22. júlí 2016

Þörf á heildarstefnu um vegvísa

Vegagerðin heldur utan um leyfisveitingar á vegvísum og er ekki öfundsverð af því hlutverki,“ segir Kristjana Erna Pálsdóttir  samgöngu- og skipulagsverkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf sem nýlega skilaði skýrslu til Vegagerðarinnar um stefnumótun í uppsetningu skilta meðfram vegakerfinu.  Í skýrslunni er fjallað um þær reglur sem gilda hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum um umferðarskilti og þjónustu- og upplýsingamerki meðfram vegum.

Kristjana Erna telur víst að fyrirtæki í ferðaþjónustu og önnur þjónustufyrirtæki sæki fast að Vegagerðinni að fá að setja upp skilti við vegi sem vísi á starfsemi þeirra. Því þurfi reglur að vera skýrar um hvað má og hvað ekki. Hún segir að umræða um vegskilti komi upp af og til hér á landi. Vegna stórfelldrar fjölgunar erlendra ferðamanna þurfi nú að taka afstöðu til notkunar erlends texta á vegskiltum og hvenær nauðsynlegt sé að leyfa erlendan texta á þeim. Hún segir skorta samræmi í slíkum merkingum hér á landi.   „Í dag gilda leiðbeiningar hér um  vegvísa sem banna erlend heiti eða kennimerki (logo) á íslenskum vegvísum. Þessu er ekki framfylgt eins og vegvísar að einstaka fyrirtækjum sýna.“  Hún segir að í reglum annars staðar á Norðurlöndum sé tekið sérstaklega fram hvenær megi gera undantekningar og víkja frá reglunum.  „Til að koma í veg fyrir hættur eða tafir í umferðinni er að sjálfsögðu mikilvægt að hafa merkingar þannig að fólk geti ratað að þjónustu, en mörkin milli auglýsinga og vegvísunar verða að vera skýr og það má ekki gera einu fyrirtæki hærra undir höfði í því efni en öðru.“

Smukke vejer“

Kristjana segir að úttekt sem gerð var á umferðarskiltum hér á landi árið 2014 sýni að margt þurfi að bæta og að oft virki skiltin ruglingsleg á erlenda ferðamenn. Því þurfi að móta heildarstefnu um hvernig staðið skuli að merkingum og  uppsetningu skilta meðfram vegum landsins.  „Það eru ákveðin menningarleg verðmæti fólgin í því að það sé ekki endalaus skógur skilta sem mæti fólki þegar komið er út á vegina. Hins vegar þurfa merkingar að vera nægilega skýrar til að fólk rati vandræðalaust um.“

Rannsókn Kristjönu var styrkt af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar en tilgangur hennar var að safna upplýsingum um hvernig staðið er að þessum málum annarsstaðar á Norðurlöndum sem geti nýst við stefnumótun um merkingar meðfram vegakerfi Íslands.  „Í Danmörku verður mönnum til dæmis tíðrætt um fallega vegi (d. smukke vejer) þar sem lagt er til að stilla vegmerkingum í hóf og hafa auglýsingaskilti ekki yfirþyrmandi. Þar eru líka ákveðnar reglur um hvað má vísa á marga staði á einum og sömu gatnamótunum.“

Menningarlegt hlutverk

Aðspurð segir Kristjana Erna að það hafi komið á óvart hve mikla áherslu Norðurlandaþjóðirnar leggja á menningarlegt hlutverk vegvísa og hvað yfirvöld vegamála taka ábyrgð sína í þessum efnum alvarlega. „Í Danmörku þurfa yfirvöld vegamála að samþykkja nöfn á vegvísum en í Svíþjóð og Noregi er tekið sérstaklega fram að vegvísar hafi menningarlegu hlutverki að gegna við að viðhalda örnefnum og staðarheitum.  Stofnanirnar taka ábyrgð sína á að rétt sé farið með örnefni mjög alvarlega og staðarheiti eru ekki notuð á vegvísa nema að þau hafi áður verið yfirfarin og samþykkt fyrir opinbera kortagerð og ritháttur þeirra er þá tekin upp úr slíkum kortagrunnum.“

Kristjana Erna segir mismunandi eftir löndum hvort fyrirtækjanöfn megi koma fram á vegvísum. Það er leyft í Noregi og Svíþjóð en ekki í Danmörku. Þá virðist það almenn afstaða á Norðurlöndum að leyfa ekki auglýsingar innan vegsvæða. Hún segir að ýmislegt megi læra af regluverki og framkvæmd merkinga á Norðurlöndum en mestu máli skipti að heildarstefnan sé vel skilgreind og skýr og að farið sé eftir þeim reglum sem settar eru. „Reglurnar þurfa að vera skýrar og tæmandi þegar kemur að leyfum um uppsetningu skilta, það kemur í veg fyrir geðþóttákvarðanir,“segir Kristjana Erna Pálsdóttir.

Þrýst á um enskar merkingar

Einar Pálsson forstöðumaður á þjónustudeild Vegagerðarinnar segir að hjá Vegagerðinni hafi menn staðið á bremsunni gagnvart ásókn enskrar tungu í vegmerkingar.  Hann segir vaxandi þrýsting frá þjónustufyrirtækjum um að taka ensku inn í vegmerkingarnar og það þurfi að skerpa á reglum um þetta. „Viðskiptaleg sjónarmið eru ekki viðurkennd sem rök við vegmerkingar. Við þurfum að taka tillit til þess menningararfs sem okkur ber lögum samkvæmt að varðveita og um það eru lagðar ákveðnar skyldur á okkur,“ segir Einar. Hann segir að enskan sé vissulega nauðsynleg á ákveðnum stöðum  eins og til dæmis fyrir sérstakar leiðbeiningar (lokanir, vöð o.þ.h.), í kringum alþjóðleg flugvallarsvæði og við ferjuhafnir en annars staðar eigi alþjóðleg tákn yfirleitt að geta komið í stað enskra merkinga.