Endurbætur á Þingvallavegi

Í verkefninu felast endurbætur á Þingvallavegi  á 8 km kafla í gegnum Þingjavallaþjóðgarð, frá Þjónustumiðstöð að vegamótum við Vallarveg, en endurbæturnar voru unnar í tveimur áföngum þ.e. 3 km árið 2018 og 5 km árið 2019. Þingvallaþjóðgarður er á heimsminjaskrá UNESCO og nýtur sérstakrar verndar bæði m.t.t. náttúru og menningarminja. Mikilvægur hluti verkefnisins fólst því í að lágmarka allt rask vegna framkvæmda við veginn en bæta um leið öryggi vegfarenda til mikilla muna.

Áður en framkvæmdir hófust var vegurinn mjór, vegaxlir litlar og á honum mikill fjöldi útskota þar sem sjónlengdir voru oftar en ekki slæmar. Kröfur um öryggissvæði við veginn voru auk þess ekki uppfylltar en m.a. voru klappir og sprungur innan þeirra.

VSÓ Ráðgjöf hannaði endurbætur á vegkaflanum og sá um matsskyldufyrirspurn. Við hönnunina var sérstök áhersla lögð á bætt umferðaröryggi og mikið lagt upp úr endurheimt gróðurs við framkvæmdina. Haldið var í þá veglínu sem fyrir var, vegurinn breikkaður, útskotum fækkað mikið og þeim breytt, ásamt því að kröfur um öryggissvæði voru uppfylltar.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá dæmi um útlit vegarins fyrir og eftir framkvæmdir því sjón er sögu ríkari.

Verktími: 2015-2020

Verkkaupi: Vegagerðin