20. mars 2020

Ísland í dag – Nærri tveimur áratugum síðar

Fyrir stuttu birtist greinin Ísland í dag – Nærri tveimur áratugum síðar í tímariti Verfræðingafélags Íslands, Verktækni, en greinina skrifuðu þau Ólafur Hjálmarsson hjá Trivium ráðgjöf, Ásta Logadóttir hjá Lotu verkfræðistofu, Kristinn Alexandersson og Jóhann Björn Jóhannson en báðir þeir síðastnefndu starfa hjá VSÓ Ráðgjöf.  

Greinin er skrifuð í tilefni af því að fyrir u.þ.b. 19 árum síðan skrifaði Ólafur, ásamt fleirum, grein í Verktækni undir yfirskriftinni Ísland í dag – Auknar kröfur til húsa og hönnuða.  Í þeirri grein er litið til þáverandi stöðu nýrra ráðgjafasviða á íslenskum byggingamarkaði, sem voru brunahönnun, hljóðhönnun og ráðgjöf í byggingareðlisfræði. Rök voru jafnframt færð fyrir því að full ástæða væri að leita sér ráðgjafar á þessum sviðum húsbyggingar, ekki síður en á hefðbundnum sviðum burðarþols, lagna og rafmagns. 

Í dag má segja að staða bruna- og hljóðhönnunar hafi tekið stakkaskiptum og viðtekið sé að leitað sé til bruna- og hljóðhönnuða í öllum stærri verkum.  Hinsvegar er sláandi að ráðgöf og hönnun á sviði byggingareðlisfræði hefur nánast ekkert fleytt fram á þessum tveimur áratugum, sem bæði hefur alvarlegar og kostnaðarsamar afleiðingar fyrir samfélagið t.d. vegna lekavandmála, raka- og mygluvandamála sem gjarnan skapast ef ekki er nægjanlega hugað að byggingareðlisfræðilegum þáttum.

Einnig hefur á þessu tímabili nýtt fræðisvið, sem greinarhöfundar þess tíma sáu ekki fyrir, rutt sér til rúms en það er hönnun dagslýsingar og raflýsingar – sem í einu orði nefnist lýsingarhönnun og er ekki síður mikilvægt hönnunarsvið því sannað er að góð lýsingarhönnun bætir m.a. lífsgæði, afköst og gæði svefns. 

Grein þeirra Ólafs, Ástu, Kristins og Jóhans má lesa í heild á vefsíðu Verktækni, með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. 

Ísland í dag – Nærri tveimur áratugum síðar, grein birt í vefútgáfu Verktækni 27. febrúar 2020