27. maí 2021

Hjólaleiðanet fyrir Reykjavíkurborg

Tillaga að hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar til ársins 2025 var samþykkt í Skipulags- og samgönguráði í lok maí.  Ráðgjafar úr hópi starfsmanna VSÓ unnu með stýrihópnum sem mótaði tillöguna og uppbygging hjólaleiða í Reykjavík næstu árin mun byggja á greiningum og ráðleggingum VSÓ Ráðgjafar.  Við erum stolt af okkar framlagi til þess að hjólaborgin Reykjavík taki út nýtt þroskaskeið. 

Nýjar áherslur – Nýjar framkvæmdir

Hlutverk VSÓ Ráðgjafar var að stilla upp og greina valkosti við lagningu hjólareina, stíga og hjólagatna sem gera hjólaleiðanetið öruggt, aðgengilegt og ánægjulegt ásamt því að nýta sem best fyrirliggjandi fjárfestingar. Markmiðið er að gera hjólreiðar aðlaðandi og öruggan valkost fyrir fleira fólk en nú þegar hjólar. Miklar framfarir hafa orðið undanfarin ár í umhverfi hjólreiðafólks en tillögur ráðgjafa okkar miða að því að gera hjólreiðar enn aðgengilegri fyrir fölbreyttari hóp.

Stafrænar framfarir

Á bak við tjöldin voru gerðar stórstígar umbætur á stafrænum gögnum um hjólreiðakerfið í dag og fyrirliggjandi áætlanir sem munu gera greiningar og utanumhald mun skilvirkari í framtíðinni. Úrbætur og framleiðsla á gögnum fyrir landupplýsingakerfi mun auðvelda stafræna framsetningu og samtengingu gagna úr ólíkum áttum. Áætlanagerð með tilliti til mannfjöldaþróunar, umferðar og annarra framkvæmda verður nú mun aðgengilegri.

Forskot með rannsóknum og þróunarvinnu

VSÓ Ráðgjöf hefur unnið ýmsa rannsóknarvinnu síðastliðin ár sem var sannkölluð ánægja að leggja inn í vinnu stýrihóps um endurskoðaða hjólreiðaáætlun og fá að prófa fræðin í reynd. Vegna þess hversu margar ólíkar kröfur eru gerðar til hjólaleiða var gerð tilraun með notkun fjölþátta matskerfis (e. Multicriteria design analysis) til að meta safn ólíkra krafna. Niðurstöður lofa góðu um notkun slíkrar aðferðafræði, með stuðningi frá landupplýsingakerfum, til að forgangsraða framkvæmdum og móta tillögur svo ná megi sem mestum árangri.