25. janúar 2016

Framkvæmdum að ljúka við eina stærstu frystigeymslu landsins

Þessa dagana er unnið að lokafrágangi nýrrar 10 þúsund tonna frystigeymslu Eimskips við Hafnarfjarðarhöfn, sem hlotið hefur nafnið Fjarðarfrost. VSÓ Ráðgjöf hefur haft yfirumsjón með byggingarframkvæmdum og stýrði hönnunarferlinu. Aðeins liðu um 9 mánuðir frá því að byggingaframkvæmdir á lóðinni hófust og þar til fyrstu vörurnar voru teknar inn í fyrri frystiklefann af tveimur
Frystigeymslan í Hafnarfirði er sú stærsta á suðvestur horninu og önnur stærsta frystigeymsla landsins á eftir frystigeymslu Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað.  Samanlögð stærð hússins er 7000 fermetrar og skiptist í tvo jafnstóra frystiklefa og 1200 fermetra afgreiðslu- og þjónusturými.  Til samanburðar má geta þess að frystigeymslan er þrisvar sinnum stærri en Sundafrost, frystigeymsla Eimskips í Sundahöfn.

„Í sjálfu sér var bygging frystigeymslunnar ekki mjög flókin , en flækjustig verkefnisins liggur hins vegar í ólíkum tæknikerfum sem þurfa að vinna saman og í stuttum framkvæmdatíma,“ segir Ólafur Hermannsson byggingatæknifræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf sem var byggingastjóri verkefnisins.

Níu mánaða byggingartími

Ólafur segir að undanfarin ár hafi verið viðvarandi skortur á frystirými í landinu og með stórauknum markrílveiðum hafi þessi þörf farið vaxandi.  Eimskip var fyrir með gamla frystigeymslu á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði og fékkst stækkun á þeirri lóð fyrir nýju geymsluna.  Þarna er stutt að viðlegukanti Hafnarfjarðarhafnar og því hentugt að taka við og afgreiða farma beint um borð í skip.

Frystigeymslan í Hafnarfirði var sem fyrr segir reist á stuttum tíma. Ákvörðun um bygginguna var tekin í stjórn Eimskips í lok október 2014 og í framhaldinu fór fram forhönnun byggingarinnar og síðan útboð framkvæmda.  Lægstbjóðandi í byggingu frystigeymslunnar var VHE í Hafnarfirði og var tilboði þeirra tekið á Þorláksmessu 2014.  Þar með hófst hið eiginlega hönnunarferli byggingarinnar í samvinnu við verktakann.  Byggingarframkæmdir á lóðinni hófust um miðjan febrúar 2015 og var byrjað að nota frystigeymsluna níu mánuðum síðar þegar fyrstu farmarnir voru settir í geymsluna þann 13 nóvember.

Frystikerfi geymslunnar er frá kælismiðjunni Frosti og AVH ehf er arkitekt byggingarinnar. Meðal tæknikerfa frystigeymslunnar eru bruna- og gasviðvörunarkerfi en kælimiðill frystikerfisins er ammóníak.  Þá er öflug varaaflsstöð til taks ef truflanir verða á raforkuafhendingu og fullkomið vöruhúsakerfi skráir og heldur utan um upplýsingar um þær vörur sem eru í geymslunni á hverjum tíma.