19. mars 2015

Fyrstu sjálfakandi bílarnir á Íslandi innan fimm ára

VSÓ kannar aðstæður á Íslandi fyrir sjálfakandi bíla

„Ég geri ráð fyrir að árið 2020 verðum við farin að sjá fyrstu sjálfakandi bílana á götum hér á landi,“ segir Sverrir Bollason skipulagsverkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf.  Sverrir er að hefja rannsókn á því hvernig aðstæður hér á landi henta til notkunar sjálfakandi bíla.  Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.  „Meginmarkmið verkefnisins er að kanna hvað þurfi til að sjálfakandi bílar geti ratað um og stýrt sér hér á landi og hvort eitthvað við aðstæður á Íslandi komi í veg fyrir að þessi tækni geti nýst hér.  Við munum  m.a. kortleggja hvar þessi kerfi eru notuð, hverjir nota þau, hvernig þau eru upp byggð.“

Aðspurður segist Sverrir alla tíð haft mikinn áhuga á samgöngumálum og í tengslum við nám í Háskóla Íslands hafi hann skoðað þessi mál sérstaklega.  „Ég hef lifað og hrærst í umferðatengdum málum meðfram öðrum verkefnum hjá VSÓ Ráðgjöf undanfarin ár. Það er lögð mikil áhersla á það hér að við höldum áfram að þróa þekkingu okkar og kynna okkur ný svið til dæmis með þátttöku í rannsóknarverkefnum eins og þessu.“

Tilraunir víða í gangi

Sverrir segir hugmyndina um sjálfakandi bíla ekki lengur fjarlægan draum. Tilraunir með slíka bíla hafa staðið í nokkur ár víða  um heim.  Flestir bílaframleiðendur eru nú að þróa þessa tækni og nýlega voru Mercedes Bens verksmiðjurnar með slíkan bíl á ferðinni í San Francisco. Þá hefur Google fyrirtækið ekið sjálfkeyrandi bíl 800 þúsund kílómetra síðustu misseri um öll Bandaríkin. Í Bretlandi eru að fara af stað tilraunaverkefni í þremur borgum þar sem lagalegar og siðferðilegar hliðar málsins verða skoðaðar en á þessu ári verður varið 19 milljónum punda í rannsóknir sem tengjast sjálfakandi bílum.  Í Bandaríkjunum hafa m.a. Florida, Nevada og Kaliforníufylki  þegar sett lög sem leyfa tilraunir með sjálfakandi bíla og frændur okkar Svíar eru byrjaðir tilraunir með slíka bíla á vegum Volvo í Gautaborg.  Volvoverksmiðjurnar gera ráð fyrir að framleiða fyrstu 100 sjálfkeyrandi bílana árið 2017.

Sverrir segir líklegt að til að byrja með verði notkunin blönduð þannig að menn noti sjálfstýringuna á hraðbrautum og þjóðvegum utan þéttbýlis en þegar komið sé í þéttbyggðara umhverfi taki bílstjórinn aftur við stjórninni. Með tímanum muni þróunin halda áfram og bíllinn geta tekið stjórnina í æ ríkari mæli. Hann segir að hér á landi séu ýmsar spurningar sem vakni, bæði veðurfarslegar og einnig tæknilegar sem snúa að hinu manngerða umhverfi.  „Hvernig stöndum við okkur til dæmis í merkingum á vegyfirborði og eru skiltin sem þessi tækni les rétt upp sett.  Mun þessi búnaður nýtast í okkar veðurfari og eru nauðsynlegir kortagrunnar sem þessi tækni styðst við fyrir hendi hér á landi.“

Sverrir segir að aðlaga þurfi stýrikerfi sjálfakandi bíla að mismunandi reglum í ólíkum löndum.  Það sem er bannað á einum stað er leyft á öðrum. Sumstaðar megi til dæmis taka hægri beygju á rauðu ljósi á meðan það er bannað annarsstaðar. Sama er að segja um hringtorgin. Íslendingar séu með hægri forgang sem snýst við víða annars staðar. Því þurfi að laga stýrikerfi sjálfakandi bíla að aðstæðum á hverjum stað.

Aðstæður á Íslandi

Sverrir segir að fyrir nokkrum árum hafi verið miðað við að setja þyrfti upp sérstök leiðsögukerfi fyrir sjálfakandi bíla. Nú séu menn horfnir frá því og þess í stað byggi tæknin á búnaði um borð í bílunum sjálfum. Búnaði sem les í umhverfið með aðstoð myndavéla og hvers kyns nema sem skynja fjarlægðir, taka inn kortaupplýsingar og haga akstrinum samkvæmt því. „Þetta er sambland af myndavélum og svokölluðum Lidar sem er radar sem notar leysigeisla.  Eðli málsins samkvæmt er þéttbýlisumhverfið flóknast því þar er áreitið mest. Meðal augljósra spurninga hér er landi er til dæmis hvort vegstikur nægi til að marka útlínur vega eða hvort kantmála þurfi alla þjóðvegi landsins.“

Sverrir bendir á að nú sé komið mikið af þeim búnaði í nýja bíla sem stuðst verði við í sjálfakandi bílum.  Þar má nefna aksturstölvur, fjarlægðarskynjara, bakkmyndavélar, forrit sem leiðrétta akstursstefnu ef menn stefna út af akbrautinni, aðstoð við að leggja í stæði og aðstoð við að bremsa.  „Við eigum mikið undir því að svona kerfi geti virkað hér á landi og það er þýðingarmikið að þróun þeirra taki mið af þeim aðstæðum sem hér eru.  Þess vegna er mikilvægt að við tengjumst þeim rannsóknum sem nú fara fram og ég tel að við ættum að leita eftir samstarfi við þá sem eru að þróa þessa tækni og bjóða þeim að koma hingað til að spreyta sig við þær aðstæður sem hér eru,“ segir Sverrir Bollason skipulagsverkfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf.