Ný brú yfir Stóru-Laxá

Ný vegbrú yfir Stóru-Laxá, á mörkum Hrunamannarhepps og Skeiða- og Gnúpverjarhepps, var formlega tekin í notkun 13. júlí 2023.

Um er að ræða tvíbreiða, staðsteypta, eftirspennta bitabrú í fjórum höfum. Nýja brúin er byggð við hlið einbreiðrar eldri brúar sem fyrirhugað er að standi áfram og öðlist nýtt hlutverk sem göngu- og reiðbrú yfir Stóru-Laxá. Ásamt byggingu sjálfrar brúarinnar felst í verkinu gerð nýs vegkafla Skeiða- og Hrunamannavegar beggja vegna brúarinnar, breikkun T-gatnamóta við Skarðsveg og við Auðholtsveg og gerð reiðstígs. Heildarlengd vegkafla er rúmlega 1.000 m og reiðstígs um 300 m.

Takast þurfti á við ýmsar áskoranir við byggingu brúarinnar.  Ein af þeim var að í janúar 2023, þegar bygging brúarinnar stóð sem hæst, ruddi áin sig með miklum krafti en í Stóru-Laxá geta komið stór krapaflóð í leysingum. Þegar ljóst var að þessar veðuraðstæður væru að skapast þurfti að bregðast skjótt við, til að bjarga ófullgerðri brúnni, með því að rjúfa aðliggjandi veg og beina þannig ánni í annan farveg.

Önnur áskorun var sú að brúardekkið, sem er 145 m langt, var steypt í einu lagi og að auki um hávetur, einungis fáeinum dögum eftir að flóðinu lauk.  Af þeim sökum var plastklæddur skáli byggður yfir alla brúna svo hægt væri að halda 10 gráðu hita á brúardekkinu við steypuvinnuna.  Í brúardekkið fór um  1.200 rúmmetrar af steypu og stóð steypuvinnan yfir í 30 klukkustundir samfleytt.  Standa þarf sérlega vel að skipulagi og undirbúningi slíkrar steypuvinnu, m.a. þar sem hafa þarf nokkrum sinnum vaktaskipti á tímabilinu sem ganga þurfa snuðrulaust fyrir sig. Allt gekk þetta þó með miklum ágætum og eftir stendur vel heppnuð brú sem bæta mun samgöngur á þessu svæði til muna.

Nánari upplýsingar um verkefnið á vefsíðu Vegagerðarinnar 

Hlutverk VSÓ í verkefninu:

  • Framkvæmdaeftirlit.
  • Framkvæmdarágjöf.

Verktími: 2021-2023

Verkkaupi: Vegagerðin
Verktaki:  Ístak ehf.