2. október 2017

Hleðslustöðvum fyrir rafbíla fjölgað í Reykjavík

Til stendur að bjóða út framkvæmdir vegna uppsetningar á 58 hleðsluúrtökum fyrir rafbíla á þrettán stöðum í miðborg Reykjavíkur, en slíkar hleðslustöðvar eru í samræmi við markmið borgarinnar um að styðja við umhverfisvæna samgöngumáta, draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði í borginni.

Settar verða upp stöðvar sem fullhlaða bíla á 2-5 klukkustundum á veggi bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs og á standa með hleðsluúrtökum við götustæði. Rafmagnið á hleðslustöðvunum verður endurgjaldslaust fyrst um sinn og verða bílastæði með hleðslustöðvum við götur sem Reykjavíkurborg rekur gjaldfrjáls fyrstu 90 mínúturnar, líkt og önnur gjaldskyld stæði fyrir vistvæn ökutæki.

VSÓ Ráðgjöf starfar sem ráðgjafi Reykjavíkurborgar og sér um hönnun og gerð útboðsgagna ásamt framkvæmdaumsjón í þessu verkefni þar sem m.a. verður gerð krafa um að samningsaðili útvegi og starfræki rekstrarkerfi fyrir hleðslustöðvarnar og bjóði uppá smáforrit fyrir snjalltæki þar sem m.a. má sjá lausar stöðvar.

Reiknað er með að framkvæmdir við uppsetningu hleðslustöðvanna hefjist í október og standi fram í mars 2018.

Kynning Reykjavíkurborgar á hleðslustöðvum