18. október 2019

Heimsmarkaðsmið Sameinuðu þjóðanna og Vegagerðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Vegagerðin var yfirskrift á erindi Bryndísar Skúladóttur á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar 2019. Ágrip af erindinu má nálgast hér.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs. Ríkisstjórn Íslands samþykkti í júní 2018 forgangsröðun við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hérlendis. Forgangsmarkmiðin endurspegla áherslur stjórnvalda við innleiðingu Heimsmarkmiða næstu árin.

VSÓ Ráðgjöf skoðaði í verkefni sínu hvernig setja megi fram forgangsmarkmið Vegagerðarinnar vegna innleiðingar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Settar eru fram tillögur að mælikvörðum og matsþáttum til að fylgjast með þróun þessara þátta. Í verkefninu er einnig skoðuð tenging við forgangsmarkmið ríkisstjórnarinnar og hvernig Vegagerðin getur innleitt markmið sem að henni snúa.

Skipta má tengingu verkefna Vegagerðarinnar við Heimsmarkmiðin í fjóra þætti:

  1. Öruggar, sjálfbærar og aðgengilegar samgöngur
  2. Sjálfbær orka og viðnámsþol gegn loftslagsbreytingum
  3. Nýting auðlinda og vernd vistkerfa
  4. Jöfn tækifæri og skilvirk stofnun.

Tenging við Heimsmarkmiðin er sterkust þegar litið er til öruggra, sjálfbærra og aðgengilegra samgönguinnviða, enda endurspegla þau hlutverk og helstu verkefni Vegagerðarinnar. Líta má svo á að þar séu meginmarkmið eða forgangsmarkmið Vegagerðarinnar. Fyrir Heimsmarkmið sem varða viðnámsþol gegn loftslagsbreytingum og sjálfbæra orku eru samgöngur í lykilhlutverki og tengjast þannig verkefnum Vegagerðar. Nýting auðlinda og vernd vistkerfa eru til umfjöllunar í umhverfisstefnu Vegagerðarinnar og mælikvörðum sem fylgst er með í gegnum umhverfisstjórnun og gæðastjórnun. Markmið og mælikvarðar varandi jöfn tækifæri og skilvirka stofnun eru sett fram í jafnréttisstefnu Vegagerðarinnar og mælikvörðun út frá lögum um opinber fjármál og samgönguáætlun.

Í verkefninu var gerð samantekt þar sem sett er fram tenging milli mælikvarða Heimsmarkmiða og markmiða í stefnum og áætlunum Vegagerðar. Í sumum tilfellum er Vegagerðin nú þegar að mæla og vakta viðkomandi þátt, í öðrum þarf að aðlaga mælikvarða til að tengjast betur Heimsmarkmiðunum og í enn öðrum eru ekki til staðar mælikvarðar hjá Vegagerðinni. Vegagerðin getur nýtt niðurstöður til að forgangsraða verkefnum tengdum Heimsmarkmiðunum. Einnig nýtast niðurstöðurnar í vinnu Vegagerðarinnar með stjórnvöldum við að skilgreina markmið og ákvarða aðgerðir tengdar forgangsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.