4. apríl 2022

Græna leiðin til bættrar orkunýtingar

Eftirfarandi grein birtist í 2. tbl. Sóknarfæra 2022. Greinina skrifuðu Andrea Kristinsdóttir, skipulagsfræðingur og Bjartur Guangze Hu, byggingarverkfræðingur hjá VSÓ.

Með aukinni umhverfisvitund, stefnumótun í loftslagsmálum og eftir því sem við áttum okkur betur á áhrifum okkar á jörðina hefur nauðsyn þess að draga úr umhverfisáhrifum og aðlaga okkur að loftslagsbreytingum orðið brýnni. Græna leiðin hjá VSÓ Ráðgjöf felur í sér ráðgjöf okkar um vistvænar og hagkvæmar lausnir með grænum áherslum. Með því er átt við lausnir sem lágmarka kolefnislosun, auðlindanýtingu og úrgangsmyndun. BREEAM umhverfisvottun er dæmi um áhrifaríka leið til að draga úr umhverfisáhrifum og ná markmiðum um orkunýtingu.

BREEAM umhverfisvottun

Í BREEAM umhverfisvottunarferli þarf framkvæmdaaðili að standast kröfur sem varða m.a. hönnun og skilmálagerð. Vottunarferlið er tækifæri til að skoða með skipulögðum hætti alla áhrifaþætti verkefnis og útfæra þá þannig að dregið sé úr umhverfisáhrifum. Í gegnum vottunarferlið verður ákvörðunartaka faglegri, gæði samráðs aukast og umhverfisáhrif verða minni. BREEAM umhverfisvottun gerir byggingar og svæði eftirsóknarverð einnig þar sem vottunin er eitt af skilyrðunum fyrir grænni fjármögnun sem felur í sér hagstæðari lánskjör. Hjá VSÓ Ráðgjöf starfar hópur sérfræðinga með réttindi í BREEAM umhverfisvottunarkerfinu fyrir skipulagsáætlanir, nýbyggingar, byggingar í rekstri og endurbyggingu og endurnýjun húsnæðis. Við önnumst vottunarferli, gerum úttektir á hönnun, könnum hvort kröfur séu uppfylltar framkvæmum þéttleikapróf o.fl. Í BREEAM umhverfisvottun er gerð krafa um að lagt sé mat á orkunotkun. Hjá VSÓ höfum við unnið orkuáætlun fyrir BREEAM Communities vottun Orkureitsins þar sem við skoðum orkunotkun fyrir svæðið í heild. Við skoðum einnig orkunýtni einstaka bygginga þar sem koma saman margir áhrifaþættir og leggjum til aðgerðir til að stuðla að bættri orkunýtingu.

Ýmsar leiðir eru færar til aukinnar orkunýtingar.

Aukin orkunýtni bygginga

Það er heldur nýtilkomið að litið sé til orkusparnaðar við hönnun nýbygginga og endurbyggingu hér á landi, í samanburði við stífar kröfur í nágrannalöndum okkar. Þó hefur nokkur framför orðið á síðustu árum, m.a. með útgáfu nýrrar byggingarreglugerðar. Margar ástæður eru til að ganga lengra í þeim efnum en hins vegar vegur það á móti hversu vel við búum að ódýrri og umhverfisvænni orku til húshitunar. Á hitaveitusvæðum felst bætt orkunýtni helst í að koma í veg fyrir óþarfa orkusóun. Oft er hægt að innleiða betra eftirlit og viðhald á kerfum þannig að hægt sé að greina tímanlega hvar óeðlileg orkueyðsla á sér stað og grípa til aðgerða.  Að setja upp orkumælingar fyrir einstök kerfi bygginga getur þar komið að miklu gagni. Í opinberu- og atvinnuhúsnæði getur orkuþörf loftræstikerfa vegið þungt. Ef loftræsikerfi eru með slaka nýtni og/eða óþarflega mikið loftmagn og gangtíma miðað við notkun hússins getur raforkukostnaður hæglega verið meiri en upphitunarkostnaðurinn. Með því að nota þarfastýringar á loftmagn kerfa er hægt að halda rekstrarkostnaði við kerfin í lágmarki. Varmaendurvinnsla í loftræsikerfum minnkar verulega upphitunarþörf vegna loftskipta og yfirleitt er skynsamlegt að útfæra kerfi með slíkum búnaði.

Fjölbreytt tækifæri

Á köldum svæðum er hægt ná fram verulegum sparnaði í orkukostnaði, t.d. með notkun á varmadælum sem færst hefur í vöxt undanfarin ár. Útfærslumöguleikar eru margs konar og mikilvægt að finna lausnir sem henta mismunandi aðstæðum og þannig hámarka sparnað og virkni. Á köldum svæðum kemur einnig til greina að bæta einangrun eða brenna lífmassa. Sólarhitun neysluvatns hefur notið vinsælda víða erlendis og gæti verið áhugaverður kostur þar sem neysluvatnsnotkun er mikil að sumarlagi. Dæmi eru um að styrkir séu veittir fyrir stofnkostnaði við orkusparandi aðgerðir. Það ætti því að vera mikill hvati fyrir húseigendur á köldum svæðum að fjárfesta í orkusparandi aðgerðum. Vegna sérstöðu okkar í orkumálum þarf að vega og meta hversu langt á að ganga þannig að raunverulegur ávinningur náist í kostnaði og gæðum.

Orkuútreikningar hjá VSÓ Ráðgjöf

VSÓ Ráðgjöf hefur sérþekkingu í orkubúskap og orkuútreikningum nýbygginga hér heima og erlendis. Við nýtum byggingarhermiforrit (SIMIEN) til að framkvæma dýnamíska orkuútreikninga og sýna frammistöðu byggingarhönnunar m.t.t. orkuþarfar og orkunotkunar. Með þessu er hægt að tryggja skilvirka útfærslu á byggingarhjúp og tæknikerfum bygginga. Við leggjum áherslu á víðtæka þekkingu og að við séum upplýst um allar nýjungar á þessu sviði. VSÓ Ráðgjöf sá um að framkvæma dýnamíska orkureikninga fyrir 1. og 2. áfanga Dalskóla, leik- og grunnskóli, þar sem við sáum einnig um BREEAM vottun framkvæmdarinnar. Með því að leggja mat á orkunýtni bygginga við hönnun þeirra gafst tækifæri til að bregðast við í hönnun og þannig auka orkunýtni við rekstur skólans.