19. desember 2023

Kynning á skipulags- og matslýsingu vegna nýs aðalskipulags Hafnarfjarðar

Vel var mætt á kynningarfund um skipulags- og matslýsingu vegna nýs aðalskipulags Hafnarfjarðar 2023-2040 sem fór fram 7. desember í Hafnarborg. Skipulagslýsingin segir til um forsendur, markmið og áherslur þeirrar vinnu sem er framundan, hvernig verði staðið að kynningum, samráði og umhverfismati.  Hafnarfjarðarbær telur mikilvægt að íbúar Hafnarfjarðar og aðrir hagsmunaaðilar kynni sér lýsinguna og leggi fram ábendingar og athugasemdir um það sem þeir telja að betur megi fara í upphafi vinnunnar. Með því móti getur Hafnarfjarðarbær tekið tillit til ábendinga strax í upphafi.

Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri hjá VSÓ, hélt kynningu fyrir hönd skipulagsteymisins sem vann með Hafnarfjarðarbæ að lýsingunni en það eru auk VSÓ, Landslag, Tendra, Úrbana og VSB. Að kynningu lokinni voru opnar umræður og þar komu fram fjölmargar hugmyndir og áherslur sem gestir töldu mikilvægt að skoða í áframhaldandi vinnu.

Leiðarljós Hafnarfjarðar við endurskoðun aðalskipulags eru vellíðan íbúa, öruggt samfélag, sjálfbært og fjölbreytt samfélag á traustum grunni. Endurskoðunin nær til alls lands Hafnarfjarðar, alls um 170 km2, þar af er Krýsuvíkurland um 46 km2. Hafnarfjörður telur mikilvægt að vera reiðubúinn til að taka á móti þeim vexti sem fyrirsjáanlegur er á höfuðborgarsvæðinu og gerir ráð fyrir að árið 2040 verður fjöldi íbúa í bænum á bilinu 38.000-45.000.

Skipulags- og matslýsinguna má nálgast á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og á vef Hafnarfjarðarbæjar. Þá setti VSÓ upp vefsjá fyrir skipulagsvinnuna þar sem m.a. er hægt að merkja á kort og koma þannig á framfæri ábendingum og hugmyndum. koma á framfæri. Öll geta komið með ábendingar við lýsinguna með því að skila ábendingum í gegnum skipulagsgáttina eða með tölvupósti á  skipulag@hafnarfjordur.is í síðasta lagi 15. janúar 2024.