8. nóvember 2021

Ástand stoppistöðva á landsvísu

Skýrslan „Ástand stoppistöðva á landsvísu“ var gefin út á dögunum, en hún er afrakstur rannsóknar VSÓ Ráðgjafar í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands.
Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta ástand stoppistöðva almenningssamgangna á Íslandi og miðaðist hún að ferðum Strætó bs. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2024 muni 90% stoppistöðva almenningssamgangna standast hönnunar- og öryggiskröfur, en ekki er vitað hver staðan er í dag. Markmiðin fela m.a. í sér greiðar og öruggar almenningssamgöngur fyrir alla. Stjórnvöld ætla að leita leiða til að tryggja jafnt aðgengi fatlaðra, hreyfihamlaðra og ófatlaðra einstaklinga að almenningssamöngum milli byggða.

Skoðuð voru stopp á leiðum 51, 55, 56 og 57, en það eru leiðir Strætó bs. sem hafa upphafspunkt í Reykjavík og aka að Keflavíkurflugvelli, Höfn í Hornarfirði og til Akureyrar og þaðan til Egilsstaða.
Niðurstöður greiningarinnar geta sveitarfélög og/eða veghaldarar notað til að tryggja að markmið stjórnvalda náist í áframhaldandi vinnu. Til að mynda við gerð aðgerðaráætlunar og kostnaðaráætlunar og til að skapa upplýstari umræðu um ástandið.

Helstu niðurstöður þurfa ekki að koma á óvart, en ástand stoppistöðva á landsbyggðinni er heldur dræmt. Flestar stöðvarnar hafa mjög lélegt yfirborð og aðgengi. Niðurstöðurnar má finna í skýrslu hér að neðan og einnig má sjá upplýsingar á vefsjá sem unnin var í sambandi við verkefnið:
https://obi-bidstodvar.netlify.app/

Vert er að hafa í huga að fatlaðir einstaklingar hafa mismikla fötlun. Þó stöð sé hér gefin upp sem mögulegt stopp fatlaðra ferðamanna, þá getur raunin verið önnur. Því hvetjum við notendur að kynna sér málin vel áður en lagt er af stað í langferðir.

Ástand stoppistöðva á landsvísu – skýrsla.


Nánari upplýsingar veitir:

Ragnar Þór Þrastarson 
Iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur M.Sc.
ragnar@vso.is
s: 585 9208