15. janúar 2022

Hlemmtorg og nánasta umhverfi fær andlitsupplyftingu

Undanfarin ár hafa Reykjavíkurborg og Veitur unnið að gagngerum breytingum á ásýnd og nýtingu Hlemmtorgs og nánasta umhverfis sem er í eigu borgarinnar. Markmið þessara breytinga er að „svæðið verði að heildstæðu borgarrými sem styður við þá þéttingu sem orðið hefur og framundan er í Holtunum, Túnunum, á Heklureit og við Hverfisgötu. Einnig verður horft til breytinga á samgönguskipulagi svæðisins með tilkomu Borgarlínu og breytingum á umferð Strætó.“

Að lokinni hugmyndaleit árið 2018, þar sem þremur stofum var boðin þátttaka, stóðu Mandaworks (Svíþjóð) og DLD – Dagný Land Design (Ísland)  uppi sem sigurvegarar og þau í kjölfarið beðin um að vinna saman að endanlegri yfirborðshönnun Hlemmtorgsins. Eins og sjá má á yfirlitsmyndinni hér til hliðar nær framkvæmdasvæðið þó yfir mun stærra svæði og þar kemur VSÓ Ráðgjöf að verkefninu sem hönnuðir gatna, torga, stétta og hjólastíga ásamt gatna- og torgalýsingu. Enn fremur sér VSÓ um hönnun á fráveitu, vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu fyrir allt framkvæmdasvæðið, á svæði þar sem lögð er áhersla t.d. á blágrænar ofanvatnslausnir. VSÓ er jafnframt samræmingarhönnuður verksins.

Eins og skiljanlegt er þá er stórri framkvæmd sem þessari skipt upp í nokkra framkvæmdaráfanga. Á næstunni fer í gang útboð á 1. áfanga sem kemur til framkvæmda á þessu ári. Í þeim áfanga felst annars vegar göturýmið sem nær frá Snorrabraut að húshorninu til móts við Hlemm mathöll (yfirborðshönnun Mandaworks og DLD – Dagný Land Design) og hins vegar Rauðarárstígur sem nær frá Hverfisgötu að Bríetartúni (yfirborðshönnun VSÓ Ráðgjöf). Hlekk á frétt frá Reykjavíkurborg má finna hér að neðan, þar sem nánar er farið í einstaka verkliði framkvæmda ársins. Reykjavíkurborg og Veitur eru framkvæmdaraðilar verksins.

Framkvæmdir á Hlemmsvæðinu hefjast bráðlega – Frétt á vef Rvk 3. feb. 2022.