29. mars 2022

Styrkir úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar

Nýverið var úthlutað styrkjum úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og hlutu sjö verkefni frá VSÓ styrk úr sjóðnum. Verkefnin snúa m.a. að umferðarljósastýringum, greiningu á ferðavenjum, endurbótum á stoppistöðvum almenningsvagna á landsbyggðinni og áframhaldandi þróun á samgöngulíkani höfuðborgarsvæðisins. VSÓ hefur á undanförnum árum unnið fjölmörg rannsóknarverkefni í samvinnu við Vegagerðina sem hafa gefið áhugaverðar niðurstöður. Starfsfólk VSÓ þakkar rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar kærlega fyrir styrkveitingarnar.

Hér fyrir neðan má fræðast nánar um þau verkefni sem hlutu styrk.

Áhrif á öryggi gangandi vegfarenda vegna "AllGreen" umferðarljósafasa

Framhaldsverkefni verkefnisins „Fyrir/Eftir greining á umferðaröryggi við gatnamót á Seljaarnarnesi.“
Unnið í samstarfi við Vegagerðina og Seltjarnarnesbæ.

Umferðarljósum var skipt út við gatnamót Suðurstrandar/Nesvegar haustið 2021. Eftir breytingu eru umferðarljósin með „AllGreen“ ljósafasa og tilgangurinn með þeirri framkvæmd að auka umferðaröryggi gangandi vegfarenda. Ljósin voru áður með grænt gönguljós samhliða akstursstefnu.

Hér er því gott tækifæri til að afla gagna um ástand fyrir og eftir breytingu til að meta áhrif framkvæmdarinnar á umferðaröryggi. Aðferðarfræðin snýst um að taka upp myndefni við gatnamótin gatnamótin og nota nýstárlega myndgreiningartækni til að meta fjölda hættulegra atburða („næstum-því-slysa“) sem koma að öðru leiti ekki fram í hefðbundinni slysatölfræði.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að leggja tölfræðilegt mat á áhrif „AllGreen“ ljósafasa. Ný myndgreiningartækni verður notuð til að öryggisgreina gatamótin Suðurströnd/Nesvegur fyrir og eftir upptöku „AllGreen“ fasa sem svo verður sett í samhengi við það sem hefur verið rannsakað erlendis og slysagreiningu gönguljósa á Íslandi.

Úttekt á ræsipunktakerfi neyðarbíla höfuðborgarsvæðisins

Unnið í samstarfi við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðina og Reykjavíkurborg.

Gerð verður úttekt á ræsipunktum fyrir forgangsakstur neyðarbíla gegnum ljósastýrð gatnamót á höfuðborgarsvæðinu.

Neyðarbílum er jafnan veitt forgangur gegnum ljósastýrð gatnamót á höfuðborgarsvæðinu. Kerfið virkar þannig að um borð í bílunum er tölva sem gefur GPS-staðsetningu bílsins og í hvert skipti sem bíllinn fer yfir ræsipunkt (e. Registration point) þá virkjast forrit á næstu umferðarljósum sem gefur grænt fyrir þá stefnu sem neyðarbíllinn er að keyra eftir og rautt á allar aðrar stefnur.

Kerfið hefur nú verið virkt í nokkur ár en ekki við öll ljósastýrð gatnamót. Fyrir bílstjóra neyðarbílanna mætti vera gegnsærra hvar punktarnir eru, hvar þeir mega búast við fá grænt ljós og ef til vill rauntímastöðu þeirra. Víða er einnig eldri týpa ljósastýringa í notkun þar sem ekki er hægt að gefa forgang með þessum hætti án þess að skipta út stýrikössum.

Rætt verður við notendur kerfisins og athugað hvað hefur gengið vel og hvar helstu áskoranir liggja. Einnig verða nýtt gögn frá tölvunum um borð í bílunum til að athuga hversu vel kerfið bregst við þegar kallað er á neyðarforgang og hversu vel ræsipunktar eru staðsettir. Dæmi eru t.d. um að neyðarbílar lendi í umferðarteppum áður en komið er að ræsipunkti og þá tapast dýrmætur viðbragðstími. Einnig verða blindir punktar kerfisins kortlagt og skoðað hvar mest liggur á að uppfæra stýrikassa svo hægt sé að tengja ljós við ræsipunktakerfið.

