25. janúar 2017

Framkvæmdum við Klettaskóla miðar vel

„Framkvæmdum við Klettaskóla í Öskjuhlíð miðar vel og það er ekkert sem bendir til annars en að þeim ljúki fyrir haustið 2018 eins og áætlanir gera ráð fyrir,“ segir Símon Unndórsson verkefnisstjóri hjá VSÓ Ráðgjöf sem sér um alla verkfræðihönnun við verkið aðra en hljóð- og brunahönnun. Um er að ræða rúmlega 2700 fermetra nýbyggingu sem mun meðal annars hýsa íþróttasal, tvær sundlaugar, búningsaðstöðu, eldhús og hátíðarsal. Þá verður starfsmannaaðstaða byggð ofan á eldri tengibyggingu auk félagsmiðstöðvar sem verður niðurgrafin, samtals um 1100 fermetrar. Þá verða gerðar breytingar og endurbætur á eldra húsnæði skólans sem eru um 3200 fermetrar.  Heildarbyggingamagnið er því rúmlega 6900 fermetrar og er þetta með stærstu byggingaverkefnum sem Reykjavíkurborg vinnur að um þessar mundir. Arkitektar bygginganna eru OG arkitektar sem einnig hönnuðu eldri byggingar skólans.

Að sögn Símonar er allri uppsteypu um það bil að ljúka og um þessar mundir er verið að reisa starfsmannaaðstöðuna sem er talsvert flókið verk því hún kemur ofan á eldri tengibyggingu og þurfti að hanna sérstakt burðarvirki fyrir hana. Til að byggingarnar falli sem best að íbúabyggðinni sem fyrir er var ákveðið að grafa þær meira niður en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það kallaði á aukna jarðvegsvinnu og voru alls um 10 þúsund rúmmetrar af klöpp og öðrum jarðvegi flutt af byggingasvæðinu.

Klettaskóli er grunnskóli fyrir börn með sértækar námsþarfir sem þjónar öllu landinu. Sagt hefur verið að þessar framkvæmdir muni gjörbylta starfi skólans og skapa nemendum hans nýja möguleika þegar þeim er lokið. Haldið er uppi kennslu í skólanum á byggingatímanum og segir Símon að óhjákvæmilega hafi framkvæmdirnar valdið einhverjum óþægindum hjá nemendum og starfsliði skólans en reynt hafi verið að haga framkvæmdum þannig að þær hefðu sem minnst rask í för með sér. Hann segir að menn keppi að því að klára uppsteypu og lokun á öllum nýbyggingum fyrir næsta haust þannig að þá verði eingöngu eftir innri frágangur í nýbyggingum og yfirferð á eldri byggingum. Einnig er gert ráð fyrir að taka sundlaugina og íþróttahúsið í gagnið fyrir skólaárið sem hefst haustið 2017.  „Það komu vissulega upp ákveðin vandamál  í byrjun en við erum fyrir löngu komin á breiðu brautina enda er þessu verki mjög vel stýrt af borginni,“ segir Símon Unndórsson verkefnastjóri VSÓ Ráðgjafar.