29. nóvember 2016

Dregið úr kolefnisspori hjá VSÓ

VSÓ Ráðgjöf er annt um umhverfið og vill gera sitt til að draga úr því kolefnisspori sem starfsemi fyrirtækisins leiðir af sér. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi VSÓ er fyrst og fremst vegna brennslu jarðefnaeldsneytis en til dæmis koma flestir starfsmenn til og frá vinnu og fara í vinnutengdar ferðir með einkabíl knúnum slíku eldsneyti og auka með því losun gróðurhúsalofttegunda. Unnið hefur verið markvisst að því að auka vitund starfsfólks um vistvæna ferðamáta og ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir hjá fyrirtækinu til að hvetja til notkunar á þeim.

Vistvænir metanbílar

VSÓ á þrjá VW Eco Up! bíla sem ganga fyrir metani en stóri kosturinn við metan er að það er bæði kostnaðar- og umhverfisvænt. Bílarnir standa starfsmönnum til boða til notkunar við bæði vinnutengdar ferðir og stutt einka „skrepp“ yfir daginn. Þetta auðveldar starfsmönnum til muna að skilja einkabílinn eftir heima og koma til vinnu hjólandi, gangandi eða með strætó. Metanakstur er í dag 42% af öllum akstri bifreiða á vegum VSÓ og stefnan er að halda áfram að hækka þetta hlutfall.

VSÓ tók á dögunum þátt í Vistvænum dögum Heklu þar sem boðið var upp á ýmiss fræðsluerindi um metan og nýr VW Eco Up! var frumsýndur. Á sýningunni var einmitt einn af bílum VSÓ til sýnis auk þess að vakin var athygli á ráðgjafarþjónustu VSÓ við umhverfisstjórnun og umhverfisráðgjöf en VSÓ hefur umfangsmikla reynslu af ráðgjöf í þessum efnum sem og öðrum á sviði umhverfismála.

Gróðursetning

Síðsumars var gert sérstakt átak hjá VSÓ í að hvetja starfsmenn til notkunar vistvænna ferðamáta. Starfsmenn sem hjóluðu, gengu eða tóku strætó til og/eða frá vinnu, söfnuðu stigum og fengu 1 stig pr. km fyrir að hjóla, 1 stig pr. 0,5 km fyrir að ganga og 1 stig pr. 5km fyrir að fara með strætó. Fyrir hver 100 stig sem starfsmannahópurinn safnaði fékkst síðan eitt tré til gróðursetningar í reit við Reynisvatn sem VSÓ hefur fengið aðgengi að.

Alls söfnuðu starfsmenn u.þ.b. 3.000 stigum og söfnuðu því 30 trjám til gróðursetningar. Á móti lagði fyrirtækið til 30 tré til viðbótar og því voru það alls 60 tré sem starfsmenn gróðursettu í sameiningu á í reitnum við Reynisvatn. Fyrirhugað er að gróðursett verði árlega í reitnum undir sambærilegum formerkjum og því ætti dágóður trjálundur að vera farinn að spretta þar upp innan fárra ára.

Áfram á sömu braut

VSÓ hyggst halda áfram á sömu braut og mun því án efa fitja upp á einhverju fleiru til að draga úr kolefnisspori sínu og stuðla með ýmsum hætti að umhverfisvernd áður en langt um líður – umhverfinu til bóta og starfsfólkinu til frekari umhverfisvitundar og aukinnar hreysti.