03. mars 2023

Styrkir úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar

Nýverið var úthlutað styrkjum úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og hlutu sjö verkefni frá VSÓ styrk úr sjóðnum. Verkefnin snúa m.a. að umferðarljósastýringum, greiningu á ferðavenjum og endurbótum á hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar. VSÓ hefur á undanförnum árum unnið fjölmörg rannsóknarverkefni í samvinnu við Vegagerðina sem hafa gefið áhugaverðar niðurstöður. VSÓ Ráðgjöf þakkar rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar kærlega fyrir styrkveitingarnar.

Hér fyrir neðan má fræðast nánar um þau verkefni sem hlutu styrk.

Slys á gatnamótum - Samband slysatíðni, alvarleika slysa og umferðarhraða

Tilgangur verkefnisins er að rannsaka áhrif umferðarhraða á slysatíðni og hlutfall slysa með meiðslum á gatnamótum. Einnig verður samband slysatíðni og hlutfall slysa með meiðslum skoðað enn frekar. Markmiðið er að sannreyna þetta samband og útskýra það með mældum umferðarhraða. Í erlendum rannsóknum hafa gatnamót í plani með uppsettum hraðamyndavélum þótt koma betur út heldur en gatnamót sem eru mislæg að hluta þegar umferðaröryggi er skoðað. Því er mikilvægt að taka umferðahraða með í greiningar á umferðaröryggi.

Rannsóknin frá 2018 gaf vísbendingu um að slysatíðni sé talsvert lægri á mislægum gatnamótun en á plangatnamótum en hins vegar væru meiri líkur á að meiðsli verði í slysum á mislægum gatnamótum. Fyrirvari var þó gerður við að gagnasafnið var það lítið að niðurstöður væru aðeins vísbending. Nefnt var að æskilegt væri að endurtaka rannsóknina, með betri gögnum, að nokkrum árum liðnum til að athuga hvort niðurstöðurnar standist eða hvort aðrar breytur en hraði hafi meiri áhrif á slysatíðni og alvarleika slysa.

Ferðavenjur íbúa höfuðborgarsvæðisins

Ferðavenjukannanir gefa gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir öll þau sem starfa að skipulags- og samgöngumálum og gera það kleift að hægt sé að fylgjast með þróun og breytingum á hegðunarmynstri. Þannig gefa ferðavenjukannanir mikilvægar grunnforsendur fyrir spálíkön. Mikilvægi þeirra eykst svo enn frekar þegar reynt er að spá fyrir um breytingar á ferðamáta og áhrif þeirra á framtíðarumferð.

Gerðar hafa verið sex stórar ferðavenjukannanir á höfuðborgarsvæðinu; árin 2002, 2011, 2014, 2017, 2019 og 2022. Nýjasta ferðavenjukönnun var framkvæmd haustið 2022 og birting á niðurstöðum væntanleg á vormánuðum 2023. Þessar kannanir hafa skilað áþekkum niðurstöðum hvað varðar ferðir á einstakling en t.d. sýnir könnunin frá 2019 að eldri borgarar fara færri ferðir nú en þeir gerðu í fyrri könnunum.

Markmið þessa verkefnis er að bera saman niðurstöður ferðavenjukönnunar árið 2022 við fyrri ár, en VSÓ hefur áður gert sambærilegan samanburð (https://www.vso.is/ferdir-a-einstakling-ferdavenjukonnun/)

Slökkt á umferðarljósum

Á höfuðborgarsvæðinu eru um 150 umferðarljós að finna við gatnamót. Árið 1949 voru fyrstu umferðarljósin tekin í notkun á Íslandi (Þegar umferðarljósin komu til Íslands | bilaskra.is | bilaskra.is) og hefur þeim fjölgað nokkuð stöðugt síðan. Stundum eftir að umferðarljós hafa staðið í einhvern tíma er svo komist að þeirri niðurstöðu að best sé að taka þau niður. Til dæmis gleymist oft að Laugavegur – Skólavörðuholt voru eitt sinn ljósastýrð gatnamót. Hér er leitast við að svara því hvenær umferðarljós eiga við og hvenær þau eiga ekki við.

Litið verður til Hollands varðandi lausnir við að fjarlægja umferðarljós á gatnamótum.  Þar í landi, nánar tiltekið í Amsterdam, var ákveðið að fjarlægja umferðarljós og átti það í byrjun einungis að vera tilraunarverkefni og standa yfir í tvær vikur en er nú varanlegt ástand vegna bættra aðstæðna. Skoðað verður hvað virkaði vel þar og hvernig og hvort hægt er að yfirfæra það yfir á íslenskar aðstæður.