Hönnunarleiðbeiningar fyrir umferðarljósastýringar

Unnið í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg.

Gerð verða drög að hönnunarleiðbeiningum fyrir umferðarljósastýringar. Tekin verða saman helstu atriði sem hafa ber í huga við hönnun umferðarljósastýringa og farið í gegnum ferlið skref fyrir skref.
Marmið verkefnisins er að auka skilning á helstu undirstöðuatriðum ljósastýringa með hagnýtri nálgun, t.d.:

  • Hvaða áhrif geómetrísk hönnun hefur á rýmingartíma og þar með afkastagetu gatnamóta.
  • Skilgreiningar ljósahópa og nafnakerfi .
  • Ljósafasar, fasaskiptingar og lógík.
  • Útreikningar rýmingartíma og milligræntíma fyrir mismunandi ferðamáta og samspil þeirra á milli.
  • Umferðarstýrð ljós eða fastlotukerfi.
  • Skynjarar og notkun þeirra.
  • Forgangur strætó og neyðarbíla.
  • Samtenging ljósa, grænbylgja.
  •  

Skortur er á íslenskum staðli og íslensku efni almennt um hvernig ljósastýringar eru hugsaðar. Þekkingin er á fárra höndum og erfitt fyrir nýtt fólk að koma sér inn í fagið. Nauðsynlegt er að festa í sessi þessa undirstöðuþekkingu svo hönnuðir, Vegagerðin og sveitarfélög geti einbeitt sér að hermun og bestun til að ná sem mestum afköstum úr því kerfi sem fyrir er.

Í takt við áherslur rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar þetta árið mun afurð verkefnisins, Hönnunarleiðbeiningar fyrir umferðarljósastýringar, styrkja þá undirstöðuþekkingu sem hönnuðir og eigendur kerfisins þurfa að hafa til að snjallvæða vegakerfið.

Leiðbeiningarnar munu ekki einungis nýtast þeim sem vinna í umferðartækni og hermunarlíkönum. Þær munu einnig hjálpa veghönnuðum að átta sig t.d. á samspili geómetríu og rýmingartíma, beygjuradíusum, breidd miðeyja og akreina, fjarlægð hjólastíga og gönguþverana frá gatnamótum, hvort nota eigi hægri beygju framhjáhlaup eða ekki o.fl. Þetta eru allt breytur sem hafa áhrif. Vel hönnuð ljósastýrð gatnamót ættu að vera hönnuð með ljósastýringu í huga frá upphafi, með upplifun allra vegfarenda í huga.

Greining á áhrifum gjaldtöku á breyttar ferðavenjur í samgöngulíkan höfuðborgarsvæðisins

Vegagerðin og SSH hafa látið þróa nýtt samgöngulíkan (Samgöngulíkan Höfuðborgarsvæðisins, hér eftir SLH) sem kalla mætti fjölferðamáta (e. multimodal).

Hér er á ferðinni verkefni sem er unnið með það fyrir augum að nota líkanið til að sýna eigendum hvaða aðgerðir og ákvarðanir geta skilað þeim árangri svo markmið um breyttar ferðavenjur náist. Lagt er upp með að framtíðarsviðsmynd, í samræmi við skipulagsáform svæðisskipulags (samgöngumiðuð þéttingarsvæði og samgönguframkvæmdir), verði framkvæmd sem grunnspá og gerðar fráviksspár sem skoða áhrif mismundandi gjaldtöku og/eða breytinga á samgönguframkvæmdir.

Horft verður fyrst fremst til bílastæðakostnaðar og/eða þrengslagjalda frekar en tafakostnaðar (e. Manage by cost rather than manage by delay).

