Samgöngumál

Síðastliðin ár hefur umferðarstjórnun (mobility management) verið að hasla sér völl sem leið til að draga úr sívaxandi umferð og álagi á vegakerfið í evrópskum borgum. VSÓ Ráðgjöf hefur unnið að gerð nokkurra rannsóknarskýrslna um umferðarstjórnun s.s. hvernig nýta megi samgöngukerfið betur með margvíslegum og samræmdum aðgerðum sem stuðla að sjálfbærari og umhverfisvænni ferðamáta. Í þessum rannsóknum kemur m.a. fram að umferðarstjórnun hefur verið að skila góðum árangri í nágrannalöndum okkar og breytt ferðamynstri íbúa í átt að sjálfbærum samgöngum. Í samræmi við niðurstöður rannsókna hefur VSÓ Ráðgjöf unnið að því að innleiða umferðarstjórnun í ýmsar áætlanir þ.m.t. skipulagsáætlanir, hjólreiðaáætlanir og samgönguskipulag.

Viðfangsefni

Við umferðarstjórnun er unnin áætlun þar sem meðal annars koma fram helstu markmið umferðarstjórnunar fyrir svæðið, þau verkefni sem ráðast skal í til að ná settum markmiðum, tímaáætlun fyrir hvert verkefni og hver ber ábyrgð á framkvæmd og eftirfylgni þess. Aðgerðir umferðarstjórnunar geta verið mjög fjölbreyttar og fara þær einna helst eftir því hver vettvangurinn og markhópurinn er.

Í grófum dráttum má skipta stærð og gerð umferðarstjórnunaráætlana í tvennt.  Annars vegar er það umferðarstjórnunaráætlun fyrir smærri svæði eða fyrirtæki s.s. verslunarmiðstöðvar, skóla, stofnanir eða einkafyrirtæki. Þar er markhópurinn oftast nokkuð þröngt skilgreindur, t.d. starfsmenn, viðskiptavinir eða gestir.  Hins vegar er um að ræða umferðarstjórnun fyrir stærri svæði s.s. heil hverfi, ákveðna bæjarhluta, heila borg eða sveitarfélag.  Í þeim tilvikum er unnin samræmd heildaráætlun fyrir svæðið og samanstendur hún af mörgum ólíkum aðgerðum sem henta hinum mörgu og ólíku aðlilum innan svæðisins.

Ávinningur

Skýr og skilvirk umferðarstjórnun þar sem grunnurinn er lagður að sjálfbærum og umhverfisvænum ferðaleiðum ber með sér sparnað fyrir þjóðfélagið í heild sinni þar sem dregið er úr umferð vélknúinna ökutækja og álagi á vegakerfið er dreift.  Þannig hlýst af beinn sparnaður vegna minna viðhalds á umferðarmannvirkjum, umfangsminni nýframkvæmda og minni eldsneytisnotkunar.  Ábati skilvirkrar umferðarstjórnunar felst einnig og ekki síður í hreinna umhverfi, minni loft- og hávaðamengun, betri heilsu og auknu öryggi vegfarenda.


Nánari upplýsingar veitir:

Smári Ólafsson 
Sviðsstjóri samgangna
Umferðar- og samgönguverkfræðingur M.Sc.
smari@vso.is
s: 585 9187