30. ágúst 2017

Nýtt pípuorgel í Jessheim kirkju í Noregi

Fjölbreytileiki verkefna sem VSÓ tekur að sér er mikill.  Sem dæmi um óvenjulegt verkefni má nefna að nú nýverið stýrði VSÓ skilgreiningu verkefnis og sá um útboð með forvali ásamt samningagerð við þýskan framleiðanda um kaup á nýju pípuorgeli fyrir Jessheim kirkju í Noregi. Innkaupsverð orgelsins er u.þ.b. 60 milljónir íslenskra króna.

Nýja orgelið er hannað og smíðað af þýska fyrirtækinu Weimbs Orgelbau GmbH sem til margra ára hefur sérhæft sig í smíði, lagfæringum og viðhaldi  orgela víða um heim. Lögun orgelsins tekur mið af formi þaks kirkjunnar og á þannig að mynda skemmtilegt samspil með rýminu ásamt því að hafa sitt eigið listræna gildi.

Orgelsins er beðið með eftirvæntingu þar sem hin nýja kirkja í Jessheim hefur þegar hlotið lof tónlistarfólks fyrir frábæran hljómburð og býður jafnframt upp á framúrskarandi aðstæður fyrir allt að 400 gesti.  Áætlað er að orgelið verði sett upp í kirkjunni á vormánuðum 2018.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá smíði orgels sem sama fyrirtæki smíðaði fyrir Maríukirkjuna í Bergen.