Tilgangurinn er að nota líkanið t.d. til þess að svara því hvort hækkun á bílastæðagjöldum eða útvíkkun á gjaldskyldum svæðum hafi veruleg áhrif á ferðamátaval og hversu umfangsmiklar slíkar gjaldstökur þurfa að vera til að mæta markmiðum um breyttar ferðavenjur. Jafnframt að athuga hvort slíkar gjaldtökur séu nægjanlegar eða hvort endurskoða þurfi þær framkvæmdir sem eru á áætlun samkvæmt svæðisskipulagi. Líkanið verði þannig notað til að leggja mat á samspil hvata og gjalda og gefa sveitarfélögum innsýn í þau stefnumótunartól sem geta haft áhrif á ferðamátaval. Verkefnið mun einnig draga fram ákveðin mikilvæg inntaksgildi í SLH sem nauðsynlegt er að endurskoða eða rannsaka nánar.

Tilgangur þessa verkefnis er einnig að þróa hið nýja líkan SLH enn frekar. Hér verður því virkni líkansins skoðuð og sannreynt hvernig megi nýta það til að leggja mat á samspil gjalda og hvata. Verkefnið er því einnig hugsað sem mikilvægur hluti af áframhaldandi þróun SLH líkansins.

Greining á breytingum í ferðavenjum íbúa höfuðborgarsvæðisins

Markmið verkefnisins er að renna styrkari stoðum undir þær ályktanir sem dregnar voru af rannsóknarverkefni frá 2019 um ferðavenjur einstaklinga. Þar með mun liggja fyrir uppfærð íslensk rannsókn á tengslum mismunandi aðstæðna og ferðafjölda sem getur nýst Vegagerðinni og sveitarfélögum, sem og öllum öðrum sem starfa að skipulags- og samgöngumálum, við áætlanir og ákvarðanir sem hafa áhrif á ferðavenjur.

Mikilvægt er að þær kannanir sem gerðar eru nýtist sem best og mun þessi athugun auka notagildi ferðavenjukannana og gera allar spár og spálíkön sem byggja á breyttum ferðavenjum áreiðanlegri og trúverðugri.

Endurbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni

Markmiðið með verkefninu er að vinna frumhönnun á endurbótum nokkurra stoppistöðva landsbyggðinni þannig að allir, óháð hreyfigetu, geti notað þær. Valdar verða stoppistöðvar út frá fyrri úttekt sem unnin var árið 2021 (Ástand stoppistöðva á landsvísu) og gögnum frá Strætó um hvar innstiginn eru flest frá 2018.

Að verkefninu loknu mun liggja fyrir frumhönnun fyrir vinsælustu og óheppilegustu stoppistöðvar almenningssamgangna, teikningar sem Vegagerðin getur nýtt til áframhaldandi vinnu. Verkefnið stuðlar einnig að því að staðið sé við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar segir í 20. gr. að aðildarríkin skuli gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum.

Markmið verkefnisins er að auka upplýsingaflæði milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga í landinu um nauðsynlegar úrbætur á stoppistöðvum almenningssamgangna, úrbætur sem kannski hefðu ekki komist á „radar“ sveitarfélaga, sem bera ábyrgð á aðkomu strætisvagna. Verkefnið getur einnig nýst til að skapa upplýstari umræðu um ástandið á stoppistöðvum almenningssamgangna á landsbyggðinni.

Frágangur rafskúta í borgarlandi

Verkefnið er að nokkru leyti framhald af verkefninu Rafskútur og umferðaröryggi sem unnið var á síðasta ári.

Reynsla frá öðrum löndum sýnir að ein áhrifaríkasta leiðin til að taka á því hvernig gengið er frá rafskútum í borgarlandinu að búa til skýrt afmörkuð svæði þar sem leyfilegt er að leggja rafskútum. Þetta getur verið sérstaklega árangursríkt á svæðum þar sem notkun rafskúta er mikil s.s. í miðborgum og við samgöngumiðstöðvar.

Í verkefninu er ætlunin að einblína á hvernig fólk eigi að leggja í „skútustæði“ m.a. með því að skoða erlendar fyrirmyndir um mikilvægustu atriðin þegar kemur að skútustæðum:

  • Er leyfilegt að leggja utan skútustæðanna.
  • Hverjir eru kostir og gallar skútustæða.
  • Eru eigendur rafskúta einnig notendur skútustæða.
  • Hver á að bera kostnað af skútustæðum.
  • Hvað eru mikilvægustu atriðin að hafa í huga varðandi val á staðsetningum skútustæða.
  • Hvað er gert til að stýra því að skútum sé lagt í viðeigandi skútustæði.