12. mars 2015

Húsnæði Oceaneering í Sandnes tekið í notkun

VSÓ hefur nýlega lokið vinnu við eitt stærsta einstaka verkefni sem fyrirtækið hefur unnið að í Noregi undanfarin ár, húsnæði Oceaneering við Vestre Svanholmen í Sandnes, og hefur húsnæðið sem hér um ræðir nú verið tekið í notkun.

VSÓ sá m.a. um burðarþolshönnun, jarðskjálftaútreikninga og hönnun á staðsteyptum mannvirkjum í þessu 42 þúsund fermetra húsnæði sem stendur við Vestre Svanholmen í Sandnes kommune í Noregi. Verkefnið var á margan hátt verkfræðileg árskorun því húsnæðið er byggt á votlendi og stoðirnar sem reknar voru niður á fast allt að 30 m langar. Það er út af fyrir sig þekkt að reknir séu niður staurar til að byggja á en í þessu tilviki eru staurarnir óvenju langir og auk þess óvenju mikið álag á mannvirkið vegna sérstakrar starfsemi sem þar er rekin.

 

Húsnæðið, sem er þrjár sambyggðar byggingar, er á svæði í Sandnes sem kallað er Forus en þar hefur verið mikil uppbygging á undanförnum árum á svæði sem í eina tíð var að miklu leyti umflotið vatni. Á svæðinu eru allt að 30 m þykk leir- og setlög og standa því öll húsin þar á staurum. Þessu til viðbótar er nýlega farið að gera kröfur um burðarþol vegna jarðskjálfta í Noregi þó svo að þeir séu mjög sjaldgæfir þar í landi.

Húsnæðið sem er í eigu Seabroakers Eiendom, norsks fyrirtækis á sviði skipamiðlunar sem einnig rekur og þróar umsvifamikil fasteignaverkefnii í Noregi, hefur allt verið leigt til fyrirtækisins Oceaneering sem sérhæfir sig í margvíslegum búnaði fyrir olíuiðnaðinn. Oceaneering framleiðir m.a. þjarka sem geta, eftir ákveðinni forskrift, unnið verkefni á allt að þrjúþúsund metra dýpi.

Í þessum þremur sambyggðu byggingum eru skrifstofur, verkstæði, lagerhúsnæði, vörumóttaka og bílastæði. Mest er húsnæðið fimm hæðir auk kjallara, en að hluta er umstórt stálgrindarhús að ræða. Mjög sérhæfð framleiðsla, sambland af grófum þjörkum og fínni raftæknivörum fer fram í verkstæðisbyggingunni.