22. mars 2022

Verkefni VSÓ og BM Vallár „Hringrásarhús Ísland“ hlýtur styrk úr mannvirkjarannsóknarsjóðnum Aski

Þann 17. mars síðastliðinn fór fram formleg athöfn, í Veröld – húsi Vigdísar, vegna styrkúthlutunar úr mannvirkjarannsóknarsjóðnum Aski en þetta er í fyrsta sinn sem veittir eru styrkir úr sjóðnum til nýsköpunar- og rannsóknarverkefna á sviði mannvirkjagerðar.

Styrkir voru veittir í fimm flokkum og snéru áherslur sjóðsins aðallega að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, enda er byggingariðnaður ábyrgur fyrir 40% af kolefnislosun á heimsvísu.

VSÓ hlaut sjö milljóna króna styrk úr flokknum tækninýjungar fyrir verkefnið Hringrásarhús Ísland – Iceland Circle house. Í þessum flokki var lögð áhersla á að þróa tæknilausnir sem hafa það markmið að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, skilvirkni, samskipti og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði. VSÓ Ráðgjöf hefur unnið að verkefni þessu í nánu samstarfi við BM Vallá en þar á bæ er mikill metnaður fyrir þróun steinsteypu sem uppfyllir markmið verkefnisins.

Markmið verkefnis VSÓ er að skoða hvort hægt sé að hanna og reisa Hringrásarhús á Íslandi. Fyrirhugað er að hringrásarhúsið verði u.þ.b. 40 fermetra sýningarrými sem hægt verður að taka í sundur og setja saman aftur. Húsið verður reist úr forsteyptum byggingareiningum sem lágmarkar kolefnisspor og hámarkar auðlindanýtingu og er markmiðið að 90% af byggingarefnum verði endurnotuð eða endurnotanleg.
Hringrásarhús verður fyrsta húsið á Íslandi byggt á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Verkefnið býður uppá möguleika á því að umbylta því hvernig byggingar eru hugsaðar, hannaðar og byggðar á Íslandi ásamt því að veita öðrum geirum innblástur í vöruþróun innan hringrásarhagkerfisins. Einingarnar verða hannaðar þannig að þær líti út sem varanleg bygging en ekki tímabundið mannvirki sem hefur stundum verið yfirbragð núverandi einingarhúsa.

VSÓ vill vera leiðandi á markaði í umhverfisstjórnum og umhverfismálum í víðum skilningi og stuðla þannig að betra umhverfi. Ísland stefnir að kolefnishlutleysi 2040 og viljum við leggja okkar að mörkum til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar.

Við erum ákaflega þakklát fyrir þennan styrk og væntum þess að verkefnið muni auka þekkingu okkar á þessu sviði enn frekar.