Mat á umhverfisáhrifum

VSÓ Ráðgjöf hefur mikla sérþekkingu og reynslu af mati á umhverfisáhrifum og gildir það um öll stig matsvinnu:

  • Matsskyldu, þ.e. hvort framkvæmd skuli háð mati.
  • Matsáætlun, sem er eins konar verklýsing matsvinnu fyrir framkvæmdir sem háðar eru mati. Ákveðið er hvað þurfi að rannsaka og fjalla sérstaklega um í matsvinnu.
  • Gerð matsskýrslu um niðurstöðu matsvinnunnar.
  • Ráðgjöf er varðar eftirfylgni matsvinnunnar, s.s. vegna framkvæmdaleyfis, vöktunar umhverfisþátta eða útfærslu mótvægisaðgerða.

VSÓ Ráðgjöf hefur frá árinu 1996 unnið að mörgum stórum og umfangsmiklum matsverkefnum en nánari upplýsingar um nokkur þeirra má finna hér á vefnum.

 

Samráð

Í allri vinnu VSÓ Ráðgjafar er lögð mikil áhersla á að leita þverfaglegrar þekkingar og samráðs. Góð og sterk tengsl við sérfræðinga og umsagnaraðila sem koma að mati á umhverfisáhrifum eru afar mikilvæg sem og við aðra hagsmunaaðila. Vægi samráðs í matsvinnunni hefur aukist á síðustu árum. Þá telur VSÓ Ráðgjöf mikilvægt að framkvæmdaraðili taki virkan þátt í matsferlinu.

Auknar kröfur eru gerðar í flestum verkefnum skipulags- og umhverfismála um aðkomu almennings og annarra aðila. VSÓ Ráðgjöf hefur að undanförnu nýtt sér samráð við almenning og hagsmunaaðila í mati á umhverfisáhrifum og við gerð skipulagsáætlana. Með samráði er leitað eftir sjónarmiðum og áliti staðkunnugra og hagsmunaaðila áður en endanlega ákvörðun er tekin um verkefnið.

Gagnsemi samráðs felst fyrst og fremst í því að á fyrstu stigum verkefnis eða áætlana fer fram ítarleg og gagnleg vinsun í samráði við helstu hagsmunaðila. Þá felst mikilvægi samráðs í því að skapa sameiginlegan grundvöll til þess að byggja á og skapa traust milli aðila. Með samráðsnálgun er unnt að stuðla að aukinni sátt um niðurstöðu og skilvirkari vinnu við útfærslu aðgerðar.

Helstu kostir samráðs:

  • Auðveldar vinsun – sjónarmið helstu hagsmunaaðila á því hver aðalatriði máls eru og unnið með þau frá fyrstu stigum verkefnis.
  • Vankantar og ágreiningsmál skilgreint þegar í upphafi verkefnis, þar með verður einfaldara að bregðast við nauðsynlegum breytingum á verkefninu.
  • Gefur yfirlit yfir mismunandi hagsmuni og þar með þá þætti sem geta valdið deilum, en einnig yfirlit yfir þá þætti sem sátt ríkir um.
  • Dregur úr deilum – Athugasemdir koma fram strax í upphafi, þ.e. áður en málið er komið í fastar skorður og eykur þannig líkur á að hægt sé að finna ásættanlega lausn.
  • Skapar traust milli mismunandi hagsmunaaðila. Hluti af því er að leggja upp með gagnsætt ferli – Allar upplýsingar eru aðgengilegar.

 

Verkefnisstjórn

Stór þáttur matsvinnunnar er verkefnisstjórn. Matsvinna getur tekið langan tíma, verið kostnaðarsöm og snúið að mörgum þáttum. Því er mikilvægt að nálgast verkefnin á kerfisbundinn og markvissan hátt.

 

Ávinningur

Reynsla VSÓ Ráðgjafar er að mat á umhverfisáhrifum hafi komið framkvæmdaraðilum til góða, með betri undirbúningi, og minni hættu á töfum af ófyrirséðum orsökum og stuðlað að betri og ákjósanlegri lausn. Mikilvægt er að matið sé unnið samhliða hönnun þannig að unnt sé að taka tillit til umhverfisins á fyrstu stigum framkvæmdarinnar. Ávinningur framkvæmdaraðila af matsvinnunni er sá að hann öðlast góða yfirsýn yfir samræmi fyrirhugaðrar framkvæmdar við skipulagsáætlanir, kvaðir sem þarf að taka tillit til og samspil hennar við mismunandi umhverfisþætti. Með matsvinnu hefur hann einstakt tækifæri til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og skipulag á meðan unnið er að undirbúningi framkvæmdar.


Nánari upplýsingar veitir:

Stefán Gunnar Thors
Sviðsstjóri umhverfis og skipulags
Umhverfishagfræðingur M.Sc.
stefan@vso.is
s: 585 9180