Sjálfbærniskýrsla

Ávarp framkvæmdastjóra

Ágæti lesandi.

Í stefnumótun VSÓ og aðgerðum leggjum við ríka áherslu á að stuðla að kolefnishlutleysi og sjálfbærri þróun. Loftslagsbreytingar eru nú þegar byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Þörf er á tafarlausum viðbrögðum að mati vísindamanna. Öll þurfa að leggjast á eitt til að bregðast við og tekur VSÓ Ráðgjöf hlutverk sitt alvarlega í þessum efnum með því að gefa út sjálfbærnistefnu sem er leiðarljós í sjálfbærnivegferð fyrirtækisins og í þjónustu við viðskiptavini.

Innleiðing sjálfbærnistefnunnar gegnir mikilvægu hlutverki í uppbyggingu VSÓ sem vinnustaðar þar sem stutt er við velferð starfsfólks, faglega þróun og að tryggja ábyrga stjórnarhætti. Við vinnum náið með viðskiptavinum, viljum vera framsækin og hvetjum til umbreytinga. Við höfum átt samtal um sjálfbærni við fjölda viðskiptavina, rætt áskoranir og hvernig ná megi raunverulegum árangri í þeim efnum.

Fjölbreytt verkefni hafa verið unnin á árinu undir merkjum Grænu leiðarinnar sem er að festa sig í sessi í þjónustu VSÓ. Markmiðið er að stuðla að sjálfbærni á sviði umhverfis, samfélags og efnahags, draga úr kolefnislosun, hámarka auðlindanýtingu og benda á hagkvæmar lausnir sem stuðla að góðri lýðheilsu og bættu samfélagi.

Með því að halda sjálfbærniviku innan VSÓ haustið 2023 vildum við dýpka skilning starfsfólks á sjálfbærnistefnunni, fjalla um árangursrík verkefni og benda á hvernig starfsfólk getur tileinkað sér sjálfbærni í lífi og starfi.

Við leitumst stöðugt við að bæta frammistöðu okkar á sviði sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar. Góður árangur náðist t.d. í að auka hlutfall flokkaðs úrgangs og í að jafna kynjahlutfall meðal starfsfólks. Þá voru gerðar breytingar á bílaflota VSÓ til að minnka kolefnissporið.

Starfsfólk VSÓ leggur grunn að árangri með reynslu sinni, fagþekkingu og hugarfari um stöðugar framfarir. Ég þakka öllu starfsfólki VSÓ fyrir mikilvægt framlag, áræðni í starfi og vel unnin störf á árinu 2023. Viðskiptavinum og stjórn þakka ég gott samstarf.

Runólfur Þór Ástþórsson

Hér að neðan er ágrip úr Sjálfbærniskýrslu VSÓ Ráðgjafar 2023 en nálgast má sjálfbærniskýrslur VSÓ  í heild sinni hér til hliðar.

Code for a sustainable built environment

Umhverfisstjórnun í samræmi við kröfur ÍST EN ISO 14001 er hluti af rekstrarkerfi VSÓ Ráðgjafar og er ætlað að tryggja að fyrirtækið sýni góða frammistöðu í umhverfismálum og stýri þeim áhrifum sem starfsemin hefur á umhverfið.

Umhverfi

Stuðst er við UFS leiðbeiningar Nasdaq um framsetningu gagna þar sem horft er til losunar og losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda (GHL), orkunotkunar, orkukræfni, samsetningar orku, vatnsnotkunar, loftslagseftirlits stjórnar og stjórnenda, ásamt mildun loftslagsáhættu. Losunarkræfni GHL er sýnd sem losun á hvert stöðugildi og orkukræfni er orkunotkun á hvert stöðugildi og á hvern m3 eða m2 húsnæðis.

Umhverfisstjórnun í samræmi við kröfur ÍST EN ISO 14001 er hluti af rekstrarkerfi VSÓ Ráðgjafar og er ætlað að tryggja að fyrirtækið sýni góða frammistöðu í umhverfismálum og stýri þeim áhrifum sem starfsemin hefur á umhverfið. Fyrirtækið setur sér markmið um stöðugar umbætur til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar.
Mikilvægir umhverfisþættir í starfseminni hafa verið skilgreindir og eru vaktaðir; eldsneytisnotkun vegna aksturs og vinnutengdra flugferða, ferðir starfsmanna til og frá vinnu, rafmagnsnotkun í húsnæði og hleðslu rafmagnsbíla, vatnsnotkun, úrgangur og pappírsnotkun. Innkaupum er stýrt og markmiðið er að kaupa vistvæna vöru ef hún er í boði. Notuð eru umhverfisvæn ræstiefni og hreinlætispappír. Útgefið efni er ýmist á rafrænu formi eða prentað í umhverfisvottaðri prentsmiðju. Notaður er Svansvottaður prentpappír.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Markmið VSÓ: Að draga úr losun GHL árið 2023 miðað við 2022.

