20. janúar 2021

Græna leiðin fyrir geimskipið jörð

Byggingariðnaðurinn er að mestu byggður á línulegu hagkerfi. Byggingarvörur eru framleiddar, notaðar og svo að lokum er þeim fargað. Það er þessi línulegleiki sem veldur því að byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir u.þ.b. 40% af hráefna- og auðlindanotkun heims og yfir 40% af manngerðum úrgangi. Hringrásarhagkerfið í byggingariðnaðinum felur það í sér að hámarka efna- og orkunýtingu með því að hanna varanlega byggingarhluta sem hafa þann möguleika á því að vera teknir í sundur og endurnýttir.

Við hjá VSÓ Ráðgjöf höfum verið að vinna brautryðjandi starf á sviði hringrásarhagkerfisins. Við stefnum að því að innleiða þennan hugsunarhátt í allt okkar hönnunarferli. Við sjáum fyrir okkur framtíð þar sem byggingar líkjast LEGO kubbum þar sem er hægt að raða saman og taka í sundur staðlaðar einingar og búa til byggingar sem henta mörgum ólíkum þörfum. Það er komin tími á byltingu í byggingariðnaðinum ef við ætlum okkur að tryggja farsæld og sjálfbærni komandi kynslóða.

Meðfylgjandi grein var birt í 39. árgangi af „…upp í vindinn“, blað umhverfis- og byggingarverkfræðinema 2020.

 

Hringrásarhagkerfi er hagkerfi sem byggir á því að „loka efnislegum hringjum með því að viðhalda verðmæti vara, efna og auðlinda í hagkerfinu eins lengi og mögulegt er“ (Umhverfistofnun, 2020).

Hugmyndarfræðin geimskipið jörð (e. Spaceship Earth) markar uppgang umhverfisverndar sem átti sér stað í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar. En í bók sinni „Spaceship Earth“ lýsti hagfræðingurinn Barbara Ward jörðinni sem geimskipi þar sem jarðarbúar verða að vinna saman til þess að tryggja sjálfbærni og vernda auðlindir jarðar.

Í framhaldinu gaf Kenneth H. Boulding út greinina „The Economics of the Coming Spaceship Earth“ árið 1966 þar sem hann lýsti muninum á opnum og lokuðum kerfum. Orka og vörur streyma óhindrað inn og út úr opnu, línulegu kerfi, sem þýðir að það verður að vera eitthvað ytra svæði sem tekur endalaust við úrgangi. Í lokuðu, hringrásar kerfi, er ekkert inntak né úttak og því endalaus endurvinnsla á vörum og auðlindum (Jónsson & Ólafsdóttir, 2020). 

„Hin lokaða jörð framtíðarinnar krefst hagfræðilegra lögmála sem eru ólík þeim sem giltu um hina opnu jörð fortíðarinnar. Til að orða þetta á myndrænan hátt freistast ég til að kalla hagkerfi fortíðarinnar „hagkerfi kúrekans“, þar sem kúrekinn er tákn fyrir hinar óendanlegu sléttur auk þess sem hann tengist ábyrgðarleysi, arðráni, rómantík og ofbeldisfullri hegðun, sem einkennir hið opna þjóðfélag.“ (Boulding 1966, bls. 7)

Jörðin er ekki óendanlega stór og auðlindir hennar eru heldur ekki óendanlegar. Þess vegna lagði Boulding fram hagkerfi geimfarans, en í slíku hagkerfi „…verður mannkyn að finna sér stað í hringrásarkerfi sem er fært um sífellda endursköpun efnis, þótt það komist ekki hjá því að fá einhverja orku inn í kerfið“ (Boulding 1966, bls. 8). Helsti munur milli hagkerfi kúrekans og hagkerfi geimfarans liggur í viðhorfi til neyslu. En neysla er jákvæð í opnu hagkerfi kúrekans en í lokaða hagkerfi geimfarans er hinsvegar nauðsynlegt og jafnframt æskilegt að takamarka neyslu.

Mynd: Hringrásarhagkerfið

 

Ef við skoðum byggingariðnaðinn sem er að mestu byggður á línulegu hagkerfi, þ.e.a.s. byggingarvörur eru framleiddar, notaðar og svo að lokum er þeim fargað. Það er þessi línulegleiki sem veldur því að byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir u.þ.b. 40% af hráefna- og auðlindanotkun heims og yfir 40% af manngerðum úrgangi. Hringrásarhagkerfið í byggingariðnaðinum felur það í sér að hámarka efna- og orkunýtingu með því að hanna varanlega byggingarhluta sem hafa þann möguleika á því að vera teknir í sundur og endurnýttir. Slík hönnun lágmarkar úrgang og hámarkar um leið nýtingu efna og auðlinda.

