Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Undanfarin ár hafa verið miklar framkvæmdir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar m.a. vegna mikillar fjölgunar farþega sem í gegnum hana fara.  Um er að ræða stækkanir á flugstöðinni, breytingar á núverandi byggingum, skipulagsmál o.fl. VSÓ hefur unnið með flugstöðinni við undirbúning og framkvæmd þessara verkefna, einkum við framkvæmdaráðgjöf, áætlanagerð og aðstoð við verkefnastjórnun.

Norðurbygging

Flugstöðin gekk í gegnum miklar breytingar og stækkun á árunum 2003-2008.  VSÓ annaðist m.a. hönnunar- og verkefnisstjórn við þetta verkefni, ásamt yfirumsjón með framkvæmdaeftirliti og var með starfsmenn á staðnum allan verktímann.

Skipulag starfseminnar var sérstaklega flókið þar sem flugstöðin var í fullum rekstri á byggingartímanum.  Nauðsynlegt var að deila verkefninu niður í áfanga þar sem taka þurfti tillit til reksturs, öryggismála, tollaafgreiðslu, starfsfólks og notenda.

Í verkefninu felast endurbætur og breytingar á 22.000 m2 eldra húsnæði og bygging 16.500 m2 viðbyggingar, alls 38.500 m2.

Suðurbygging

Árið 2012 hófust endurbætur á suðurbyggingu flugstöðvarinnar og sem fyrr var flugstöðin í fullum rekstri á byggingartímanum. Í endurbótum á suðurbyggingunni fólst m.a. uppsetning á nýjum lyftum og rúllustigum, nýjar snyrtingar og tæknirými í kjallara, endurbætur á fríhafnarsvæði, biðsvæði og vopnaleit á 1. hæð (2.400 m2) og endurbætur á komu- og brottfararsvæði ásamt þjónustusvæðum á 2. hæð. (1.300 m2).  VSÓ annaðist hönnunar- og verkefnastjórn við verkefnið ásamt yfirumsjón með framkvæmdaeftirlit.

Framkvæmdir við stækkun suðurbyggingar hófust sumarið 2014. Viðbyggingin er 5.000 m2 að stærð á þremur hæðum og þar verða m.a. 6 ný brottfararhlið, vopnaleit, ný verslunarsvæði, snyrtingar o.fl.  VSÓ annast áætlanagerð við verkefnið og aðstoðar við verkefnisstjórn.