Bryggjuhverfi Vestur 
Vaxtarhús & The Circular District

Sævarhöfði 31

VSÓ Ráðgjöf er hluti af hönnunarteymi sem bar sigur úr býtum í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar og samtakanna C40, undir merkjum Reinventing Cities, um uppbyggingu Sævarhöfða 31 í Reykjavík.  Verkefnið er sérlega áhugavert m.t.t. lausna á sviði hringrásarhagkerfisins, sjálfbærni, umhverfisgæða og lægra kolefnisfótspors.  Þá sker lóðin við Sævarhöfða 31, sem er 2.853 m2 að stærð,  allnokkuð úr umhverfinu vegna tveggja 40 m hárra sementssílóa sem þar standa en fyrirhugað er að sílóin standi áfram og þeim fundið nýtt hlutverk.

Um er að ræða alþjóðlega hönnunarsamkeppni sem kallar eftir framúrskarandi hugmyndum að uppbyggingarverkefnum, frá sjónarmiði borgarþróunar, loftslags og umhverfismála.  Verkefni keppenda var að gera tillögu að lausn sem byggir á 10 áskorunum samkeppninnar um:

  • Sjálfbæra nýtingu orku og framboð hreinnar orku.
  • Sjálfbæra notkun efniviðar og hringrásarhagkerfi.
  • Grænan samgöngumáta.
  • Seiglu og aðlögun.
  • Vistvæna þjónustu fyrir umhverfið.
  • Grænan vöxt og snjallari borg.
  • Sjálfbæra stjórnun vatns.
  • Líffræðilegan fjölbreytileika.
  • Aukinn gróður þéttbýlis og landbúnað.
  • Aðgerðir án aðgreiningar og samfélagslegan ávinning.
  • Nýstárlegan arkitektúr og borgarhönnun.

Í dómnefndaráliti vinningstillögu hönnunarhóps VSÓ í keppninni kemur m.a. fram:

„Tillaga í háum gæðaflokki þar sem tekist er á við allar 10 áskoranirnar á mjög sannfærandi hátt. Viðskiptamódel er sannfærandi og eru umhverfismarkmið tillögu mjög metnaðarfull.  Ávinningur tillögu fyrir hverfið allt og nærsamfélagið er aðdáunarverð þar sem mannvirki er opið fyrir almenningi og bíður upp á lifandi jarðhæðir.  Gæði arkitektúrs er framúrskarandi, þar sem nýstárlegur arkitektúr og efnisnotkun aðgreinir hið nýja frá því gamla en tengist fallega saman“

Vinningstillagan var lögð fram undir yfirskriftinni Bryggjuhverfi Vestur – Vaxtarhús & The Circular District.  Hönnunarteymið samanstendur af eftirfarandi aðilum:

  • VSÓ Ráðgjöf
  • Reiulf Ramstad Arkitekter
  • M Studio Reykjavik
  • Íslenskar Fasteignir
  • Eik Fasteignafélag
  • Landbúnaðarháskóli Íslands
  • Gríma Arkitektar