Umhverfisráðgjöf

Mengunarmál

VSÓ Ráðgjöf býður upp á margs konar þjónustu í tengslum við úrlausn verkefna á sviði mengunarmála. Verkefni á þessu sviði geta verið af ýmsum toga, svo sem aðstoð við uppsetningu á flóknum framleiðsluferlum þar sem áhersla er lögð á að leysa verkefnið fyrir verkkaupa með því að setja saman hóp sérfræðinga sem, í sameiningu, geta leyst allt verkefnið. Í slíkum hópi geta verið jafnt innlendir sem erlendir sérfræðingar, allt eftir umfangi verkefna.

Sérfræðingar VSÓ hafa víðtæka reynslu af hvers konar mengunarmælingum, geta aðstoðað við skipulagningu rannsókna á menguðum svæðum og gert tillögur um lausnir ýmissa vandamála sem tengjast slíku.

Boðið er upp á aðstoð við aðila sem þurfa á hverskonar efnagreiningum að halda, við eftirlit með mengun eða gæðum og einnig við skilgreiningar á verkefni og öflun tilboða í greiningar.

 

Sorpmál

Sorpmál sveitarfélaga eru viðamikill málaflokkur sem þarfnast skipulagningar og hagkvæmra úrlausna. Lagaumhverfi á sviði sorpmála hefur breyst mikið á síðustu árum og kemur til með að taka breytingum í framtíðinni. Umhverfisvitund landsmanna hefur aukist hröðum skrefum hin síðari ár og gerir fólk kröfu um að búa í hreinu og ómenguðu umhverfi. Þetta leiðir til þess að förgun og meðhöndlun sorps verður erfiðari með hverju árinu. Stór hluti sorpsins er endurnýtanlegur og/eða endurvinnanlegur. Til þess að endurvinnsla eða nýting sé hagkvæm þarf flokkun að fara fram.

VSÓ Ráðgjöf hefur á undanförnum árum unnið verkefni á þessu sviði, m.a. fyrir Akraneskaupstað þar sem sorphirða, sorpflokkun og sorpförgun var skipulögð og Reykjavíkurborg þar sem skoðaðir voru möguleikar og hagkvæmni þess að taka upp flokkun og vinnslu lífræns úrgangs frá heimilum í Reykjavík. Þá var unnið verkefni fyrir Akureyri í tengslum við hagkvæmni ólíkra kosta við sorphirðu, auk fjölda smáverkefna fyrir önnur sveitarfélög.

 

VSÓ Ráðgjöf býður ráðgjöf í heildarskipulagningu sorpmála, frá tunnuútboðum og hagkvæmniathugunum að heildarskipulagningu sorpferlisins og mat á umhverfisáhrifum sorpförgunarstaða.


Nánari upplýsingar veitir:

Guðjón Jónsson
Efnaverkfræðingur M.Sc.
gudjon@vso.is
s: 585 9114