Staðan: VSÓ hefur haldið kolefnisbókhald frá árinu 2014. Stuðst er við aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol við útreikninga á kolefnisspori VSÓ á ársgrundvelli. Losun GHL miðað við CO2íg er skipt í umfang 1, 2 og 3 eftir því hvar í virðiskeðjunni losunin á sér stað. Einnig er reiknuð út heildarlosun GHL á hvert stöðugildi.

Reiknuð losun GHL (CO2íg) árið 2023 voru 56,7 tonn sem er aukning um 2,7% frá árinu 2022. Losun vegna umfangs 1 minnkaði á milli ára, úr 29% árið 2022 í 22% árið 2023. Losun vegna umfangs 3 stóð í stað.  Inni í losun vegna umfangs 3 er losun vegna vinnutengdra flugferða, ferða starfsfólks til og frá vinnu og förgunar úrgangs.  Í umfangi 3 vega ferðir starfsfólks til og frá vinnu mest. Hlutfall losunar GHL vegna þessa þáttar jókst um 24% frá árinu 2022. Losun GHL á hvert stöðugildi árið 2023 var 652 kg CO2íg en 600 kg CO2íg árið á undan.

 

Orkunotkun

Markmið VSÓ: Auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og lágmarka notkun á allri orku.

Staðan: Orkunotkun hjá VSÓ samanstendur af rafmagni, heitu vatni, jarðefnaeldsneyti og metani. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er 92% sem er 1% aukning frá árinu 2022.

Rafmagnsnotkun á hvert stöðugildi hefur minnkað frá árinu 2016, jókst nokkuð árið 2021 en en minnkaði aftur árið 2023, eða í 2.050 kWh pr. starfsmann. Rafmagnsnotkun vegna hleðslustöðva var 12% af heildarnotkun árið 2023 samanborið við 4% árið 2022 og skýrist af því að aukning hefur orðið á rafmagnsbílum í eigu VSÓ og starfsfólks á milli ára. Notkun á heitu vatni á hvern starfsmann árið 2023 var 68 m3 sem er svipað og árið á undan en nokkru minni en árið 2018 (fyrir tíma Covid) þegar notkunin var 70 m3 (4% meiri)

Notkun á jarðefnaeldsneyti í vinnutengdar ferðir (bifreiðar VSÓ og einkabílar) dróst saman um 18% milli áranna  2022 og 2023.

 

Samgöngur

Markmið VSÓ: Stuðla að vistvænum samgöngum starfsfólks til og frá vinnu. Að fjölga samgöngusamningum árið 2023 miðað við 2022 um 20%.

Staðan: VSÓ hvetur starfsfólk til að nýta sér vistvæna og heilsusamlega samgöngumáta til og frá vinnu og býður upp á samgöngusamning til þriggja, sex eða tólf mánaða. Niðurstöður ferðavenjukönnunar benda til þess að starfsfólk nýti sér vistvænan ferðamáta í auknum mæli, þó meira á sumrin en á veturna. Ferðavenjukannanir sýndu að 54% nýttu sér vistvænar samgöngur að jafnaði yfir sumartímann (maí-sept.) 2023 en um 34% yfir vetrartímann. Þessi hlutföll voru 48% sumarið og 46% veturinn 2022. Í vistvænum samgöngum felst að ganga, ferðast á hjóli/hlaupahjóli, strætó, rafmagns-, metan eða tengiltvinnbíl.

 

Úrgangur og pappír

Markmið VSÓ: Stuðla almennt að minni hráefnisnotkun og minnka úrgangsmyndun. Að hlutfall úrgangs sem fer í endurvinnslu verði yfir 70% árið 2023.  Draga úr pappírsnotkun og að notkun á A4 pappír í prentara sé undir 0,3 kössum á stöðugildi á ári.

Staðan: Árið 2023 fóru 1.090 kg af úrgangi í urðun og alls 3.945 kg í endurvinnslu vegna starfsemi VSÓ. Þar af voru 2.192 kg lífrænn úrgangur.  Hlutfall úrgangs sem fór til endurvinnslu (plast, pappír, málmar, gler og lífrænn úrgangur) var 77% árið 2023 en 64% árið 2022. Árið 2023 bættist við flokkun á gleri og málmum og árið 2022 lífrænn úrgangur úr mötuneyti.

