27. maí 2015

VSÓ lýkur við alþjóðlegan frjálsíþróttavöll í Hamar í Noregi

Fyrsta stórmótið haldið um Hvítasunnuhelgina

Nýr frjálsíþróttavöllur hannaður af VSÓ Ráðgjöf var tekin formlega í notkun með stórmóti norskra frjálsíþróttamanna í bænum Hamar í Noregi um Hvítasunnuhelgina. Um er að ræða fullbúinn íþróttavöll með aðstöðu fyrir allar greinar frjálsra íþrótta þar á meðal 8 hlaupabrautir, langstökksgryfjur, platta fyrir kúluvarp og sleggjukast og skautavöll sem lokið verður að fullu við síðar.

Völlurinn sem uppfyllir kröfur alþjóða frjálsíþróttasambandsins fyrir alþjóðlegar keppnir var opnaður með stórmótinu Norwegian Grand Prix þar sem helstu stjörnur norskra frjálsiþrótta kepptu. Frjálsíþróttaaðstaðan í Hamar er nú talin ein sú besta sem völ er á í Noregi. VSÓ Ráðgjöf hefur talsverða reynslu af undirbúningi og hönnun frjálsíþróttavalla því áður hefur félagið unnið slík verk bæði fyrir FH í Kaplakrika og eins fyrir Kópavogsbæ.

Lærdómsríkt samstarf

Auk sjálfs frjálsíþróttavallarins og mannvirkja sem honum tengjast hannaði VSÓ Ráðgjöf einnig breytingar sem gera þurfti á fylkisvegi í nágrenninu og nýjan aðkomuveg að svæðinu með tilheyrandi bílastæðum. Vilhjálmur Árni Ásgeirsson byggingaverkfræðingur og sviðsstjóri Byggðatækni hjá VSÓ Ráðgjöf hafði umsjón með verkefninu í Hamar. „Við byrjuðum á þessu verki í lok árs 2012 en meginþungi hönnunarinnar fór fram 2013 og byggingaframkvæmdirnar stóðu síðan yfir allt árið 2014 og fram á þetta ár,“ segir Vilhjálmur.

Eftirlit og umsjón með verkinu var í höndum sveitarfélagsins sem hafði sér til fulltingis norska verkfræðistofu og segir Vilhjálmur eftirlitsaðilana hafa verið mjög nákvæma og verkferlar að ýmsu leyti frábrugðnir því sem menn eigi að venjast hér heima. „Þetta var mjög lærdómsríkt samstarf,“ segir Vilhjálmur. Hann segir völlinn byggðan á svæði þar sem áður var óbyggt engi í Börstad einu af hverfum Hamars. Leysa þurfti ýmis tæknileg vandamál við uppbygginguna en frostfrítt dýpi á þessum slóðum er 2,1 metri með þéttum botni. Því var mikilvægt að tryggja rétta undirbyggingu og góða ræsingu með drenlögnum og þá þurfti að færa háspennumöstur vegna vallargerðarinnar.

VSÓ sinnti undirbúningi framkvæmdanna þar á meðal umfagnsmikilli þarfagreiningu með verkkaupa og væntanlegum notendum aðstöðunnar, for-og lokahönnun verksins, gerð útboðsgagna auk reglulegrar þátttöku í verkfundum á byggingartímanum.

Jákvæð viðbrögð

Vilhjálmur segir VSÓ hafa unnið mörg verkefni fyrir sveitarfélagið Hamar eftir að rammasamningur var gerður við sveitarfélagið árið 2011. Vinna í tengslum við frjálsíþróttavöllin eru hins vegar verkefni sem fengust eftir almenn útboð. Verkið var unnið af starfsmönnum VSÓ Ráðgjafar á Íslandi í samstarfi við skrifstofur fyrirtækisins í Noregi. Hann segir að helgina fyrir Hvítasunnu hafi aðstaðan verið prófuð með unglingamóti í frjálsum íþróttum og viðbrögðin hafi verið jákvæð og almenn ánægja sé með hvernig til hafi tekist.

Umfjöllun á MBL 27.05.2015