25. mars 2022

Með skipulagi má byggja sjálfbærar borgir

Andrea Kristinsdóttir er 33 ára skipulagsfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf. Hún segir tækifærin firnamörg, til að mynda þegar kemur að því að stuðla að sjálfbærni í borgarskipulagi á Íslandi.

Margt má gera til að stuðla að sjálfbærni borga og fyrsta skrefið felst í góðu skipulagi. Andrea lærði landfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist úr meistaranámi í skipulagsfræði frá Aalborg Universitet 2015. „Ég hef einnig réttindi til að votta samkvæmt BREEAM communities kerfinu. BREEAM er alþjóðlegt umhverfisvottunarkerfi fyrir skipulag og byggingar sem er ætlað að auka sjálfbærni uppbyggingar. Mitt starf snýr að gerð skipulagsáætlana, aðalskipulagi, deiliskipulagi og breytingum á þeim, umhverfismati áætlana og fleiru. Innan þessara verkefna koma síðan upp fjölbreytt viðfangsefni sem snúa að samgöngumálum, mati á flóðahættu, staðarvalsgreiningu, og ýmiss konar umhverfisþáttum,“ segir Andrea.

Sjálfbærni gegnumgangandi
„Það er ekki svo langt síðan fólk byrjaði almennt að pæla í sjálfbærni byggðar og hingað til hafa praktísk sjónarmið aðallega verið uppi á borðinu. Í dag er krafan um umhverfismál og sjálfbærni orðin háværari. Krafan um umfjöllun um umhverfisáhrif sem og um gagnsæi og vandað samráð er það einnig,“ segir Andrea. „Hugmyndafræði sjálfbærni á að vera gegnumgangandi í öllum verkefnum. Það er jákvætt að í flestum tilfellum í dag eru verkkaupar jákvæðir gagnvart lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum og auka sjálfbærni.“

Skipulag öflugasta verkfærið
„Skipulagsgerð er eitt af öflugustu tækjum sem sveitarfélög hafa í verkfærakistunni til að hafa jákvæð áhrif á sjálfbærni byggðar og loftslagsmál almennt. Skipulagið nær þá yfir fyrirkomulag byggðar, samgöngur, gæði umhverfisins og aðgengi að þjónustu sem við nýtum daglega. Til þess að vinna í átt að sjálfbærni er annars vegar mikilvægt að gera áætlanir og setja skilmála sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Hins vegar þarf að aðlaga byggð að loftslagsbreytingum. Skipulag skapar umgjörð um daglegt líf okkar, hvaða tækifæri við höfum til að uppfylla þarfir okkar og hefur mikið að segja um áhrif okkar á umhverfið. Mitt starf hjá VSÓ felst meðal annars í ráðgjöf við ákvarðanatöku um staðsetningu starfsemi með tilliti til aðgengis eða vegna áhrifa starfsemi á nágrenni. Það er til dæmis mikilvægt að fjölsótt starfsemi sé ekki staðsett þannig að hún sé óaðgengileg, heldur frekar á svæðum þar sem samgöngur eru góðar og tíðar. Það dregur úr ferðaþörf og takmarkar notkun á einkabílnum, sem er jákvætt út frá umhverfissjónarmiðum. Hvað varðar aðlögun að loftslagsbreytingum er okkar hlutverk til dæmis að setja stefnu og skilmála um hvernig við byggjum með tilliti til flóðahættu, hættu á skriðuföllum og annars konar náttúruvá. Á lágsvæðum þarf til dæmis að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi fólks og huga að því að ný mannvirki séu staðsett eða hönnuð þannig að þau skemmist ekki í flóðum. Einnig þarf að skoða hvernig er æskilegt að nýta land til að draga úr losun eða binda kolefni. Það er mikilvægt að fá réttar og áreiðanlegar upplýsingar því mat losunar fer eftir tegund lands og aðstæðum á hverjum stað.“

Sjálfbær Reykjavík
Andrea segir að það sem stuðli helst að sjálfbærni borgar sé samtvinnun ferðamáta og samspil áfangastaða og samgangna. „Í Kaupmannahöfn er þetta leyst með sterkri hjólamenningu og öflugu kerfi almenningssamgangna. Mér þykir Reykjavík vera að standa sig vel í að auka sjálfbærni. Borgin er á réttri leið en á auðvitað langt í land til þess að geta talist sjálfbær. Þá þykir mér áhersla borgarinnar á fjölbreytta samgöngumáta, hágæða almenningssamgöngur og hjólreiðaáætlun, vera þættir sem eru líklegir til að auka sjálfbærni borgarinnar. Einnig er áhersla borgarinnar á þétta og blandaða byggð innan vaxtarmarka mikilvægur þáttur í að auka sjálfbærni. Hugmyndafræðin um fimmtán mínútna hverfi vegur þar einnig þungt, því það stuðlar að sjálfbærni að fólk geti sinnt daglegum erindum sínum gangandi eða hjólandi í nágrenni við heimili sitt. Sjálf bý ég í Vesturbæ Reykjavíkur, sem að mínu mati uppfyllir margar af þeim kríteríum sem eru á bak við sjálfbærnihugsjónina. Þetta er fimmtán mínútna hverfi, aðgengi að samgöngum er almennt gott, vegalengdir eru stuttar og auðvelt að hjóla. Það er hægt að sinna daglegum erindum að stórum hluta án einkabílsins. Einnig þykir mér áhugaverð og spennandi nálgun í nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar þar sem kostnaður við rekstur einkabíls er skoðaður í samhengi við húsnæðiskostnað, en húsnæði og samgöngur eru auðvitað tvær hliðar á sama peningnum. Það hefur vantað upp á að það sé tekið inn í reikninginn hversu mikill tími og peningur fer í að keyra til dæmis úr úthverfi á þjónustusvæði. Þetta finnst mér vera flott nálgun.“

Viðtalið við Andreu Kristinsdóttur, skipulagsfræðing hjá VSÓ, birtist í Fréttablaðinu 25. mars 2022.