðum á reitnum í tveimur byggingum sem verða þrjár til fimm hæðir.

T.ark arkitektar unnu að deiliskipulaginu ásamt samgöngusviði VSÓ, sem greindi áhrif á samgöngur og hljóðvist.

Í samgönguskipulagi var mikil áhersla lögð á umferðaröryggi skólabarna Kópavogsskóla. Gatan Skólatröð verður að göngugötu og þar með verður uppbyggingarsvæði og skóli vel tengd með aðlaðandi umhverfi, og um leið stuðlað að öryggi skólabarna til og frá Kópavogsskóla. Jafnframt var sett fram tillaga um framtíðarsýn á Digranesvegi með hjólastígum beggja vegna götunnar og Borgarlínustöð sunnan Menntaskólans í Kópavogi.