24. maí 2017

Áskorun að fá að takast á við stór verkefni

Segir Birgir Indriðason byggingaverkfræðingur hjá VSÓ

„Ég kann mjög vel við mig hér hjá VSÓ Ráðgjöf. Ég er að vinna við burðarþolsútreikninga í stóru og krefjandi verkefni  við grunnskólann og menningarmiðstöðina í Úlfarsárdal,“ segir Birgir Indriðason byggingaverkfræðingur hjá VSÓ. Birgir er umhverfis-og byggingaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk mastersprófi í burðarþolsfræðum frá NTNU háskólanum í Þrándheimi 2013. Sumarið áður hafði hann unnið í afleysingum hjá VSÓ og strax að námi loknu hóf hann að nýju störf hjá VSÓ. Síðustu misserin hefur meginviðfangsefni hans verið verkefnið í Úlfarsárdal og segir hann það hafa verið mikla áskorun fyrir sig þá nýkominn úr námi að fá að takast á við jafn stórt verkefni. „Þótt það sem snýr að burðarþolsútreikningum hafi að mestu verið á mínu borði þá nýt ég þess að vinna með góðum teiknurum og hafa aðgang að reyndu samstarfsfólki sem veitir ráð ef á þarf að halda en við erum 7 sem störfum á fagsviði burðarvirkis.“  Hann segir starfið fela í sér margar og skemmtilegar áskoranir og þótt það geti vissulega verið dálítið stressandi á köflum sé það þó aðallega skemmtilegt því þetta sé verkefni sem skipti verulegu máli. Hann segist líta svo á að bestu reynsluna sé að fá í krefjandi verkefnum.

Sveiflur í byggingariðnaðinum

Auk verkefnisins í Úlfarsárdal hefur Birgir einnig tekið þátt í verkefnum á vegum VSÓ í Noregi og þar nýtist honum norskukunnáttan frá námsárunum. Aðspurður um ástandið í byggingariðnaðinum nú um stundir hér heima segir hann mikið í gangi og sumstaðar séu menn nánast á yfirsnúningi. „Byggingaiðnaðurinn hefur gengið í miklum bylgjum hér á Íslandi. Það koma tímabil þar sem allt er á fullu en síðan koma samdráttarskeið. Hins vegar líður yfirleitt ekki langur tími þar til allt er komið á fulla ferð aftur.“ Birgir segir að þrátt fyrir að bankahrunið hafi brostið á þegar hann var að byrja í verkfræðinni hafi hann ekki séð ástæðu til að breyta um stefnu því fyrirsjáanlegur samdráttur yrði tímabundinn eins og komið hafi á daginn.

Stærsta verkefni Reykjavíkurborgar

Nýja menningarmiðjan sem Reykjavíkurborg reisir í Úlfarsárdal á að þjóna byggð bæði í Grafarholti og Úlfarsárdal. Framkvæmdin er stærsta einstaka framkvæmd borgarinnar og er áætlað að kostnaður nemi um 9,8 milljörðum króna en heildarbyggingamagn er um 15.500 fermetrar. Þarna verða leikskóli, grunnskóli, frístunda- og menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, sundlaug og íþróttahús. Mannvirkið mun rísa í nokkrum áföngum. Fyrsti áfangi er 820 fermetra leikskóli sem þegar er fullbyggður og tilbúinn til notkunar en tengdur honum verður 5800 fermetra grunnskóli sem byrjað er að steypa undirstöður fyrir, en miðað er við að hann verði fullbyggður sumarið 2019.