02. maí 2023

Áhugaverðir staðir á Gullna hringnum – skráning myndastoppa

Gera þarf úrbætur og auka umferðaröryggi á mörgum áningarstöðum ferðamanna við Gullna hringinn. Þetta er meginniðurstaða skýrslu sem VSÓ Ráðgjöf vann Vegagerðina en verkefnið var fjármagnað af Vörðu sem er samstarfsverkefni á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Markmið verkefnisins, sem ber yfirskriftina Áhugaverðir staðir á Gullna hringnum – skráning myndastoppa, var að fá heildstæða yfirsýn yfir staði á Gullna hringnum þar sem ferðamenn stoppa gjarnan til myndatöku og þar sem engin aðstaða er til staðar. Einnig að leggja til fyrstu úrbætur að bættu flæði umferðar ferðamanna um svæðið og jöfnun á álagstoppum sem og búa til grunn til frekari úrbóta til framtíðar.

Úttekt á 24 stöðum á 210 km vegarkafla
Gerð var úttekt á 24 stöðum á 210 km vegarkafla um Þingvallaveg, að Geysissvæðinu og Gullfossi og niður á Suðurlandsveg skammt norðan við Selfoss. Tekin voru viðtöl við aðila sem þekkja vel til umferðar um Gullna hringinn og þeir beðnir um að segja frá þeim stöðum þar sem þeir verða varir við að ferðamenn stoppi til myndatöku.

Í skýrslunni er fjallað var um hvern stað fyrir sig í máli og myndum. Hver og einn staður er flokkaður, gefin einkunn fyrir umferðaröryggi og sagt frá þeim aðbúnaði sem finna má á hverjum stað t.d. ef þar má finna bekki, borð eða skilti. Tekið er fram í kafla hvers áningarstaðar hvort skráð slys eða óhöpp hafi átt sér stað í námunda við staðinn og byggt á slysakorti Samgöngustofu yfir 10 ára tímabil, frá 2012 til 2021.

Norðurljósin mikið aðdráttarafl
Aðdráttarafl á hverjum stað er tilgreint, s.s. útsýni,  gönguleiðir og norðurljós. Við vinnslu skýrslunnar kom í ljós vöntun á svæðum þar sem hægt er að njóta norðurljósanna í öllu sínu veldi í öruggu umhverfi og  lágmarks ljósmengun. Í viðauka skýrslurnnari er að finna tillögur um hvernig myndastopp, áningarstaður og norðurljósastopp gætu litið út.  Þar eru jafnframt lagðar til úrbætur á níu áningarstöðum, með vísun í hönnunartillögur.

Höfundar skýrslunnar eru Auður Magnúsdóttir umhverfisstjórnunarfræðingur og Ásta Camilla Gylfadóttir landslagsarkitekt hjá VSÓ Ráðgjöf.

 

Áhugaverðir staðir á gullna hringnum – Skráning myndastoppa, skýrsla [pdf].
Stórhættulegar „sjálfur“ umfjöllun Í fréttum RÚV þann 26.04.2023.
Myndastoppin viða hættusöm umfjöllun á vef MBL þann 25.04.2023. 

VSÓ Ráðgjöf veitir þjónustu á breiðu sviði sem styður við öryggi í samgöngum og stefnumótun ferðaþjónustu á sviði sjálfbærni og ábyrgrar ferðaþjónustu.


Nánari upplýsingar veitir:

Ásta Camilla Gylfadóttir 
Landslagsarkitekt M.Sc.
astag@vso.is
s: 585 9183