Það þarf einnig að huga að umhverfisáhrifum frá hinu byggðu umhverfi en byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir um 39% af kolefnislosun á heimsvísu. Þá er 11% vegna innbyggðar kolefnislosunar og 28% er kolefnislosun vegna rekstrar. Innbyggð losun á við það kolefni sem er losað við öflun hráefna, meðhöndlun og framleiðslu, flutning, uppbyggingu, niðurrif, úrgangsmeðhöndlun og endurvinnslu. Hins vegar vísar kolefnislosun rekstrar til þess kolefnis sem er losað á líftíma byggingar, t.d. losun vegna loftræsingar, rafmagnsnotkunar og viðhalds. Orka á Íslandi er græn og endurnýjanleg þannig það má áætla að kolefnislosun bygginga á rekstrartíma sé minni hérlendis en á heimsvísu en það þýðir að innbyggð kolefnislosun vegur þyngra þannig mikill ávinningur er fólgin í því að lágmarka hana.

Hið byggða umhverfið gegnir mikilvægu hlutverki í hagkerfi heimsins og eru því mikil tækifæri fyrir sjálfbæra nýsköpun og þróun. Byggingariðnaðurinn nemur um 12% af vergri heimsframleiðslu (GWP) og er búist við að framleiðni heimsins aukist um 15% fyrir 2030. Á Íslandi eru u.þ.b. 60-70% af árlegri landsframleiðslu fjárfest í hinu byggða umhverfi (Hagstofan, 2019).

Ellen Macarthur Foundation (EMF) er helsti vettvangur heims til þess að finna fræðsluefni um hringrásarhagkerfið. En EMF var stofnað árið 2010 með það markmið að styrkja rannsóknir á sviði hringrásarhagkerfisins og leiða byltinguna frá hinu línulegu hagkerfi. Með hringrásarhagkerfinu er hægt að útrýma úrgangi með því að stuðla að lokaðri hringrás. Það er áætlað að einungis 20-30% af byggingarúrgangi sé endurunnin eða endurnýttur. Þetta gefur hugmynd um til hversu mikils er að vinna með því að innleiða hringrásarhagkerfið í byggingariðnaðinn.  

Innleiðing hringrásarhagkerfisins í byggingariðnaðinn hefur gengið hægt. Það er aðalega vegna skorts á fræðslu og ótta við hið óþekkta en samfélagið er farið að þrýsta á breytingar. Ríkisstjórn Íslands er að taka skref með nýjum lögum um meðhöndlun úrgangs sem eru nú til umfjöllunar á Alþingi. Þessi nýju lög krefjast flokkunar á byggingar- og niðurrifsúrgangi á byggingarsvæðum. Við erum einnig að sjá meiri skriðþunga hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun (HMS) sem er búin að gefa út ítarlegar leiðbeiningar um stjórnun byggingarúrgangs. Þessar leiðbeiningar eru þróaðar af ráðgjöfum okkar hjá VSÓ Ráðgjöf, í samvinnu við samtökin Grænni Byggð. Þessi skref benda til þess að eftirlitsstofnanir eru farnar að viðurkenna gildi þess að varðveita þær efnisauðlindir sem eru bundnar í byggingariðnaðinum á Íslandi.

Það eru þrír hornsteinar hringrásarhagkerfisins sem við hjá VSÓ Ráðgjöf erum að kynna og innleiða í okkar hönnun:

  1. Hanna til að taka í sundur
  2. Efnisrakning
  3. Sérvalið niðurrif og endurnotkun

Hanna til að taka í sundur er grundvallar atriði ef það á að varðveita byggingarefni. Það þarf að útfæra vörur sérstaklega þannig það er hægt að taka byggingu í sundur án þess að skerða gæði. Efnisrakning er í sjálfu sér strikamerki á byggingarhluta sem tengir við allar helstu upplýsingar, sérstaklega upplýsingar um viðhald og svo leiðbeiningar um hvernig á að taka hluti í sundur. Að lokum þarf alltaf að skoða núverandi byggingar vel og kortleggja byggingarefni. Það leysir engan vanda að ryðja niður núverandi byggingum og reisa nýjar vistvænar byggingar. Heldur þurfum við að gera nákvæmar úttektir á núverandi húsnæði og endurnýta allt sem við getum.

Við hjá VSÓ Ráðgjöf höfum verið að vinna brautryðjandi starf á sviði hringrásarhagkerfisins. Við stefnum að því að innleiða þennan hugsunarhátt í allt okkar hönnunarferli. Við sjáum fyrir okkur framtíð þar sem byggingar líkjast LEGO kubbum þar sem er hægt að raða saman og taka í sundur staðlaðar einingar og búa til byggingar sem henta mörgum ólíkum þörfum. Það er komin tími á byltingu í byggingariðnaðinum ef við ætlum okkur að tryggja farsæld og sjálfbærni komandi kynslóða.

„Primitive men, and to a large extent also men of the early civilizations, imagined …. there was always some place else to go when things got too difficult.“ (Boulding 1966, bls. 1)

Höfundur: Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur Ph.D. hjá VSÓ Ráðgjöf 


 

Heimildir

Boulding, Kenneth E. (1966). „The economics of the coming spaceship earth.“ Environmental Quality Issues in a Growing Economy, p. 3-14.

Jónsson, Ó.P. & Ólafsdóttir, E. (2020). „Samtal kynslóðanna.“ Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Reykjavík.

Ward, Barbara (1966). Spaceship Earth. New York: Columbia University Press.