10. ágúst 2022

Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar hefur verið gefin út og birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Um er að ræða vegvísi sveitarfélaga í úrgangsmálum sem fjallar um þær stefnumótandi ákvarðanir og þjónustu sem sveitarstjórnum eru faldar samkvæmt lögum. Handbókin er unninn á grunni aðgerða sem tilgreindar eru í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum, „Í átt að hringrásarhagkerfi“, sem gefin var út árið 2021 og byggir á 5. gr. laga 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Verkefnið er á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar. Það er von þeirra sem komið hafa að gerð handbókarinnar að hún muni nýtast sem góður grunnur til frekari fræðslu við innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi.

Í handbókinni er fjallað um leiðir að markvissri og bættri úrgangsstjórnun sveitarfélaga í samræmi viðmarkmið sem sett hafa verið í tengslum við innleiðingu hringrásarhagkerfis. Farið er yfir skyldur sveitarfélaga í málaflokknum og ýmis úrræði sem þau hafa heimild til að beita. Jafnframt eru leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um gerð svæðisáætlana hluti af handbókinni og umfjöllun um hvernig sveitarfélög geta í auknum mæli nýtt svæðisáætlanagerð til að skapa sýn og taka ákvarðanir sem tryggja
virka úrgangsstjórnun.

VSÓ Ráðgjöf leiddi vinnu við gerð handbókarinnar og hefur unnið náið með sérfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar við gerð hennar.VSÓ Ráðgjöf þakkar sambandinu og Umhverfisstofnun fyrir góða vinnu og farsælt samstarf við þetta verkefni.

Handbók um framkvæmd úrgangsstjórnunar