Pappírsnotkun hefur verið svipuð síðustu árin. Þegar mælingar hófust árið 2010 var notkunin á A4 pappír 1,8 kassar á stöðugildi. Árið 2023 var notkunin 0,28 kassar á stöðugildi en 0,26 kassar árið 2022. VSÓ notar umhverfisvottaðan pappír í 90% tilvika.

Losun GHL vegna ferða
starfsfólks til og frá vinnu
[tonn CO2íg]
 • 2023 (34)
 • 2022 (27)
 • 2021 (22)
 • 2020 (24)
 • 2019 (31)
 • 2018 (33)
 • 2017 (34)

Unnið er að ýmsum verkefnum sem stuðla að minni losun GHL

Starfsfólk hefur aðgang að vinnubílum.

Starfsfólk hefur aðgang að rafmagnshjóli.

Starfsfólk getur ferðast frítt í strætó til og frá vinnu. 

Starfsfólk hefur möguleika á að vinna heima. 

Hvatt er til notkunar á vistvænum samgöngum.

Hvatt er til fjarfunda, pappírslausra viðskipta og annarra rafrænna samskipta.  

Uppruni losunar GHL
[CO2íg] árið 2023

 • Heitt vatn (2%)
 • Rafmagn (3%)
 • Vinnuferðir á einkabíl (5%)
 • Úrgangur (2%)
 • Flug (11%)
 • Farartæki VSÓ (17%)
 • Ferðir starfsfólks til og frá vinnu (59%)

VSÓ vinnur eftir jafnréttisáætlun sem kveður á um að fyllsta jafnréttis sé gætt óháð þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. VSÓ hefur innleitt sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi ásamt forvarnar- og viðbragðsáætlun í þessu sambandi. 

Félagslegir þættir

Stuðst er við UFS leiðbeiningar Nasdaq um framsetningu gagna um laun forstjóra, launamun kynja, starfsmannaveltu, kynjafjölbreytni, hlutfall tímabundinna starfskrafta, aðgerða gegna mismunun, vinnuslysatíðni, hnattræna heilsu og öryggis, barna- og nauðungarvinnu sem og mannréttindi almennt.

Öryggistjórnun í samræmi við kröfur í ISO 45001 er hluti af rekstrarkerfi VSÓ. Innan ramma þess eru ferlar sem stýra jafnréttis-, eineltis-, öryggis- og heilsumálum. Áhættumahugsun er notuð til að forgangsraða verkefnum svo unnt sé að vinna stöðugt að umbótum. Fyrirtækið vinnur eftir jafnréttisáætlun þar sem gæta skal fyllsta jafnréttis óháð þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. VSÓ hefur innleitt sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi ásamt forvarnar- og viðbragðsáætlun í þessu sambandi. VSÓ hefur þannig skuldbundið sig til að vinna í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar sem ná yfir mannréttindi. 

Jafnrétti og launahlutfall

Markmið VSÓ: Jafna stöðu kynja í ábyrgðar- og stjórnunarstöðum og greiða jöfn laun og tryggja sömu kjör fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Að ná vottun skv. jafnlaunastaðlinum ÍST 85 árið 2023. Að óútskýrður launamunur árið 2023 verði minni en 2% og að hlutfall kvenna á meðal verkefnisstjóra verði aukið miðað við 2022.

Staðan: Hlutfall kvenna hjá VSÓ var 49% árið 2023 en 46% árið 2022.  Hlutfall kvenna sem verkefnastjórar var 29% árið 2023 en 27 % árið 2022 en hlutfall kvenna sem sviðstjórar var það sama bæði árin eða 12,5%.  Sama hlutfall kvenna var í framkvæmdastjórn þessi tvö ár eða 11% og í stjórn var hlutfallið jafnt.  Óútskýrður launamunur samkvæmt jafnlaunaúttekt var 1% árið 2023 og hefur minnkað frá  árinu 2022  þegar hann var 2,1%.

Öryggi og heilsa

Markmiðin VSÓ: Starfsumhverfið sé heilsusamlegt, öruggt og stuðli að jafnrétti. Að byggja upp góða liðsheild og heilbrigða vinnustaðamenningu þar sem traust og trúnaður ríkir milli starfsfólks og stjórnenda. Að draga úr fjarvistum starfsfólks vegna veikinda 2023 miðað við 2022 og að engin fjarveruslys verði hjá starfsfólki.

Staðan: Almenn líðan, starfsánægja og vinnuálag starfsmanna er metið reglulega í könnunum og í heilsufarsskoðunum. VSÓ býður starfsfólki sínu árlega í heilsufarsviðtöl, heilsufarsmælingar og bólusetningu gegn inflúensu. Einnig hefur VSÓ hefur gert samning við utanaðkomandi aðila til að styðja við líkamlegt og andlegt heilsufar starfsfólks.

