23. janúar 2017

Tvö glæsileg skrifstofuhús endurbyggð við Suðurlandsbraut

Miklar byggingaframkvæmdir neðarlega við Suðurlandsbraut í Reykjavík hafa vakið athygli vegfarenda um nokkurra mánaða skeið. VSÓ Ráðgjöf hefur umsjón með þessum framkvæmdum og byggingastjóri verksins er Kristinn Alexandersson byggingatæknifræðingur hjá VSÓ. Við Suðurlandsbraut númer 8 og 10 er nú verið að endurbyggja tvö hús sem reist voru á sjöunda áratug síðustu aldar af tveimur gamalgrónum verslunarfyrirtækjum Poulsen og Fálkanum.  Það er fasteignafélagið Eik sem er að endurbyggja húsin og stækka þau úr þremur í sex hæðir auk þess sem reist verður rúmgott sameiginlegt bílastæðahús á baklóð.  Húsin eru hönnuð sem skrifstofubyggingar og er þegar frágengið að Vodafone fer inn í Suðurlandsbraut 8 og er húsið nú að taka á sig rauðan lit fyrirtækisins.  Ekki liggur fyrir hvaða starfsemi flyst í húsið númer 10, en bygging þess er skemur á veg komin.

Verklok á næsta ári

Að sögn Kristins Alexanderssonar hjá  VSÓ hófust framkvæmdir við húsin í apríl á þessu ári og er gert ráð fyrir að Suðurlandsbraut 8 og bílastæðahúsið verði tekin í notkun í áföngum á fyrri hluta næsta árs og síðara húsið fyrir lok árs 2017.  Hann segir að mesta áskorunin við þessar breytingar hafi verið jarðvinna á baklóð þar sem fleyga þurfti mikla klöpp til að koma fyrir bílastæðahúsi.  Þar þurfti einnig að færa spennistöð sem var á baklóð og koma henni fyrir til bráðabirgða annars staðar á lóðinn.  Taka hafi þurft tillit til viðkvæmrar starfssemi í nærliggjandi húsum en allt hafi þetta blessast að lokum og er nú unnið að því að steypa upp bílastæðahúsið sem verður um 5000 fermetrar að flatarmáli og mun rúma liðlega 140 bíla.

Kristinn segir oft flókið að endurbyggja eldri hús og meðal annars hafi þurft að rífa ágæta steypta þakplötu af húsinu númer 10 vegna þess að of lágt var til lofts á efstu hæðinni. Ofan á upprunalegar þrjár hæðir beggja húsa koma tvær hæðir auk inndreginnar þakhæðar sem er byggð úr stálgrindum en alls verður hvort hús um 4800 fermetrar að flatarmáli.  Það er arkitektastofan Arkis sem hannar breytingarnar á báðum húsunum en Yrki arkitektar vinna nú að innra skipulagi hússins númer 8 í samvinnu við Vodafone.

Góð samvinna

„Við höfum haft mjög góða verktaka með okkur í þessu verkefni sem hafa verið fljótir að leysa þau mál sem upp koma.  Það er óhjákvæmilegt þegar verið er að breyta eldri húsum að það komi upp einhver ófyrirséð mál sem þarf að bregðast við. Það hefur gerst hér eins og annars staðar þar sem eins háttar til en hingað til höfum við náð að leysa þau mál í góðri samvinnu.“

Kristinn segir hlutverk byggingastjóra að sjá um samskipti við yfirvöld og að tryggja að unnið sé samkvæmt samþykktum gögnum. VSÓ er einnig með verkefnastjórn á verkefninu og sér um að ráða verktaka til einstakra starfa og að annast almenna umsjón og eftirlit með verkinu.