27. maí 2020

Farsímagögn inn í umferðarlíkan

Fyrstu skref – frumskoðun

Við uppbyggingu hefðbundinna umferðarlíkana eru notuð gögn og upplýsingar úr ýmsum áttum sem sett eru í samband við ferðahegðun íbúa og þannig má fá nokkuð glögga mynd af umferð um gatnanetið. Þessi aðferðafræði útheimtir hins vegar umfangsmikla gagnasöfnun ef vel á að vera. Erlendar rannsóknir á síðustu árum hafa sýnt fram á að nýjar aðferðir þar sem stuðst er við ópersónugreinanleg farsímagögn frá símafélögunum geta gert líkangerðina bæði gagnlegri og skilvirkari og bætt gæði umtalsvert í spám líkana. Þetta verkefni sem hér um ræðar er nokkurs konar frumathugun þar sem markmiðið er að taka saman þörf, umfang og helstu forsendur verkefnisins.

Notkun gagna frá farsímakerfum bíður uppá mikla möguleika varðandi þróun hefðbundinna umferðarlíkana. Nýta má gögn frá farsímafyrirtækjum til að draga út margs konar upplýsingar tengdar samgöngum; líkt og fjölda ferða, val á ferðamáta, ferðatíma, ferðavegalengd o.fl. Erlendis hafa ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar í þessa veru en hér á landi hefur sáralítið verið gert enn sem komið er. Gríðarlegir möguleikar eru í áframhaldandi þróun og samþættingu mismunandi gagna og gagnalinda í þeim tilgangi að bæta líkangerðina.

Í verkefninu eru settar fram nokkrar spurningar en markmið þess er ekki að svara þessum spurningum með tæmandi hætti heldur frekar að setja þær fram og koma í orð. Skilgreina í hvaða átt skuli horfa og hvers vegna. Í framhaldinu mun svo verða kafað dýpra í þessa þætti.

Fyrsta spurningin snýst um það hvað eigi að gera. Svarið við þeirri spurningu er að afla skuli gagna frá farsímafyrirtækjum sem nýtast til að kortleggja ferðir um höfuðborgarsvæðið. Farsímanotkun á Íslandi er mjög almenn, hlutdeild símaeignar er um 97% þannig nánast hver einasti einstaklingur hefur síma. Farsímakerfin vita ekki nákvæma staðsetningu símatækja en þau vita gróflega staðsetningu símans innan dreifikerfisins. Og eftir því sem dreifikerfið er þéttriðnara verður nákvæmnin meiri. Með ákveðnum aðferðum má svo tengja hreyfingu síma við gatnanet, kerfi almenningssamgangna, stígakerfi o.fl. til að leggja mat á ferðamáta. Til að tryggja persónuvernd verður aldrei unnið með ferðaferla einstakra síma heldur einungis uppsafnaða ferla.   

Þá var spurt hvers vegna það sé góð hugmynd að nýta gögn úr farsímakerfum inn í umferðarlíkön. Út frá slíkum gögnum er hægt að kortleggja umferð um athugunarsvæðið, sem í þessu tilviki er höfuðborgarsvæðið.  Rannsóknir erlendis hafa sýnt að gögn sem aflað er með þessum hætti geta gefið fyllilega sambærilegar niðurstöður og hefðbundnar aðferðir (talningar, ferðavenjukannanir o.þ.h.) og í mörgum tilfellum betri niðurstöður.

Þá er jafnframt ætlunin að leita svara við því hvernig nýta skuli gögnin og hver sé mögulegur ávinnur af því. Með greiningu á farsímagögnum væri hægt að meta dægursveiflu í umferðinni, eitthvað sem áðurnefndar punktmælingar ná ekki nema að takmörkuðu leyti.  Skoða mætti áhrif stórviðburða (s.s. Menningarnætur) á umferðina, áhrif af skyndilegu norðanáhlaupi í veðri, áhrif tiltekinna framkvæmda eða í raun hvað sem hugurinn girnist.

Markmiðið með þessum fyrsta hluta verkefnis var fyrst og fremst að kanna hvort eftir einhverju sé að slægjast; hvort gagnaöflun af þessu tagi geti bætt einhverju við núverandi aðferðir til að skila betri eða ítarlegri niðurstöðum. Niðurstaða þeirrar athugunar er einróma jákvæð. Þannig í næsta áfanga þessa verkefnis er ætlunin að kafa dýpra í verkefnið með það fyrir augum að til verði einhvers konar frumútgáfa kerfis til greiningar gagna af þessu tagi.