Hjá VSÓ starfar virk öryggisnefnd og í henni eru öryggistrúnaðarmenn sem eru fulltrúar starfsfólksins. Tvisvar á ári eru gerðar öryggisúttektir á vinnusvæðum í Borgartúni 20 og á öryggisbúnaði starfsfólks sem notaður er úti á verkstað. VSÓ leggur ríka áherslu á að auka þekkingu innan fyrirtækisins með sí- og endurmenntun og  fjárfestir í aðstöðu, búnaði og þjónustu sem stuðlar að vellíðan starfsfólks.

VSÓ leggur áherslu á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og er starfsfólk upplýst um möguleika sína á barneignarleyfi, sveigjanlegum vinnutíma, fjarvinnu eða einstaklingsbundnum lausnum varðandi vinnutíma.

Kynjahlutfall starfsfólks VSÓ 2023

 • Konur (49%)
 • Karlar (51%)

Samfélagsþátttaka

VSÓ sýnir samfélagslega ábyrgð með því að styðja ýmis mikilvæg málefni í nærsamfélaginu. Dæmi um nokkur slík málefni eru:

Hjálparstarf kirkjunnar

Krabbameinsfélag Íslands  – s.s. mottumars, bleika slaufan o.fl.

Kraftur – Perlað af Krafti

Samhjálp

SÁÁ

Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Team Rynkeby

Vinnustofa Skúlatúns

Code for a sustainable built environment

Stjórnarhættir eiga við um kynjahlutfall í stjórn, óhæði stjórnar, kaupauka, kjarasamninga, siðareglur birgja, siðferði og aðgerðir gegn spillingu, persónuvernd, sjálfbærniskýrslur, starfsvenjur við upplýsingagjöf ásamt því að gögn séu tekin út og sannreynd af ytri aðila.

Stjórnarhættir

Stuðst er við UFS leiðbeiningar Nasdaq um framsetningu gagna varðandi stjórn og stjórnarhætti, óhæði stjórnar, kaupauka, kjarasamninga, siðareglur birgja, siðferði og aðgerðir gegn spillingu, persónuvernd, sjálfbærniskýrslur og starfsvenjur við upplýsingagjöf.

Í stjórn eru sex manns, þrjár konur og þrír karlar. Áhersla er lögð á að breidd starfsfólks endurspeglist í stjórn, bæði hvað varðar kyn og aldur.

Ábyrgir stjórnarhættir

Markmið VSÓ: Tryggja ábyrga stjórnarhætti sem sýna að fyrirtækið axli ábyrgð á verkum sínum. Einnig að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu sem skilar þeim raunverulegum árangri. 

Staðan: Við tileinkum okkur góða stjórnarhætti þar sem alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á því sviði er fylgt. Verklag einkennist af góðu viðskiptasiðferði, heilbrigðum viðskiptaháttum og ábyrgð. Við leggjum áherslu á að nýta fjármagn með hagkvæmum hætti og styðjum við samfélagsleg málefni, mannréttinda- og góðgerðarmál.

Fyrirtækið hefur verið á lista Credit info yfir framúrskarandi fyrirtæki árlega frá árinu 2014 og fyrirmyndar fyrirtæki í rekstri árlega frá 2017.

VSÓ á fulltrúa í stjórn Félags ráðgjafaverkfræðinga og leggur þannig sitt lóð á vogarskálarnar um að stuðla að eðlilegu samkeppnisumhverfi og að verkfræðivinna styðji við jákvæðan hagvöxt og góða innviði samfélagsins. Starfsfólk VSÓ kennir ýmsar greinar í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og hjá Iðunni, fræðslusetri.

Persónuvernd

Markmið VSÓ: Að þeir einstaklingar, þ.e. starfsfólk, viðskiptavinir eða aðrir, sem er verið að safna upplýsingum um séu upplýstir um hvernig fyrirtækið safnar og vinnur persónuupplýsingar.

Staðan: VSÓ er umhugað um persónuvernd og gagnaöryggi og því hefur fyrirtækið sett sér stefnu um persónuvernd. Markmið stefnunnar er að tryggja að VSÓ vinni aðeins með persónuupplýsingar að uppfylltum skilyrðum persónuverndarlaga og að gripið sé til nauðsynlegra öryggisráðstafana þegar við á. Í stefnunni kemur fram að aðeins nauðsynlegar upplýsingar eru meðhöndlaðar til að uppfylla samnings- og kjarasamningsbundnar skuldbindingar og uppfylla skyldur t.d. samkvæmt bókhaldslögum.

