3. nóvember 2016

Fjölbreytt og spennandi starf

Viðtal við Söndru Dís Dagbjartsdóttur sem birtist í kynningarblaði Fréttablaðsins „Verkfræði og arkitektúr“ þann 29. október 2016.
Sandra Dís Dagbjartsdóttir byggingarverkfræðingur starfar á verkefnastjórnunarsviði VSÓ Ráðgjafar. Hún segir fjölbreytileikann það besta við starf sitt en Sandra vinnur að mörgum ólíkum verkefnum, meðal annars nýja Landspítalanum og tengivirki í Vestmannaeyjum.

„Ég kláraði byggingartæknifræði frá HR og fór í framhaldi af því í meistaranám í byggingarverkfræði í HR með sérsvið í framkvæmdastjórnun,“ segir Sandra Dís sem vann meðfram skóla hjá verktakafyrirtæki en hefur unnið hjá VSÓ Ráðgjöf frá árinu 2012 og líkar mjög vel. „VSÓ Ráðgjöf er rótgróin verkfræðistofa enda var hún stofnuð árið 1958 og er alhliða verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki.

Skemmtileg verkefni

Sandra starfar á verkefnastjórnunarsviði hjá VSÓ Ráðgjöf og sinnir þar mjög fjölbreyttum verkefnum. „Öll verkefnin eru áhugaverð á sinn hátt. Meðal þess sem er skemmtilegt er að maður getur upplifað ólík stig í verkferlinu, allt frá hönnunarferli og yfir í að sjá mannvirki rísa og vera tekin í notkun.“ Sjálf segist Sandra hingað til hafa unnið meira á framkvæmdaendanum en hafi undanfarið færst meira yfir í hönnunarferlið sem henni þykir góð áskorun. Hún nefnir nokkur af þeim verkefnum sem hún hefur unnið að undanfarið. „Ég sinni til dæmis verkeftirliti vegna tengivirkis HS Veitna í Vestmannaeyjum. Það þýðir að ég flýg þangað einu sinni í viku og sinni framkvæmdaeftirliti, það er að segja bæði framvindueftirliti og gæðaeftirliti. Ég held verkfundi um stöðu verksins og fer síðan í úttektir. Þá passa ég að allt komi heim og saman við teikningar og verklýsingar. Reglulega koma svo upp vandamál sem þarf að leysa úr.

Sandra er einnig í verkefnastjórnun fyrir nýja Landspítalann við Hringbraut. „Við erum hluti af CORPUS hópnum sem sér um að hanna meðferðarkjarnann. Þetta er rosalega stórt og flott verkefni en að sama skapi flókið.“ Af öðrum verkefnum Söndru má nefna nýjan skóla í Mosfellsbæ sem er enn á hönnunarstigi, ýmis þróunarverkefni og útboð fyrir Strætó í Reykjanesbæ. „Þessi fjölbreytileiki er það sem gerir starf mitt mjög skemmtilegt.“

Góður andi hjá VSÓ

Sandra segir mjög gott að vinna hjá VSÓ. „Þetta er mjög fjölskylduvænn vinnustaður og mikið lagt upp úr fjölskyldugildum og því að starfsfólki líði vel. Það er mjög gott þegar maður á tveggja ára barn,“ segir hún glaðlega. Hún segir starfsandann einnig mjög góðan. „Samstarfsfólk mitt er fjölbreytt og stjórnendur vinna meðvitað að því að jafna kynjahlutfall og hafa sem mestan fjölbreytileika í aldri,“ segir Sandra og telur að þetta skili sér vel enda sé lítil hreyfing á fólki af því að langflestum líði vel í sínu starfi.