1. júní 2022

Hverfið mitt 2021-2022, austurhluti

Síðastliðið ár hefur VSÓ tekið þátt í skemmtilegu verkefni hjá Reykjavíkurborg, landslags- og verkfræðihönnun í Hverfinu mínu 2021-2022 Austur. Verkefnið hófst á vormánuðum 2021 með gerð kosningaseðla fyrir 140 verkefni sem valin voru af innsendum tillögum íbúa. Kosning fór fram haustið 2021 og niðurstöður klárar í október, 59 verkefni valin áfram til hönnunar og framkvæmda. Verkefnin voru alls konar en klárlegur sigurvegari þetta árið er ærslabelgurinn, alls 13 stykki kosin í heild í Hverfinu mínu í Reykjavík, þar af eru 9 stykki austan megin.

Vinnan hefur gengið vel, verkefnastjórar Hverfis míns Austur hjá Reykjavíkurborg, þeir Bragi Bergsson og Eiríkur Búi Halldórsson hafi haldið vel um verkefnið hjá verkkaupa. Nú í vikunni lauk allri vinnu við hönnun og gerð útboðsgagna, verkefnin komin í útboð (samtals 5 útboð, hið fyrsta fór út í mars) og framkvæmdarstig er hafið. Við áfanga er gott að fagna góðu verki, sem var gert með köku skreyttri í anda Hverfis míns. Innan VSÓ komu að verkinu starfsfólk af byggðatæknisviði, burðarvirkjasviði og tæknisviði – rafmagn.

Fjölbreytileiki verkefna sem valin voru til framkvæmda:
Ærslabelgur – jólaljós – ærslabelgur – gróðursetningar trjáa og runna – þrekstigi – ærslabelgur -trampólíngarður – jólaljós – bætt lýsing – vatnspóstar – trjá- og gróðursöfn – ruslatunnur – áningarstaður – fegra umhverfi – fleiri bekki – útiborðtennisborð – infrarauður saunaklefi – ævintýra- og útivistarsvæði – ærslabelgur – vaðlaug – jólaþorp – ærslabelgur – grænt leiksvæði og æfingatæki – fleiri bekki og ruslatunnur – gróðursetja fleiri tré – sjósundsaðstaða – fjallahjólasvæði – trampólíngarður – nuddfoss – stigi ofan í fjöru – ærslabelgi – aparóla – jólaljós – betri lýsing – bílastæði – fleiri bekki – lýsa upp göngustíg – aparóla – ærslabelgur – bekkir við sjó – gróðursetja tré – frisbígolfvöllur – ærslabelgur – fjallahjólastígur – áningarstaður með grilli – stígur frá dal að vatni – körfuboltavöllur við skóla – gróðursetningar trjáa og runna og að lokum rathlaupabraut!