Lykilatriði um stjórnarhætti

Að viðskiptavinurinn sé ánægður.

Gagnsæi.

Hugað sé að hagsmunaaðilium.

Lög og reglur uppfylltar.

Viðmið VSÓ við mat á birgjum
og þjónustuaðilum

Geta til að útvega vöru/þjónustu
á tryggan hátt.

Verð á vöru og þjónustu.

Fyrri verkefni undirverktaka og þjónustuaðila.

Reynsla VSÓ af samstarfi við undirverktaka og þjónustuaðila.

Fagmennska.

Skjalfest gæðakerfi, verklag eða ferli sem unnið er eftir.

Umhverfisstjórnun, verklag eða ferli sem unnið er eftir.

Skipulagt vinnuverndarstarf.

Umhverfi-Samfélag-Efnahagur

VSÓ Ráðgjöf býður vistvænar og hagkvæmar lausnir sem stuðla að framförum og sjálfbærri þróun. Áhersla er lögð á alla þrjá þætti sjálfbærni í verkefnum þ.e. umhverfi, samfélag og efnahag.

Græna leiðin að sjálfbærri framtíð

Græna leiðin er að festa sig í sessi í starfsemi VSÓ, bæði innan fyrirtækisins og í þjónustu við viðskiptavini. Á árinu 2023 voru áherslur Grænu leiðarinnar rýndar og mótaðar enn frekar í ljósi nýrrar sjálfbærnistefnu VSÓ. Leiðarljós Grænu leiðarinnar er: Sjálfbær þróun er grunnur að velferð og lífsgæðum.

Ellefu þjónustuþættir hafa verið skilgreindir undir Grænu leiðinni, greiningum og ráðgjöf á sviði sjálfbærni og hringrásarlausna. Markmiðið er að stuðla að sjálfbærni á sviði umhverfis, samfélags og efnahags; draga úr umhverfisáhrifum og úrgangsmyndun, hámarka auðlindanýtingu og benda á hagkvæmar lausnir sem stuðla að góðri lýðheilsu og bættu samfélagi. Lögð er áhersla á að öll verkefni skili framförum og raunverulegum árangri svo sem í:

 • Lægra kolefnisspori.
 • Minni úrgangi.
 • Bættri auðlindanýtingu.
 • Betri orkunýtingu.
 • Lægri líftímakostnaði.
 • Bættri aðstöðu.
 • Sjálfbærri byggðaþróun.

 

Virk þátttaka í vegferð að sjálfbærni

Unnið var með markvissum hætti að innleiðingu sjálfbærnistefnu VSÓ. Í sjálfbærniviku í október var stefnan kynnt starfsfólki, haldin kynning á markmiðum og áherslum Grænu leiðarinnar auk kynninga á árangursríkum verkefnum sem falla undir Grænu leiðina.

VSÓ tók virkan þátt í starfi Festu, miðstöðvar um sjálfbærni, og Grænni byggð á árinu sem og í öðrum faghópum tæknigreina þar sem sjálfbærni ber á góma.

Sérfræðingar VSÓ eiga sæti í starfshópum á vegum HMS og innviðaráðu­neytis sem hafa það hlutverk að endurskoða afmörkuð svið í byggingar­reglugerð. Um er að ræða starfshóp um lífsferilsgreiningar, hringrásarhag­kerfið og byggingarvörur og orkusparnað og rekstur. Þessi endurskoðun á byggingarreglugerð er sprottin úr vinnu mannvirkjageirans sem fjallað er um í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð.

Greinargerð um samræmda aðferðafræði lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar er afrakstur vinnu hópsins um lífsferilsgreiningar og hefur hún verið birt í samráðsgátt stjórnvalda ásamt drögum um breytingu á byggingar­reglugerð sem felur í sér innleiðingu ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja. Verið er að vinna að gerð samræmdrar aðferðafræði við orkuútreikninga mannvirkja og útgáfu viðmiða fyrir orkuflokka bygginga.

Starfsfólk VSÓ flutti einnig erindi á ýmsum ráðstefnum árið 2023 s.s. um hringrásarhagkerfi í byggingargeiranum og orkunýtingu.

Einn hluti af innleiðingu sjálfbærnistefnunnar í starfsemina fólst í því að eiga fundi með viðskiptavinum með það að markmiði að auka vitund viðskiptavina um tækifæri og áskoranir tengdar loftslagsvá og sjálfbærni og ræða hvernig VSÓ getur þjónustað viðskiptavini enn betur að þessu leyti.

Nánari upplýsingar um Grænu leiðina