Hjólalausnir við gatnamót – Uppfærsla á hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar

Hönnun á hjólastígum hefur verið í mikilli þróun síðustu ár. Vegagerðin gaf út hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar árið 2019 sem þarfnast endurbóta m.t.t. aðstæðna við gatnamót. Verkefnið afmarkast því við þann hluta hjólastígahönnunar sem snýr að því að leiða hjólandi gegnum gatnamót, hvort sem um er að ræða gatnamót með eða án ljósastýringar, krossgatnamót, T-gatnamót eða hringtorg.

Markmið verkefnisins er að útbúa leiðbeinandi viðmið fyrir hjólalausnir fyrir vega- og gatnamót sem hægt er að styðjast við á hönnunarstigi framkvæmda. Slík leiðbeinandi viðmið munu stuðla að samræmdri hönnun, draga úr hættu sem skapast við vega- og gatnamót þar sem hjólandi umferð er og bæta þar með umferðaröryggi.

Eru áherslur mótvægisáhrifa í samræmi við vænt áhrif umhverfismats?

Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er mótvægisaðgerðum ætlað að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar. Í rannsókn sem gerð var 2019 um eftirfylgni mótvægisaðgerða viðruðu viðmælendur hjá fagstofnunum áhyggjur um að ákveðins samhengisleysis gæti milli þeirra mótvægisaðgerða sem lagðar eru fram og væntra umhverfisáhrifa framkvæmda. Eðlilegt væri að megin áhersla væri lögð á að koma í veg fyrir og draga úr áhrifum af þeim þáttum sem eru taldar leiða til mestu umhverfisáhrifanna og svo koll af kolli. Ef mótvægisaðgerðum er ekki beint að veigamestu umhverfisáhrifum má segja að það skorti samhengi við megin niðurstöður umhverfismats.

Verkefnið snýr að því að skoða hverjar áherslur mótvægisaðgerða hafa verið í umhverfismatsskýrslum fyrir innviðaframkvæmdir (vegi og raflínur) á tímabillinu 2006-2022. Markmiðið er sjá hvort með mótvægisaðgerðum sé raunverulega verið að leitast eftir því að koma í veg fyrir og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmda og hvort þeim sé beint að umfangsmestu umhverfisáhrifunum.

Actibumb - Reynsla af gagnvirkri hraðahindrun

Skoða hvernig virkni og reynslu af nýrri gagnvirkri hraðahindrun(Actibump) í Ólafsvík. Gagnvirkar hraðahindranir eru kerfi sem virka á þann veg að hleri fellur niður um nokkra sentímetra ef ökutæki er ekið of hratt miðað við leyfilegan hámarkshraða götunnar. Búnaðurinn virkar þannig að skynjari, yfirleitt radarmælir, mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina sé ökutæki ekið of hratt. Þegar hraðahindrunin er virkjuð fellur hleri, sem búið er að koma fyrir í yfirborði vegarins, niður um nokkra sentímetra, við það fá ökumenn áminningu um að ekið sé of hratt.

Skoðuð verða eldri gögn um aksturshraða á svæðinu áður en hraðahindrunin var sett upp og borin saman við núverandi aksturshraða eftir að hún var sett upp. Einnig er fyrirhugað að skoða hegðun ökumanna og gangandi á svæðinu í dag og setja í myndgreiningu og kortleggja hvernig fólk hegðar sér yfir hraðahindrunina og kortleggja t.d „nætum því slys“

Markmið verkefnisins er að skoða reynslu og virkni nýju gagnvirku hraðahindrunarinnar í Ólafsvík og hvort hún sýni fram á að rétt sé að stefna á fleiri gagnvirkar hraðahindranir.

Endurskoðun EC7, jarðtæknihönnun

Um er að ræða áframhaldandi vinnu við endurskoðun á jarðtæknistaðlinum, Eurocode 7 ásamt íslenskum þjóðarviðaukum, sem stendur nú yfir en verkefni þetta hefur verið í gangi frá árinu 2010 svo í þessu tilviki er um langtímaverkefni að ræða. Eurocode 7 hefur verið tekinn upp hérlendis sem og á hinum Norðurlöndunum og gildir um alla jarðtæknilega hönnun og rannsóknir. Norrænu jarðtæknifélögin hafa stofnað „spegilnefnd“ um verkefnið og taka virkan þátt í endurskoðuninni sem einn hópur. Íslendingar eiga 3 fulltrúa í spegilnefndinni og er þar aðalfulltrúi Íslands starfandi hjá VSÓ Ráðgjöf.

Tilgangur verkefnisins er að hafa rödd þegar drög að uppfærðum þolhönnunarstaðli á sviði jarðtæknihönnunar – Eurocode 7 (EC7) – eru mótuð og gæta hagsmuna Íslands og þar á meðal Vegagerðarinnar; einnig að notendur EC7 og aðrir hagsmunaaðilar verði upplýstir um breytingarnar sem verða með nýrri útgáfu enda verða þær umtalsverðar m.a. í ljósi tæknibreytinga en einnig viðhorfsbreytinga og áhrifa loftslagsbreytinga.