14. nóvember 2022

Ferðir á einstakling – Greining á ferðavenjum

VSÓ Ráðgjöf vann nýverið verkefni fyrir Rannsóknarsjóð Vegagerðarinnar að nafni Ferðir á einstakling – Ferðavenjukönnun 2019.

Rannsóknin er framhald af fyrri rannsókn þar sem meginmarkmiðið er að bera saman ferðavenjukönnun 2019 við ferðavenjukannanir frá árunum 2011, 2014 og 2017 fyrir höfuðborgarsvæðið.

Sá hópur sem fer flestar ferðir eru einstaklingar 17 ára og yngri sem kemur á óvart þar sem þau hafa ekki bílpróf og því ekki aðgengi að bíl. Einstaklingar með bílpróf og bíl til umráða fara næst flestar ferðir og einstaklingar eldri en 17 ára sem hafa ekki bílpróf fara fæstar ferðir. Því hefur tilvist bílprófs greinilega mikil áhrif á ferðavenjur fólks.

Atvinnuþátttaka er hæst á Íslandi meðal vinnufærs fólks í OECD ríkjum. Þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku er ekki mikill munur á ferðadreifingu fólks sem er í vinnu og ekki, þó meðalfjöldi ferða einstaklinga sem eru atvinnulausir sé lægra. Það hefur því ekki afgerandi áhrif á ferðavenjur fólks að vera ekki í vinnu þar sem sá hópur ferðast mikið.

Þeim sem fara enga ferð yfir daginn hefur fjölgað um 19% frá árinu 2017 til ársins 2019 og var um 8% þátttakenda árið 2019. Þegar mengið er brotið niður á milli aldursbila sést að aldurshópurinn 60+ sem fer enga ferð hefur aukist. Þetta gefur til kynna að það sé fjölgun einstaklinga eldri en 60 ára sem fara enga ferð yfir daginn og vert er að athuga frekar hvað veldur þessu.

Flestar ferðir einstaklinga voru á bilinu 5-10 mínútur og einungis um 5% ferða voru lengri en 30 mínútur. Algengasti tilgangur ferðar var að „fara í vinnu“ og „fara heim (annað)“ sem eru ferðir heim úr afþreyingu, tómstundum o.þ.h. Meðaltími ferða heim úr vinnu var hæstur sem er líklegast vegna þess að þessar ferðir eru farnar á annatíma sem lengir þ.a.l. tímann. Þessar ferðir eru hins vegar einungis 10% af öllum ferðum.

Ferðir á einstakling – Ferðavenjukönnun 2019

 


Nánari upplýsingar veitir:

Herdís Birna Hjaltalín​
Umhverfis- og byggingarverkfræði BSc.
herdisb@vso.is s: 585 9194