07. desember 2022

Lagning rafskúta í borgarlandi

Skýrslan „Rafskútur og umferðaröryggi“  var gefin út á dögunum en um er að ræða afrakstur rannsóknar VSÓ Ráðgjafar sem var styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að skoða erlenda reynslu af frágangi rafskúta í borgarlandi, en fjöldi rafskúta í útleigu innan höfuðborgarsvæðisins hefur tvöfaldast undanfarið ár og er nú að nálgast 4.000 eintök. Meðfram aukningunni hefur Reykjavíkurborg látið útbúa fimm skútustæði og bíður rafskútuleigan Hopp upp á stensla fyrir skútustæði við verslanir og fjölbýlishús.

Ýmsar reglur hafa litið dagsins ljós hvað varðar frágang rafskúta, helst um hvar og hvernig megi leggja rafskútum. Þar á meðal má helst nefna uppsetningu á sérlegum skútustæðum, en það eru afmörkuð svæði þar sem leggja má rafskútum.

Margar borgir hafa farið þá leið að einungis megi leggja rafskútum í þar til gerð skútustæði, t.d. París og Kaupmannahöfn. Í París hefur m.a. bílastæðum út um alla borg verið breytt í skútustæði. Borgir í Svíðþjóð, t.d. Gautaborg, hafa hins vegar farið þá leið að skútustæði skulu notuð þar sem byggð er þéttust, en eftir að þéttleikinn minnkar, má leggja skútum þar sem þær eru ekki fyrir öðrum vegfarendum.

Aðrar leiðir til þess að tryggja að rafskútum sé vel lagt hafa einnig verið nýttar eins og t.d. í Noregi þar sem leggja má rafskútum hvar sem er, svo lengi sem þær hindra ekki aðgengi annarra, en komi til þess að rafskúta hindri aðgengi er hægt að sekta eiganda skútunnar fyrir athæfið.

Rannsóknir frá Norðurlöndunum, Bandaríkjunum og París hafa sýnt að notendur rafskúta vilji leggja rafskútum á þann veg að þær hindri ekki aðgengi annara ásamt því að þegar skútustæði eru í boði leggi um 2/3 notenda rafskútunum þar. Eru það helst aðrir vegfarendur sem færa og/eða velta rafskútum um koll heldur en notendurnir sjálfir. Þá hefur einnig verið sýnt fram á að rafskútur séu ekki þau farartæki sem mest hindra aðgengi virkra ferðamáta.

 

Rafskútur í borgarlandi, rannsóknarskýrsla.

 

Áður hefur VSÓ Ráðgjöf rannsakað hvaða áhrif rafskútur hafa á umferðaröryggi, sjá skýrsluna Rafskútur og umferðaröryggi, sem og útbúið veggspjald um helstu reglur sem gilda fyrir rafskútur.


Nánari upplýsingar veitir:

Ragnar Þór Þrastarson 
Iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur M.Sc.
ragnar@vso.is
s: 585 9208